Fara í innihald

Sölvi Helgason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Minnismerki um Sölva Helgason í Lónkoti í Sléttuhlíð.

Sölvi Helgason (16. ágúst 182027. nóvember 1895) var flakkari, listamaður og heimspekingur á Íslandi á 19. öld. Sölvi missti foreldra sína ungur, var vistaður á mörgum bæjum og fór svo að flakka um landið. Sölvi var dæmdur nokkrum sinnum fyrir flakk, fölsun á reisupassa eða vegabréfi og smáþjófnað. Hann var oft hýddur og var í þrjú ár í fangelsi í Danmörku. Til eru yfir hundrað myndir eftir Sölva og þónokkuð af handritum.

Sölvi Helgason fæddist á bænum Fjalli í Sléttuhlíð við austanverðan Skagafjörð 16. ágúst árið 1820. Daginn eftir var hann fluttur til skírnar að næsta kirkjustað, Felli. Foreldrar Sölva voru Helgi Guðmundsson og Ingiríður Gísladóttir, ungir fátækir bændur sem fluttu oft á milli bæja. Þau áttu fyrir eina dóttur, Guðrúnu.[1]

Þegar Sölvi var fjögurra ára missti hann föður sinn. Hann bjó ekki hjá móður sinni frá sex ára aldri heldur var vistaður á hinum og þessum bænum á svæðinu. Móðir hans dó svo þegar Sölvi var fjórtán ára.[2]

Munnmælasögur segja Sölva snemma hafa verið ófyrirleitinn og óþægan en sýnt nokkur merki um gáfur.[3] Einnig eru til sögur um að hann hafi hlotið illa meðferð sem barn og nokkuð harkalegt uppeldi.[4]

Björn Þórðarson hreppstjóri á Ystahóli lét ferma Sölva 16 ára gamlan. 18 ára er hann síðan sendur að Möðruvöllum í Hörgárdal til Bjarna Thorarensen skálds og amtmanns. Þar er hann í það minnsta í eitt ár áður en hann fer austur í Þingeyjar- og Múlasýslur. Þaðan fór hann svo að flakka um landið.[5]

Í október árið 1843 var Sölvi tekinn fastur í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Reglur um vistarskyldu voru í gildi og því mátti ekki ferðast um nema með leyfi frá sýslumanni; reisupassa eða vegabréf.[6] Vegabréfið sem Sölvi var með þótti nokkuð torkennilegt þar sem í því var upptalning á ótrúlegum mannkostum Sölva, auk þess sem nafn sýslumannsins, sem skrifaði undir, var vitlaust skrifað.[7] Sölvi viðurkenndi að hafa falsað passann.[8] Sölvi var svo dæmdur 8. mars 1845 fyrir falskan reisupassa og flakk. Refsing hans var 40 vandarhögg og að vera undir eftirliti yfirvalda í ár. Refsingin var svo milduð í hæstarétti niður í 27 vandarhögg og 8 mánaða gæslu.[9]

Í mars 1850 var Sölvi aftur tekinn fastur fyrir stuld á bókum og buxnagarmi.[10] Hann var svo dæmdur til að hljóta 20 vandarhögg fyrir flakk og lausamennsku þar sem ekki tókst að sanna á hann stuldinn.[11] 1854 var Sölvi enn dæmdur, nú til þriggja ára betrunarvistar í Kaupmannahöfn, fyrir að virða ekki vistarband og að hafa sennilega stolið hinu og þessu, aðallega bókum.[12]Árið 1858 kom hann aftur til Íslands og er sendur aftur í sveit sína.[13] Þegar hann ræddi um dvöl sína í Danmörku seinna lét hann eins og hann hefði verið þar sem frjáls maður og hlotið mikinn frama.[14]

Sölvi hélt áfram að flakka um landið. Hann eignaðist dótturina Stefaníu Kristínu með Júlíönu Sveinbjörnsdóttur, sem var niðursetningur, fötluð og talin vitskert. Afkomendur þeirra eru til, bæði hér á landi og í Ameríku.[15]

