Thomas Sankara

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Thomas Sankara
Forseti Búrkína Fasó
Í embætti
4. ágúst 1983 – 15. október 1987
ForveriJean-Baptiste Ouédraogo
EftirmaðurBlaise Compaoré
Forsætisráðherra Efri-Volta
Í embætti
10. janúar 1983 – 17. maí 1983
ForsetiJean-Baptiste Ouédraogo
ForveriSaye Zerbo
EftirmaðurEnginn
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. desember 1949
Yako, Efri-Volta
Látinn15. október 1987 (37 ára) Ouagadougou, Búrkína Fasó
DánarorsökMyrtur
StjórnmálaflokkurAfríski sjálfstæðisflokkurinn
MakiMariam Sankara
Börn2
Undirskrift

Thomas Isidore Noël Sankara (21. desember 1949 – 15. október 1987) var búrkínskur hermaður og byltingarmaður sem var forseti Búrkína Fasó frá 1983 þar til hann var drepinn í valdaráni árið 1987. Sankara var fygjandi marxisma og Afríkueiningarstefnunni og naut mikillar alþýðuhylli á stjórnartíð sinni. Hann er eitt helsta byltingartákn Afríku og er gjarnan kallaður „Che Guevara Afríku.“

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1970, þegar Sankara var 20 ára gamall, fór hann frá Efri-Volta til herskóla á Madagaskar til þess að hljóta þjálfun sem liðsforingi í her Efri-Volta. Hann varð þar fyrir áhrifum af pólitískum tíðaranda og varð vitni að því þegar tugþúsundir íbúa Madagaskar fjölmenntu út á götur höfuðborgarinnar í maí 1972 og hröktu ríkisstjórn landsins frá völdum.[1]

Eftir nám sitt á Madagaskar dvaldi Sankara um skeið í Frakklandi og kynntist þar ýmsum vinstrisinnuðum stjórnmálastefnum. Þegar hann sneri aftur til Efri-Volta árið 1974 braust út landamærastríð gegn Malí þar sem Sankara vann sér lof með hetjulegri framgöngu. Hann gagnrýndi þó stríðið og kallaði það „tilgangslaust og óréttlátt.“[1]

Snemma árs 1983 var Sankara skipaður forsætisráðherra í stjórn Jean-Baptiste Ouédraogo, forseta Efri-Volta. Í því embætti talaði Sankara opinberlega gegn heimsvaldastefnu og hvatti alþýðu landsins til að verja sig gegn erlendum og innlendum fjármálahagsmunum. Sankara og aðrir róttækir herforingjar lentu fljótt í ágreiningi við íhaldsöfl innan ríkisstjórnarinnar og svo fór að þann 13. maí 1983 var Sankara bolað úr embætti og hann tekinn fastur.[1]

Innan fáeinna daga frá handtöku Sankara þyrptust þúsundir ungs fólks út á götur til að krefjast lausnar hans. Sumt stuðningsfólk Sankara fór til nærri landamærunum við Gana og hlaut þar herþjálfun hjá bandamanni Sankara, herforingjanum Blaise Compaoré. Þann 4. ágúst gerðu 250 hermenn áhlaup á höfuðborgina Ouagadougou, steyptu Ouédraogo af stóli og frelsuðu Sankara. Sankara varð í kjölfarið forseti nýs „Þjóðarráðs byltingarinnar.“[1]

Stjórnartíð (1983–1987)[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Sankara tók við völdum lét hann breyta nafni Efri-Volta í Búrkína Fasó, sem „merkir land hinna keiku manna“[2] eða land „hinna heiðarlegu.“ Nafnabreytingin var liður í viðleitni Sankara til að má út ummerki nýlendutímans.[3]

Sankara tók við lélegu þjóðarbúi þegar hann settist á forsetastól. Ungbarnadauði var um 208 af hverjum 1.000, sem var hæsta hlutfall í heimi. Hlutfall sjúkrahúsrúma var aðeins eitt á hverja 1.200 landsmenn og aðeins einn læknir á hverja 50.000, sem olli því að hlutfall dauðsfalla úr sjúkdómum í Búrkína Fasó var einnig með því hæsta á heimsvísu. Hlutfall ólæsis var yfir níutíu prósentum landsmanna og spilling í stjórkerfinu var útbreidd og mikill hluti ríkisútgjalda fór í greiðslur til embættismanna.[4] Mikill hluti smábændastéttarinnar varð auk þess að vinna þegnskylduvinnu fyrir stórhöfðingja og greiða ríkisstjórninni nefskatt sem hafði viðhaldist allt frá nýlendutímanum.[1]

Á stjórnartíð sinni stóð Sankara fyrir stórtækum bólusetningarherferðum og virkjaði alþýðu í svokölluðum „Varnarnefndum byltingarinnar“ til að hleypa af stað byggingu áveitukerfa, skóla og vegakerfa. Hann stóð jafnframt fyrir lestrarátaki á þremur megintungumálum og lét stofna samtök fyrir konur, æskulýð og eldra fólk.[1]

Sankara lét leggja af nefskattinn og banna þegnþjónustu fyrir þorpshöfðingjana. Hann lét einnig þjóðnýta landeignir til þess að tryggja smábændum aðgengi að ræktarlandi. Hann gerði heilsugæslu einnig aðgengilegri fyrir búrkínsku landsbyggðina og stóð fyrir átaki til að stemma stigu við árblindu, sem hafði haldið þúsundum landsmanna frá ræktanlegu landi. Heilsuátök á stjórnarárum Sankara stuðluðu að því að árið 1987 hafði ungbarnadauði í landinu minnkað niður í 145 af hverjum 1.000 börnum.[1]

