Sauðafell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sauðafell í Dölum.

Sauðafell er bær í Miðdölum í Dalasýslu á Vesturlandi og stendur undir felli með sama nafni.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Sturlunga saga[breyta | breyta frumkóða]

Bærinn er nefndur í Landnámu, kemur víða við sögu í Sturlungu og var einnig sögusvið atburða á siðaskiptatímanum. Sauðafell telst landnámsjörð, því að Erpur Meldúnsson, hinn stórættaði leysingi Auðar djúpúðgu, fékk Sauðafellslönd og bjó á Sauðafelli og telst vera fyrsti ábúandinn þar. Á 10. öld bjó þar, að því er segir í Laxdælu, Þórólfur rauðnefur, sem var hetja mikil. Þá er sagt að á Sauðafelli væri allra manna gisting, enda bærinn í þjóðbraut. Seinna bjó Máni sonur Snorra goða á Sauðafelli og síðan Ljótur sonur hans, en hann var kallaður mestur sonarsona Snorra goða. Höfðingjar búa á Sauðafelli frá og með 11. öld en frá því að Sighvatur Sturluson kaupir jörðina um 1200 verður Sauðafell höfðingjasetur og kemur mjög við pólitíska sögu Sturlungaaldar og þau innanlandsátök höfðingja sem einkenndu 13. öldina.

Sauðafell varð snemma valdamiðstöð, einkum á Sturlungaöld og höfðingjasetur fram eftir öldum. Sauðafell lá einstaklega vel við samgöngum, annars vegar af Norðurlandi, úr Hrútafirði um Haukadalsskarð og Saursstaðaháls og hins vegar úr Norðurárdal í Borgarfirði um Bröttubrekku svo og frá Svignaskarði um Langavatnsdal og Sópandaskarð. Kirkja var síðar reist á Sauðafelli og til hennar var greidd tíund.

Sauðafell var löngum setið af stórbrotnum höfðingjum. Nafnkenndastir þeirra voru Sighvatur Sturluson og Sturla Sighvatsson (1199-1238). Um 1200 keypti Sighvatur Sturluson jörðina og bjó þar og síðan Sturla sonur hans. Sighvatur fluttist að Sauðafelli frá Hjarðarholti í Laxárdal. "Hann gerðist mikill höfðingi og vinsæll við sína menn" segir í 18. kafla Íslendingasögu. Sighvatur fór þá með erfðagoðorð Sturlunga. Kona Sighvats var Halldóra Tumadóttir dóttir Tuma Kolbeinssonar, höfðingja í Skagafirði. Sighvatur flytur frá Sauðafelli norður í Eyjafjörð 1215. Á árunum 1215 til 1221 búa Runólfur prestur og Dufgus Þorleifsson, sem var systursonur Sighvats, á Sauðafelli í umboði Sighvats. Árið 1221 sest Sturla Sighvatsson svo að á Sauðafelli, tekur við mannaforráðum föður síns og Snorrungagoðorði, sem afi hans, Hvamm-Sturla, hafði átt.

Missætti þróaðist með bræðrunum Snorra og Sighvati Sturlusonum en einkum þó Snorra og Sturlu Sighvatssyni, þar sem Snorri Sturluson ásæltist Snorrungagoðorð, erfðagoðorð Sturlunga, sem Sturla Sighvatsson fór með og taldi Sturlu ógn við veldi sitt. Engar sáttir náðust með Snorra og Sighvati á Alþingi 1228. í framhaldinu fara Snorri og bróðir hans Þórður Sturluson með her manna, allt að 540 manns, vestur í Dali. Sturla Sighvatsson hörfar með lið sitt til Miðfjarðar. Á þessum árum lét Sturla reisa virki í Miðdölum, sennilega við Miðá. Snorri og Þórður stefna þá öllum bændum sunnan Fáskrúðar að Sauðafelli, þar sem þeir sverja Snorra Sturlusyni eyða og sögðust í þing með honum. Tilraun Snorra Sturlusonar til valdaráns í Dölum vestur heppnaðist ekki og Sturla Sighvatsson grunar Snorra um að standa að baki atlögu Vatnsfirðinga að sér, en Sturla var að heiman, á Sauðafelli í janúar 1229.

Þekktasti atburðurinn sem tengist Sauðafelli er án efa Sauðafellsför í janúar 1229 og þau níðingsverk sem þá voru framin.[1] Í Hundadalsnesi, sem liggur á milli Miðár og Hundadalsár er Grænatóft, sem er engjagarður. Þar hefndi Sturla Sighvatsson Sauðafellsfarar 1229 þegar hann og hans menn felldu Vatnsfirðingana, Þórð og Snorra Þorvaldssyni, 8. mars 1232, þó Snorri Sturluson hefði áður fengið Sturlu til að heita þeim griðum. Vatnsfirðingar höfðu áður selt Sturlu sjálfdæmi vegna Sauðafellsfarar. Saga Vatnsfirðinga var þar með öll.