Sölvi kvaðst sjálfur vera frábær sláttumaður en eitthvað fer misjöfnum sögum af sannleiksgildi þess. Á fyrri hluta ævi sinnar vann hann fyrir sér, í það minnsta á sumrin en skrifaði eða málaði á veturna.[16] Árið 1864 vann Sölvi ásamt fleirum við vegabætur á Vatnsskarði og árið 1867 gerði hann langan vegarkafla þar að mestu leyti einn.[17]Árið 1870 var hann dæmdur til að þola 3x27 vandarhögg fyrir flakk og þjófnað.[18]

Sölvi dó 27. nóvember 1895 í Sléttuhlíð.[19]

Ýmsar þjóðsögur hafa spunnist um Sölva. Einhverju sinni á hann að hafa tekið að sér að slá stífar sex dagsláttur á sex dögum. Hann átti að fá eina brennivínsflösku á dag auk hefðbundins kaups. Fyrstu tvo dagana lá hann bara og drakk en lauk verkinu þó á tilsettum tíma.[20]

Samkvæmt munnmælum fór vegagerð Sölva í Vatnsskarðinu þannig fram að Kristján kammerráð, sýslumaður Skagfirðinga vildi láta gera veg yfir Vatnsskarðið en fékk engan til þess. Á endanum réð hann Sölva sem verkstjóra með því skilyrði að hann fengi ekkert borgað ef honum tækist ekki að ljúka verkinu á tilsettum tíma. Sölvi var í fyrstu með heilmarga undirmenn við verkið en var svo harður verkstjóri að þeir gáfust allir upp. Sjálfur lagði Sölvi mjög hart að sér og endaði á því að vinna síðasta þriðjung verksins einn og tókst að klára á tilsettum tíma.[21]

Á ferðum sínum bar Sölvi einhverskonar kassa á bakinu en það var vinnuborð hans með fótum á hjörum og ýmiskonar málaradót annað.[22] Þessi kassi er sagður hafa bjargað honum í það minnsta tvisvar á ferðum hans, bæði þegar hann lenti í kviksyndi á Skeiðarársandi og í jökulsprungu á Breiðamerkurjökli.[23]

Sölvi hafði mikla trú á sjálfum sér og taldi sig miklum hæfileikum búinn eins og reisupassi hans sýnir glögglega.[24] Sagan segir að hann hafi komist í læri til gullsmiðs til að læra silfursmíði en það hafi ekki gengið sem best þar sem hann hafi talið sig mikið betri smið en lærifaðir hans.[25] Sölvi bætti oft nöfnum við sitt eigið sem honum þóttu viðeigandi. Þar má nefna Sölvi Helgason Gudmundssen, Islandus, Sókrates, Plato, Sólon, Melankton, Sölvi Spekingur, Sjúlvi, Húsfriður, Sjúlvi hinn vitri,[26] Húmboldt, Spinoza, Göthe, Hegel, Schiller, Schott, Newton, Kant, Lamertine, Skagfjörð, Norðlandínus,[27]Beethoven og Shakespeare.[28]

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi skrifaði skáldsöguna Sólon Íslandus sem fjallar um ævi Sölva Helgasonar.[29] Þá gaf rithöfundurinn Jón Óskar út ævisögu Sölva og um hann hafa verið samdir söngtextar og leikrit, auk þess sem kaffihús í Reykjavík heitir eftir einu viðurnefni hans og á Lónkoti í Skagafirði er minnisvarði um Sölva og einnig Sölvabar þar sem uppi er sýning á myndlist hans sem hann var þekktur fyrir.

