Ríkissa af Póllandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ríkissa af Póllandi (12. apríl 1116 – eftir 25. desember 1156) var pólsk konungsdóttir (pólska: Ryksa Bolesławówna), tvívegis drottning Svíþjóðar, krónprinsessa Danmerkur og furstynja af Minsk.

Ríkissa var dóttir Búrisláfs 3., konungs Póllands, og seinni konu hans Salóme af Berg. Hún er sögð hafa verið undurfögur. Þegar Búrisláfur faðir hennar gekk í bandalag við Níels Danakonung gegn Vartislafi 1. hertoga af Pommern var hluti af samkomulaginu að Ríkissa skyldi giftast eldri syni Níelsar, Magnúsi sterka. Þau giftust um 1127 og þá var Magnús konungur Svíþjóðar (eða raunar aðeins Vestur-Gautlands) og Ríkissa varð drottning. Magnús var þó hrakinn frá völdum um 1130 og Sörkvir eldri varð konungur í Svíþjóð.

Þegar Magnús sneri aftur til Danmerkur leist honum illa á hve vinsæll og valdamikill frændi hans, Knútur lávarður, var orðinn og lét myrða hann í ársbyrjun 1131. Af því kviknaði borgarastyrjöld og Magnús féll í orrustu 4. júní 1134 og faðir hans var drepinn skömmu síðar. Ríkissa fór til föður síns í Póllandi eftir fall manns síns en virðist hafa skilið syni sína, Knút og Níels, eftir í Danmörku.

Búrisláfur konungur gifti Ríkissu aftur Volodar Glebovich, fursta af Minsk. Hjónabandinu var ætlað að tryggja bandalag Póllands og Minsk gegn Dönum og Kænugarðsfurstum. Þau eignuðust þrjú börn, Vladimir fursta af Minsk, Vasilko og Soffíu af Minsk, sem var fædd um 1140. En um 1145 var þörfin fyrir bandalagið farin að minnka og fór svo að hjónabandinu var slitið og Ríkissa sneri enn til Póllands, skildi synina eftir en tók dótturina Soffíu með.

Árið 1148Úlfhildur Hákonardóttir, kona Sörkvis eldri Svíakonungs og skömmu síðar gekk hann að eiga Ríkissu. Þau eignuðust að minnsta kosti einn son, Búrisláf, sem var konungur hluta Svíþjóðar um tíma eftir lát Karls hálfbróður síns 1167. Sumir sagnfræðingar telja líklegt að Ríkissa hafi gifst Sörkvi til að geta aðstoðað Knút, elsta son sinn, sem var að reyna að ná völdum í Danmörku og varð síðar meðkonungur Sveins Eiríkssonar Grathe og Valdimars mikla Knútssonar.

Árið 1156 giftist Knútur Helenu, dóttur Sörkvis og Úlfhildar, fyrri konu hans, þannig að Ríkissa varð stjúptengdamóðir sonar síns. Á jóladag sama ár var Sörkvir myrtur. Vitað er að Ríkissa lifði eitthvað lengur en þjóðsögur segja að hún hafi gifst í fjórða sinn einum þeirra sem stóðu á bak við morðið á manni hennar. Engar heimildir eru þó til sem styðja þær sögur.

Soffía af Minsk, dóttir Ríkissu, giftist Valdimar mikla 1157. 9. ágúst sama ár bauð Sveinn Eiríksson Grathe meðkonungum sínum, Knúti og Valdimar, til veislu og drap svo Knút en Valdimar komst undan og felldi síðar Svein og varð einn konungur Danmerkur. Árið eftir dó Níels, næstelsti sonur Ríkissu, sem var líklega munkur í Esrom-klaustri.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]