Ormur Sturluson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ormur Sturluson (um 15161575) var íslenskur lögmaður og klausturhaldari á 16. öld. Hann var tvívegis lögmaður en var vikið úr embætti í bæði skiptin.

Ormur var sonur Sturlu Þórðarsonar sýslumanns á Staðarfelli og konu hans Guðlaugar, dóttur Finnboga Maríulausa Jónssonar lögmanns. Hann fór ungur utan og segir sagan að hann hafi þá hitt Friðrik, barnungan son Kristjáns konung 3., sem seinna varð Friðrik 2., fært honum að gjöf silfurbúinn lúður og notið góðs af síðan meðan Friðrik lifði. Hvað sem til er í því virðist Friðrik hafa verið Ormi afar hliðhollur „þó það kæmi ekki fram í öðru en í uppgjöf á sökum, sem betr hefði verið óuppgefnar,“ segir Jón Sigurðsson í Lögsögumannatali og lögréttumanna.

Hann mun hafa verið í Danmörku veturinn 1546-1447, því að um haustið fékk hann konungsbréf upp á Munkaþverárklaustursumboð og Snæfellsnessýslu um haustið og nokkru eftir áramót var hann gerður lögmaður norðan og vestan. Hann kom svo heim um vorið og er sagt að hann hafi látið mikið yfir sér og riðið um með 19 sveina og smádrengi að auki. Hann lenti fljótt á milli steins og sleggju í deilum Jóns Arasonar og sona hans við Daða í Snóksdal en Ormur var þannig gerður að hann gat aldrei sagt nei við nokkurn mann en lofaði öllum öllu fögru.

Vorið 1550 hafði hann gert samkomulag við séra Björn á Melstað, son Jóns biskups, um að styðja hann í hvívetna, halda trúnað við hann og hjálpa honum að koma lögum yfir Daða og aðra andstæðinga þeirra feðga en um haustið var hann við þegar þeir feðgar voru teknir á Sauðafelli og dæmdi varðhaldsdóm yfir þeim í Snóksdal. Ormur var líka lítill fésýslumaður, sóaði eignum sínum og seldi sömu jarðirnar oftar en einu sinni og steypti sér í skuldir.

Páll Hvítfeldur höfuðsmaður setti hann úr lögmannsembættinu 1553 fyrir ýmsar sakir en Ormur fór þá til Kaupmannahafnar og fékk konungsbréf upp á að hann mætti vera lögmaður áfram þrátt fyrir það sem hann hafði brotið af sér ef hann gerði upp skuldir sínar við konung. Þó tók hann ekki við embættinu aftur og hefur líklega ekki getað gert upp skuldirnar. Ormur lifði næsti árin við örbirgð og fór á milli ættingja sinna. Sagt er að hann hafi verið lestakarl hjá Nikulási Þorsteinssyni sýslumanni á Munkaþverá um tíma en kona hans hafi verið hjá Helgu Aradóttur, systurdóttur sinni, við ösku- og vatnsburð.

Þar kom þó að Ormur ákvað að leita á náðir Friðriks konungs og tókst honum að komast utan með skipi þótt reynt væri að hindra hann í því. Einhvern veginn gat hann náð fundi konungs þótt hann væri fátæklega búinn og fór svo að konungur veitti honum að nýju lögmannsembættið norðan og vestan og að auki Barðastrandasýslu, sem tekin var af Eggert Hannessyni, og gaf honum verndarbréf. Með það fór Ormur heim en lenti í hörðum deilum við Eggert á þinginu og stefndi honum utan og fór sjálfur aftur til Kaupmannahafnar. Þaðan kom hann aftur vorið 1569 og hafði með sér mörg konungsbréf. Þar á meðal var dómur þar sem arfi eftir tengdaföður hans var skipt á annan hátt en áður hafði verið gert, svo að Ormur og kona hans fengu nú stórfé.

Hann þurfti þó að víkja aftur úr lögmannsembætti 1572 fyrir ýmsar sakir. Nokkru síðar fór hann aftur utan til að reyna að ná fram sínum málum en dó í þeirri ferð og var þá aftur nærri orðinn örsnauður. Hann virðist hafa verið einkennilega samsettur maður, glæsilegur, góðmenni og örlátur en hégómagjarn og ístöðulítill, vildi hafa völd og metorð en réði ekki við þau, síst af öllu á þeim umbrotatímum sem siðaskiptin voru.

Kona hans var Þorbjörg Þorleifsdótir (f. um 1516, d. eftir 1568) frá Möðruvöllum, dóttir Þorleifs Grímssonar sýslumanns, sem erfði Möðruvallaauð eftir afa sinn. Þau giftust 1535 og voru þá bæði 19 ára að sögn. Þá áttu þau bæði miklar eignir og mikið bættist við seinna þegar Þorbjörgu var dæmdur aukinn arfshluti eftir föður sinn, en allt eyddist það og fengu börn þeirra lítinn arf eftir foreldra sína.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Þorleifur Pálsson
Lögmaður norðan og vestan
(15471553)
Eftirmaður:
Oddur Gottskálksson
Fyrirrennari:
Eggert Hannesson
Lögmaður norðan og vestan
(15681572)
Eftirmaður:
Jón Jónsson