Maðurinn og verk hans

[breyta | breyta frumkóða]

Sölva er lýst sem háum manni sem samsvaraði sér vel, ljóshærðum, stórskornum í andliti og nefháum. Hann var sléttur að vöngum, útlimasmár og karlmannlegur. Hann var alltaf að mála myndir og skrifa eitthvað, bæði upp úr sjálfum sér og þýðingar á verkum erlendra meistara. Þó hafði hann aldrei farið í skóla.[30] Ljóst þykir af skrifum Sölva að hann var eitthvað veikur á geði. Hann var haldinn ofsóknaræði einkum gagnvart veraldlegum höfðingjum. Þá sem höfði komið nálægt því að fá Sölva dæmdan kallaði hann öllum illum nöfnum og málaði jafnvel af þeim skrípamyndir og líkti við djöfulinn. [31] Í dagbók sína skrifaði hann einhverntíman bréf til Jóns Thoroddsen og ásakaði hann um að hafa stolið kvæði eftir sig.[32] Einnig á hann að hafa skrifað skammarbréf um þá sem skiptu sér af honum með uppnefnum og fúkyrðum.[33]

Yfir hundrað myndir hafa varðveist en þær myndir eru oft skreyttir stafir, blómaskraut og sjálfsmyndir. Myndir Sölva eru oft með fagurlega dregnum línum og ótrúlega vönduðum litum miðað við hvaða aðstæður þær hafa verið teiknaðar.[34]

Skrif Sölva eru af ýmsu tagi. Má þar nefna spekimál, hugleiðingar, sagnfræði, vísindalegar upplýsingar, frásagnir af því þegar hann reyndi að kristna landið og Frakklandssaga. Hann skrifaði líka um ferðir sínar þegar hann sagðist vera að ferðast um landið til að sinna vísindarannsóknum.[35]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jón Óskar, 44-45.
  2. Jón Óskar, 45-49.
  3. Pétur Jökull Pétursson, 29.
  4. Ingunn Jónsdóttir, 166.
  5. Jón Óskar, 49-51.
  6. Jón Óskar, 7-13.
  7. Ingunn Jónsdóttir, 174-177.
  8. Jón Óskar, 19.
  9. Jón Óskar, 60-66.
  10. Jón Óskar, 70-71.
  11. Jón Óskar, 86.
  12. Jón Óskar, 114-117.
  13. Jón Óskar, 151
  14. Pétur Jökull Pétursson, 32 og Ingunn Jónsdóttir, 167.
  15. Jón Óskar, 180-181
  16. Ingunn Jónsdóttir, 172 og Jón Óskar 89-90.
  17. Jón Óskar, 199-206.
  18. Jón Óskar, 243-244.
  19. Jón Óskar, 243-244.
  20. Pétur Jökull Pétursson, 34.
  21. Jón Óskar, 193-194.
  22. Jón Óskar, 196.
  23. Ingunn Jónsdóttir, 170-171.
  24. Ingunn Jónsdóttir, 174-177.
  25. Pétur Jökull Pétursson, 29.
  26. Ingunn Jónsdóttir, 167-168.
  27. Jón Óskar, 173.
  28. Jón Óskar, 230-231.
  29. Davíð Stefánsson, 6-27.
  30. Ingunn Jónsdóttir, 165.
  31. Jón Óskar, 164-167 og 234.
  32. Jón Óskar, 174-175.
  33. Pétur Jökull Pétursson, 33-34.
  34. Jón Óskar, 227-235.
  35. Jón Óskar, 160-162.
  • Davíð Stefánsson. Sólon Íslandus. Reykjavík: Helgafell, 1952.
  • Ingunn Jónsdóttir. „Sölvi Helgason“. Íslenskir sagnaþættir. II bindi. Gunnar S. Þorleifsson safnaði. Reykjavík: Bókaútgáfan Hildur, 1983.
  • Jón Óskar. Sölvi Helgason. Listamaður á hrakningum. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðjan hf, 1984.
  • Pétur Jökull Pétursson: „Æviágrip Sölva Helgasonar Guðmundsen“. Glettingur 1992 (2): 28-36.