The Selfish Gene

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

The Selfish Gene, eða Sjálfselska genið, er bók um erfðafræði frá árinu 1976 eftir breska líffræðinginn Richard Dawkins. Í bókinni hafnar Dawkins hefðbundnum skilningi almennings á þróunarkenningu Darwins um að hæfasti einstaklingurinn lifi af og setur fram eigin túlkun þess efnis að það sé hæfasta genið sem lifi af.

Hann gengur jafnvel svo langt að segja að einstaklingurinn sé ekkert meira en tæki sem genið (eða genin) hafa búið til í þeim tilgangi einum að lifa af og fjölga sér inn í framtíðina. Hann bendir t.d. á þá staðreynd í bókinni að það eru til gen sem eru svo hæf í því að lifa af að þau hafa verið til í tugi milljóna ára og að maðurinn og heimilishundurinn hafi mörg þúsund gen sameiginleg þótt óratími sé liðinn frá því að dýrategundirnar skildust að í þróuninni. Gen lifi því miklu lengur en einstaklingar, hópar, kynþættir eða heilu ættbálkar dýra sem kunna að hafa orðið útdauð því genin lifi enn í öðrum dýrategundum.

Genin séu því sjálfselsk í þeim skilningi að þeim er alveg sama hvort einstaklingurinn lifi eða deyi, og þau jafnvel stuðla að því að hann deyi, ef það eykur líkurnar á því að genið lifi af í öðrum einstaklingum sem auka kyn sitt og stuðla þannig að aukinni útbreiðslu gensins.

Dawkins tekur fram í bókinni að genið sé ekki sjálfselskt í þeim skilningi að það sé hugsandi vera heldur sé sjálfselskan niðurstaðan úr þeirri þróun sem á sér stað í gegnum kynslóðirnar og genið hefur áhrif á.

Sjálfsfórn[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndir sínar rökstyður Dawkins með því að grípa til hugtaksins sjálfsfórnar. Ef það sé hæfasti einstaklingurinn sem lifir af þá sé sjálfsfórn nánast ómöguleg því það gengur þvert á vilja einstaklingsins til að lifa af og fjölga sér. Sjálfsfórn sé hinsvegar eðlileg í heimi þar sem hæfasta genið lifi af því einstaklingur sé líklegur til að fórna sjálfum sér til þess að stuðla að því að hópur sem er erðafræðilega skyldur þeim einstaklingi lifi af. Með sjálfsfórninni stuðli einstaklingurinn að því að genin sem hann ber lifi af og fjölgi sér í öðrum einstaklingum.

Sjálfsfórn í þessum skilningi þarf ekki endilega að þýða dauða einstaklings heldur getur einnig náð til hegðunar eins og þeirrar að sleppa því að makast, jafnvel um alla ævi, til þess að taka þátt í umönnun annarra einstaklinga, t.d. systkina.

Í bókinni eru t.d. tekin dæmi af hópum systra sem í dýrum sem beita kynæxlun eru 75% erfðafræðilega skyldar hver annarri. Erfðafræðilegur skyldleiki foreldra og barna er hinsvegar aðeins 50%. Því sé sjálfsfórn líklegri í hópi systra en á milli foreldra og barna og í náttúrunni er hægt að finna fjölda slíkra dæma, t.d. hjá býflugum.


Meme[breyta | breyta frumkóða]

Í bókinni setur Dawkins einnig fram hugtakið Meme, sem er samsetning af ensku orðunum memory og gene. Meme er hugmynd eða upplýsingaeining sem verður til hjá einum einstaklingi og dreifist síðan til annarra einstaklinga með svipuðum hætti eins og gen. Á æviskeiði hugmyndarinnar gengur hún í gegnum svipað ferli eins og gen, þ.e. hún verður til, dreifist frá einum einstaklings til annars, breytist, verður fyrir samkeppni og deyr út eða nær nánast algjörri útbreiðslu. Memið, einsog genið, kann einnig að verða fyrir breytingum þegar það fjölfaldast frá einum einstakling til annars, rétt eins og genið, þegar villur koma upp í afritun genamengisins við frumuskipti. Í seinni útgáfum bókarinnar bendir Dawkins einnig á tölvuvírusa sem dæmi um eitthvað sem hefur sömu sjálfsfjölgandi (e. self-replicating) eiginleika einsog genið og memið.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Richard Dawkins, The Selfish Gene, Oxford University Press, 30. afmælisútgáfa, 2006.