Sankara var innblásinn af kúbversku byltingunni, sem hann kallaði „tákn hugdirfsku og staðfestu.“ Hann var ötull andstæðingur aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku og reyndi að virkja alþýðu Búrkína Fasó í samstöðuaðgerðum með þjóðunum í sunnanverðri Afríku. Sankara beitti sér einnig gegn stjórn Suður-Afríku á vettvangi Afríska einingarbandalagsins og hvatti önnur Afríkuríki til að gerast aðilar að viðskiptabanni gegn henni. Hann sýndi jafnframt samstöðu á alþjóðavettvangi með sandínistum í Níkaragva, SWAPO í Namibíu, PLO í Palestínu og Polisario-hreyfingunni í Vestur-Sahara.[4]

Ólíkt mörgum marxistaleiðtogum þessa tíma lét Sankara sig náttúruvernd einnig miklu varða. Frá tíma frönsku nýlendustjórnarinnar hafði Búrkína Fasó smám saman verið að glata ræktanlegu landi vegna eyðimerkurmyndunar. Sankara leit á eyðimerkurmyndinina sem arfleifð ræktunarhátta sem heimsvaldasinnar hefðu innleitt í landinu og kallaði umhverfisbaráttu „baráttu sem [væri] umfram allt pólitísk.“ Á stjórnartíð sinni virkjaði Sankara þúsundir fólks til þess að gróðursetja tré til þess að stemma stigu við eyðimerkurmynduninni.[4]

Sankara talaði jafnframt gegn kúgun kvenna og setti kvenfrelsisbaráttu í stéttarsamhengi í ræðum sínum.[4] Á stjórnartíð sinni lét Sankara banna limlestingar á kynfærum kvenna, þvinguð hjónabönd og fjölkvæni.[5]

Dauði Sankara og eftirmálar[breyta | breyta frumkóða]

Þann 15. október 1987 gerði hópur herforingja undir forystu Blaise Compaoré hallarbyltingu gegn Sankara. Valdaránið leiddi til átaka þar sem Sankara var drepinn ásamt um hundrað stuðningsmönnum sínum.[6] Compaoré lýsti sjálfan sig nýjan forseta landsins í kjölfarið og fordæmdi Sankara í fyrstu sem „liðhlaupa og svikahrapp“ og „einræðissegg sem vildi gera landið að hálfnýlendu.“ Stuttu síðar mildaði Compaoré þó orðræðuna um Sankara og sagði hann hafa verið „byltingarsinna sem fór villur vegar“ og lagði áherslu á að ætlunin hefði ekki verið að drepa forsetann.[7] Sankara var grafinn í snarhasti í kirkjugarði í Dagnoen-héraði en fjölskylda hans dró lengi í efa að jarðneskar leifar hans væru í raun að finna þar.

Compaoré réð yfir Búrkína Fasó þar til hann var rekinn frá völdum eftir fjöldamótmæli árið 2014 og flúði til Fílabeinsstrandarinnar. Alla stjórnartíð sína neitaði Compaoré að rannsaka dauða Sankara en eftir að honum var steypt af stóli lögðu stjórnvöld aukna áherslu á uppgjör við morðið. Samþykkt var árið 2015 að grafa upp lík Sankara til að rannsaka það.[8][9]

Réttarhöld vegna morðsins á Sankara hófust árið 2021. Compaoré og tíu aðrir voru ákærðir vegna dauða hans.[10] Þann 6. apríl 2022 var Compaoré dæmdur að sér fjarstöddum í lífstíðarfangelsi fyrir morðið.[11]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Pólitísk arfleifð Sankara“. Þjóðviljinn. 4. apríl 1989. bls. 5.
  2. Kristján B. Jónasson (26. júlí 2008). „Ouagadougou“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 2.
  3. „Nýlendutíminn máður út“. Dagblaðið Vísir. 23. ágúst 1984. bls. 10.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 Doug Cooper (1. janúar 1989). „Sankara heyrir ekki sögunni til, hann tilheyrir vinnandi fólki alls staðar“. Réttur. bls. 24-30.
  5. Pierre Lepidi (4. janúar 2020). „Thomas Sankara, le féministe“. Le Monde. Sótt 28. júlí 2022.
  6. „Sankara forseti féll ásamt 100 mönnum“. Morgunblaðið. 17. október 1987. bls. 30.
  7. „Sankaras er saknað“. Þjóðviljinn. 22. október 1987. bls. 10.
  8. „Grafa upp lík fyrrverandi forseta“. mbl.is. 26. maí 2015. Sótt 28. júlí 2022.
  9. „Leifar Sankara verða grafnar upp“. mbl.is. 7. mars 2015. Sótt 26. júlí 2022.
  10. Þorvarður Pálsson (9. október 2021). „Réttar­höld vegna ára­tuga gamals for­seta­morðs“. Fréttablaðið. Sótt 26. júlí 2022.
  11. „Burkina Faso : l'ancien président Blaise Compaoré condamné par contumace à la prison à perpétuité pour l'assassinat de Thomas Sankara“. Le Monde. 6. apríl 2022. Sótt 26. júlí 2022.


Fyrirrennari:
Jean-Baptiste Ouédraogo
Forseti Búrkína Fasó
(4. ágúst 198315. október 1987)
Eftirmaður:
Blaise Compaoré