Veldi Sturlu Sighvatssonar í Dölum var nú í hámarki, allt þar hann og Sighvatur, faðir hans, lutu í lægra haldi fyrir Gissuri Þorvaldssyni og Kolbeini unga og féllu báðir í Örlygsstaðabardaga 1238.

Eftir fall Sturlu Sighvatssonar í Örlygsstaðabardaga 21. ágúst 1238 bjó Solveig Sæmundsdóttir áfram á Sauðafelli. Við utanför hennar 1240 fær hún búið á Sauðafelli í hendur Snorra Sturlusyni en hann fær það aftur frænda sínum Sturlu Þórðarsyni. Eftir brúðkaup Tuma Sighvatssonar og Þuríðar Ormsdóttur, mágkonu Snorra Sturlusonar, í Reykholti fór Snorri Sturluson eldri þess á leit við Sturlu þórðarson að hann léti Sauðafellið í hendur Tuma og var það afráðið. Sumarið 1241 komu saman á Sauðafell "í litlustofu" hjá Tuma þeir Snorri Sturluson, Órækja Snorrason og Sturla Þórðarson. Snorri Sturluson var "hinn kátasti" enda skenkti Tumi Sighvatsson þeim bjór.

Áhrifavald Snorra Sturlusonar í Dölum vestur var nú óskorað en bæði Gissuri Þorvaldssyni og Kolbeini unga stóð stuggur af veldi Snorrra. Gissur Þorvaldsson lét vega Snorra í Reykholti 23. september 1241, þar sem Árni beiskur hjó Snorra banahöggið. Gissur hélt því næst með flokk sinn vestur í Dali til fundar við Kolbein unga sem þá sat að Kvennabrekku með 400 manna liðsafnað. Þeir vopnabræður létu Böðvar Þórðarson á Stað, en hann var mágur Kolbeins unga, taka við búinu á Sauðafelli og fólu honum að fylgjast með liðsafnaði Sturlunga. Þorgils skarði var sonur Böðvars. Í desember 1241 fóru Órækja Snorrason og Sturla Þórðarson með 300 manns að Sauðafelli en Böðvar Þórðarson virðist þá hafa sæst við frændur sína, þá Órækju og Sturlu.

Þegar Sturla Sighvatsson kvæntist Solveigu Sæmundsdóttur, dóttur Sæmundar Jónssonar í Odda á Rangárvöllum, hraktist frilla hans, Vigdís Gísladóttir, frá Sauðafelli og norður í Skagafjörð þar sem hún giftist Ófeigi Eiríkssyni, sem var bóndi þar.

Hrafn Oddsson (1226-1289), hirðstjóri, sem var tengdasonur Sturlu Sighvatssonar, sat einnig Sauðafell um skeið á sínum yngri árum. Annar tengdasonur Sturlu, Vigfús Gunnsteinsson, bjó einnig á Sauðafelli.

Sauðafell kemur við sögu í upphafi hinnar þjóðsagnakenndu Króka-Refs sögu. Þar er lýst deilu á milli ábúenda á Kvennabrekku og Sauðafelli, þegar kvikfé Þorbjarnar á Sauðafelli var beitt í óleyfi á land Kvennabrekku.

16. öld[breyta | breyta frumkóða]

Á 16. öld átti Daði Guðmundsson í Snóksdal bú á Sauðafelli. Jón Arason biskup kom haustið 1550 með Birni og Ara sonum sínum og flokki manna og settist í bú Daða. Daði safnaði þá liði og tókst að króa þá feðga af í kirkjugarðinum á Sauðafelli og handtaka þá. Eigi nutu þeir kirkjugriða. Þeir voru svo fluttir til Skálholts og hálshöggnir þar 7. nóvember 1550.

19. öld[breyta | breyta frumkóða]

Að afloknu stúdentsprófi 1884 dvaldi Árni Þórarinsson, síðar prestur á Snæfellsnesi, um sumarið á Sauðafelli hjá Guðmundi Jakobssyni og Þuríði systur Árna og segir m.a. frá banvænni taugaveiki sem kom þá upp á Sauðafelli. Frá séra Jakobi Guðmundssyni, presti á Sauðafelli og þingmanni Dalamanna, segir skemmtilega í 4. bindi ævisögu Árna prests Þórarinssonar, á Snæfellsnesi. Séra Jakob var hestamaður, hagyrðingur góður og stundaði lækningar eins og fleiri prestar á þeirri tíð. Hann fékkst ennfremur við uppfræðslu barna og unglinga og hafði mikil menningarleg áhrif í héraði. Um skeið gaf hann t.d. út blaðið "Bóndi".

