Magnús sterki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Magnús Níelsson (um 11064. júní 1134), sem oftast er kallaður Magnús sterki, var danskur konungssonur á 12. öld og konungur hluta Svíþjóðar (Gautlands) 1125-1130.

Magnús var sonur Níelsar Danakonungs og konu hans, Margrétar friðkollu, dóttur Inga eldri Svíakonungs. Fyrri maður hennar var Magnús berfættur Noregskonungur og hefur Magnús sterki sennilega verið látinn heita eftir honum en Magnúsarnafnið var þá nánast óþekkt í Danmörku.

Þegar frændi Magnúsar, Ingi yngri Svíakonungur, dó árið 1125 gerði Magnús tilkall til erfða í Svíþjóð sem elsta barnabarn Inga eldri. Vestur-Gautar kusu hann konung sinn en samkvæmt lögum þeirra þurfti hann líka að hljóta samþykki Svía til að verða konungur og þeir vildu fremur Rögnvald stutthöfða. Gautar drápu þó Rögnvald, líklega um 1126, en ekki dugði það Magnúsi til að ná völdum í allri Svíþjóð. Um 1130 hrakti svo Sörkvir eldri Magnús úr landi og lagði sjálfur Gautland undir sig. Magnús er þó yfirleitt hafður með í sænsku kóngaröðinni.

Magnús sterki stóð á bak við eitt alræmdasta morð Danmerkursögunnar, þegar hann leiddi frænda sinn, Knút lávarð, hertoga af Slésvík, í gildru og lét drepa hann 7. janúar 1131. Hann mun hafa verið farinn að líta á Knút sem hættulegan keppinaut um ríkiserfðir. Afleiðingin varð borgarastyrjöld þar sem helsti andstæðingur feðganna Níelsar og Magnúsar var Eiríkur eymuni, hálfbróðir Knúts. Þann 4. júní 1134 varð bardagi milli fylkinganna nálægt Lundi. Þar féll Magnús. Níels konungur flúði til Slésvíkur en íbúar þar hefndu Knúts lávarðs og drápu hann.

Magnús giftist árið 1129 Ríkissu, dóttur Búrislavs 3., konungs Póllands. Þau eignuðust tvo syni, Knút, sem var konungur Danmerkur 1146-1157 ásamt Sveini Grathe og Valdimar mikla, og Níels, sem gerðist munkur.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Rögnvaldur stutthöfði
Svíakonungur
(1125 – um 1130)
Eftirmaður:
Sörkvir eldri