Vatnsskarð
Vatnsskarð er fjallaskarð milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu og liggur þjóðvegur 1 um skarðið. Á því er vatn sem heitir Vatnshlíðarvatn og eru sýslumörkin skammt austan við það. Lækur rennur í vatnið og er hann á sýslumörkum (Arnarvatnslækur eða Sýslulækur). Er sagt að eitt sinn þegar almennt manntal var tekið hafi förumaður, sem kallaður var Magnús sálarháski og miklar sögur eru til um, lagst þvert yfir lækinn og legið þar allan manntalsdaginn svo að hvorki væri hægt að telja hann til Húnavatns- né Skagafjarðarsýslu.
Norðan við skarðið er Grísafell en sunnan við það Valadalshnúkur. Vatnsskarðsá kemur úr Vatnshlíðarvatni og Valadal og rennur til austurs, og er Gýgjarfoss í ánni austast í skarðinu. Þegar niður í Sæmundarhlíð kemur kallast hún Sæmundará. Fáeinir bæir eru á Vatnsskarði og kallaðist byggðin áður „á Skörðum“.
Í austanverðu skarðinu er hóllinn Arnarstapi. Þar er minnismerki um skáldið Stephan G. Stephansson, sem ólst upp þar rétt hjá. Af Arnarstapa er mjög gott útsýni yfir héraðið og er hringsjá skammt frá minnisvarðanum.
Bæir
[breyta | breyta frumkóða]- Vatnshlíð (í Húnavatnssýslu)
- Stóra-Vatnsskarð
- Valagerði
- Valadalur (í eyði)
- Valabjörg (í eyði)
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi. Staðarhreppur - Seyluhreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2001. ISBN 978-9979-861-10-2