Ljósmyndun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ljósmyndun er aðferð til að festa á varanlegt form myndir af umhverfinu með ljósmyndavél. Notast er við vélræna, ljósfræðilega, efnafræðilega og/eða stafræna aðferð við að safna endurköstuðu ljósi í stuttan tíma með linsu og varpa því á ljósnæman flöt, t.d. filmu inni í myndavélinni. Með eftirvinnslu á ljósnæma fleti myndavélarinnar (framköllun á filmu) fæst ljósmynd sem „tekin“ var með myndavélinni. Orðið ljósmyndun er samsett úr orðunum ljós og sögninni mynda og felst merkingin í því að búin er til mynd af ljósinu.

Saga ljósmyndunar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu ljósmyndirnar[breyta | breyta frumkóða]

Nicéphore Niépce, um 1795
Nicéphore Niépce, um 1795

Nútíma ljósmyndatækni má rekja til franska uppfinningamannsins Joseph Nicéphore Niépce en hann hóf að gera tilraunir árið 1793 með aðferðir til að gera sjónrænar myndir. Fyrstu verk hans dofnuðu fljótt en honum tókst loksins að gera varanlega mynd árið 1824. Aðferðirnar kröfðust þess að sólin var notuð til að framleiða myndina en þær tóku um 8 klst eða lengur í framkvæmd og var aðferðin því bara notuð til að festa á mynd fasta hluti eins og t.d. byggingar. Árið 1829 byrjaði hann samningsbundið samstarf við listamanninn og efnafræðinginn Louis-Jacques-Mandé Daguerre um að betrumbæta aðferðina. Eftir dauða Niépce 5. júlí 1833, þá hélt Daguerre áfram starfi sínu og tókst loksins ætlunarverk sitt.

Sellulósufilmur[breyta | breyta frumkóða]

Sellulósur fyrir ljósmyndafilmur voru teknar í notkun árið 1887 og voru það bæði Hannibal Goodwin og Eastman Company sem skráðu leyfi fyrir filmuvöruna. Goodwin hins vegar kærði Eastman Kodak Company fyrir brot á einkaleyfinu sínu og vann málið en seldi síðan einkaleyfin til þeirra. Þessi aðferð var síðan grundvöllurinn fyrir þróun kvikmyndafilmunnar. Myndir teknar með þessari aðferð þurfa samt að fara í framköllun áður en hægt er að sjá efni myndarinnar skýrt.

Fyrsta litmyndin[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta myndin í lit var tekin rétt eftir aldamótin 1900 en uppfinningin var einkaleyfisvarin árið 1903 og sett á markað 1907. Frönsku bræðurnir Louis Jean og Auguste Marie Louis Nicholas Lumière voru miklir uppfinningamenn og faðir þeirra rak ljósmyndastofu þar sem þeir unnu. Þeir fengu því mikinn áhuga á ljósmyndun og fundu upp margvísleg tól sem urðu mikilvægir hlekkir í þróunarsögu ljósmynda og kvikmynda. Litfilman Autochrome Lumière var sú eina sem var á markaðnum þar til 1935 þegar Kodak setti Kodachrome á markaðinn. Sú vörulína er enn í framleiðslu og er talin með þeim fremri vörutegundum vegna fínna korna og líflegra lita.

Stafræn ljósmyndun[breyta | breyta frumkóða]

Frá árinu 2000 hefur stafræn ljósmyndun að mestu komið í stað ljósmyndunar á filmu, en þá er notuð örflaga í stað filmunnar áður til að safna ljósi frá myndefninu og ljósmagn og litur hverrar myndeiningar er geymt stafrænt í minniskorti myndavélarinnar. Hefur þann kost að mögulegt að skoða myndina skömmu eftir að hún er tekin og flytja hana í tölvu vinna hana með stafrænni myndvinnslu.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]