20. öld[breyta | breyta frumkóða]

Myndlistamaðurinn Muggur málaði litlar landslagsmyndir í olíulitum á Sauðafelli og var hrifinn af útsýninu fram í Hundadalina, séð af klettunum milli Sauðafells og Erpsstaða. Þá útsýn velur hann einnig fyrir smalamyndir líkar þeim sem hann gerði árið áður og fær þá einn af sonum Björns sýslumanns Bjarnarsonar til að sitja fyrir. Auk þess málar hann mynd af gömlu kirkjunni á Sauðafelli og aðra af bæjarhúsunum á Kvennabrekku. Þekktasta málverkið af Sauðafelli er eftir Collingwood en frummynd þess verks er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.[2]

Björn Bjarnarson (1853-1918), sýslumaður, bjó á Sauðafelli 1891 til 1915. Hann var þingmaður Dalamanna um skeið og stofnaði Listasafn Íslands 1885. Gamla sýslumannshúsið á Sauðafelli, sem var endurbyggt af miklum myndarbrag á árunum 2013 til 2016, var upphaflega reist 1897. Þingstaður var á Sauðafelli. Auk heimalandsins á Sauðafell land frá Merkjarhrygg á fjallveginum sem í dag nefnist Brattabrekka, hálfan Suðurárdal þ.e. vestan Suðurár og allt að Kringlugili á Sökkólfsdal,vestan Miðár. Sauðafellssel er fremst á Sökkólfsdal, vestan Miðár, á flötunum undir Valsungagili/Völsungagili. Enn sjást þar greinilegar tóftir. Rústir má einnig merkja, fornar, framan við Kringlugil, sem nefna mætti Sauðafellssel hið forna.

Finnbogi Finnsson (1867-1953) og Margrét Pálmadóttir (1866-1935), sem bjuggu áður á Svínhóli, keyptu Sauðafell 1918 og bjuggu þar til æviloka og hvíla í kirkjugarðinum á Sauðafelli.

Breskur loftvarnarbelgur, sem slitnað hafði frá Bretlandi í seinni heimsstyrjöldinni og hrakist til Íslands, náðist við Sauðafell í nóvember 1940. Sauðafellstunga nefnist svæðið á milli Miðár og Tunguár og í Tunguá er Svalbarðsfoss.

Kirkja var á Sauðafelli til 1919 en var þá rifin og lögð af þegar ný kirkja var reist á Kvennabrekku. Tvær kirkjur voru í Miðdalasókn, annars vegar á Sauðafelli og hins vegar í Snóksdal og voru báðar altimburhús. Hörðdælingar eiga kirkjusókn að Snóksdal. Messað var til helminga í hvorri kirkju. Í Sauðafellssókn voru eftirfarandi fimmtán bæir: Háafell, Svarfhóll, Fellsendi, Þórólfsstaðir, Erpsstaðir, Sauðafell, Gröf, Breiðabólstaður, Hlíðartún, Skallhóll (áður Hvítskjaldarhóll), Fremri-Hundadalur, Neðri-Hundadalur, Bær, Skörð og Hamraendar. Hvorki tilheyrði lénsjörð prestakallinu né ákveðin bújörð prestinum. Sauðafellskirkja átti land í Sauðfellingamúla og afrétt á Sanddal. Hlaðin fjárrétt var í Fellsendalandi og réttað var á föstudaginn í 21. viku sumars. Sauðafellskirkja átti einnig Hlíðartún í Sökkólfsdal, Kross í Haukadal og Hamra í Laxárdal. Kirkjan átti einnig ítak í Saurbæjarfjöru í Gilsfirði, en þar var mikil og þekkt sölvatekja og ennfremur 24 málnytukúgildi í fríðu. Samkvæmt Jarðatali Johnsens, sem kom út í Kaupmannahöfn 1847 og var tekið saman af Jóni Jónssyni assessor í Landsyfirréttinum, eru eyðihjáleigur Sauðafells nefndar: Gizurarhús, Gróugerði og Brúðgumastaðir, sem 1805 voru hafðar til beitar.

21. öld[breyta | breyta frumkóða]

Örlítill hluti íslensku gamanmyndarinnar Kurteist fólk frá 2011 var tekin upp við kirkjugarðinn á Sauðafelli og í gamla sýslumannshúsinu áður en það var gert upp.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Guðrún Nordal, 1998. Ethics and Action in Thirteenth-Century Iceland, Viking Collection 11 (Odense: Odense University Press), bl. 89–99; Jonathan Grove, 2008. ‘Skaldic verse-making in thirteenth-century Iceland: the case of the Sauðafellsferðarvísur’, Viking and Medieval Scandinavia 4 (2008), 85-131
  2. Björn Th. Björnsson, Muggur, ævi hans og list, Helgafell 1960.