Lífefnafræði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bygging prótínsins hemóglóbín.

Lífefnafræði er sú undirgrein efnafræði og líffræði sem fjallar um efnahvörf sem eiga sér stað í lífverum, byggingu lífefna á borð við prótín, sykrunga, lípíð og kjarnsýrur, starfsemi þeirra í frumunni og stjórnun hennar.

Viðfangsefni lífefnafræði[breyta | breyta frumkóða]

Viðfangsefnum rannsókna í lífefnafræði má skipta í þrjá meginflokka[1]:

  • Rannsóknir á byggingu lífefna. Rannsóknir á þessu sviði leitast við að svara spurningum á borð við: Hvernig eru lífefnin samsett? Hvernig er byggingu þeirra stjórnað í frumunni? Hvernig eru byggingareiningar lífefnanna framleidd og hvernig verka þær hver á aðra?
  • Rannsóknir á efnaskiptum: Hver eru næringarefni lífvera og hvernig er þeim umbreytt í lífverum? Hvernig nema lífverur orku úr næringarefnum sínum? Hvernig ganga hvarfarásir lífveranna fyrir sig og hvernig er þeim stjórnað?
  • Rannsóknir á upplýsingaflæði innan frumu, á milli frumna, vefja, lífvera og kynslóða: Hvernig eru upplýsingar um ástand umhverfisins numdar og hvernig er unnið úr þeim? Hvernig berast þær á milli frumna, vefja eða lífvera? Hvernig berast arfbærar upplýsingar á milli kynslóða? Hvaða áhrif hafa upplýsingarnar, arfbærar sem óarfbærar, á hvarfarásir frumunnar og stjórnun þeirra?

Saga lífefnafræði[breyta | breyta frumkóða]

Friedrich Wöhler fylgist með myndum þvagefnis ((NH2)2CO).

Rannsóknir á lífefnafræðilegum ferlum eiga sér langa sögu, þrátt fyrir að lífefnafræði sem fræðigrein hafi ekki orðið til fyrr en á 19. öld, þegar þekkingu og rannsóknatækni í efnafræði hafði fleygt nægilega fram til að unnt væri að rannsaka starfsemi einstakra lífefna. Þannig fengust til dæmis bæði René Réaumur og Lazzaro Spallanzani þegar á 18. öld við rannsóknir á meltingu og sýndu fram á að magasafi úr fálka getur melt kjöt utan líkamans.[2] Þeir höfðu hins vegar engin tök á að útskýra hvernig meltingin átti sér stað, það varð að bíða tilrauna Johns Young, sem uppgötvaði magasýrur í byrjun 19. aldar, og Theodors Schwann sem uppgötvaði meltingarensímið pepsín árið 1835. Fyrir miðja 19. öld var almennt álitið að lífefni gætu ekki myndast úr „dauðum“ efnum, heldur eingöngu úr öðrum lifefnum. Með frægri tilraun sinni[3] frá 1828 sýndi Friedrich Wöhler fram á að þvagefni (á þeim tíma vel þekkt efni úr lífverum) getur myndast úr ammóníum sýanati (sem talið var dautt efni). Þar sem sýndi Wöhler fram á að enginn eðlismunur væri á lifandi og dauðu efni. Þessi tilraun er gjarnan talin marka upphaf lífefnafræði.

Helstu áfangar í sögu lífefnafræði[breyta | breyta frumkóða]

Sítrónsýruhringurinn er einn af hornsteinum lífefnafræðilegra hvarfarása frumunnar

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. C. K. Mathews og K. E. van Holde (1990) Biochemistry The Benjamin/Cummings Publishing Company
  2. H. S. Williams (1904) A History of Science: in Five Volumes. Volume IV: Modern Development of the Chemical and Biological Sciences Harper and Brothers (New York)
  3. F. Wöhler (1828) „Über künstliche Bildung des Harnstoffs“ Ann. Phys. Chem. 12, 253–256

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]


  Þessi efnafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.