Fara í innihald

Kristnitakan á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Kristnitakan á Íslandi er tímabil í sögu Íslands, þegar lögfest var að allir landsmenn skyldu aðhyllast kristni í stað heiðni. Miðað við tímatal þess tíma var kristnitakan árið 1000, og vanalega er miðað við það, en samkvæmt núgildandi tímatali var hún sumarið 999.

Kristniboð

[breyta | breyta frumkóða]

Stuttu fyrir árið 1000 kom hingað saxneskur biskup, sem hét Friðrekur. Hann kom hingað fyrir tilstuðlan Þorvalds víðförla sem hafði tekið skírn af biskupi. Þeim varð lítið ágengt í kristniboði sínu en biskup vígði þó kirkju við Ás í Hjaltadal. Sumar heimildir segja Ólaf Tryggvason konung Noregs hafa fyrst sent hingað Stefni Þorgilsson af Kjalarnesi til að boða kristni. Í Íslendingabók segir Ari fróði að Ólafur konungur hafi sent hingað prestinn Þangbrand. Þar segir að Þangbrandur hafi verið á Íslandi í rúmt ár, skírt meðal annarra þá Hjalta Skeggjason úr Þjórsárdal og Gissur hvíta Teitsson frá Mosfelli og vegið tvo eða þrjá menn sem níddu hann. Hjalti Skeggjason var gerður landrækur fyrir goðgá eða guðlast á Alþingi.

Segir sagan að Þangbrandur hafi snúið aftur til Ólafs og sagt honum að hann hefði litla trú á því að Íslendingar myndu taka kristni. Á Ólafur þá að hafa reiðst gífurlega. Laxdæla segir frá því að Ólafur Tryggvason Noregs konungur hélt fjórum höfðingasonum sem gíslum til að þrýsta á um kristnitöku. Það voru Kjartan Ólafsson, Halldór sonur Guðmundar hins ríka, Kolbeinn sonur Þórðar Freysgoða og Sverting sonur Runólfs úr Dal.

Atburðarrásin á Alþingi

[breyta | breyta frumkóða]

Sagan segir að hraun hafi runnið á Hellisheiði, er Alþingi var haldið, skammt frá Þingvöllum og stefnt í átt að bæ eins kristna höfðingjans. Töldu heiðnir menn að þetta væri merki um að guðirnir reiddust. Á þá Snorri Þorgrímsson á Helgafelli að hafa mælt „Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ og þótti sýna mikla skynsemi. Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson lögsögumaður var í málsvari fyrir heiðingja og tilnefndu kristnir Hall Þorsteinsson á Þvottá (Síðu-Hall). Hallur samdi við Þorgeir um að hann skyldi segja upp lög sem allir gætu fellt sig við. En síðan er menn komu í búðir þá lagðist hann niður, Þorgeir, og breiddi feld sinn á sig og hvíldi þann dag allan og nóttina eftir og kvað ekki orð. [1] Um morguninn daginn eftir settist Þorgeir upp og bauð mönnum að ganga til Lögbergs og þar hóf hann upp raust sína og kvað; „En nú þykir mér það ráð, að vér látim og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“ Þorgeir kvað það lög að menn skyldu taka kristni en áfram yrði leyft að blóta leynilega, bera út börn og éta hrossakjöt.

Þorgeiri mútað?

[breyta | breyta frumkóða]

Í Brennu-Njáls sögu segir: "En Hallur fór að finna Þorgeir goða lögsögumann frá Ljósavatni og gaf honum til þrjár merkur silfurs að hann segði upp lögin. En það var þó ábyrgðarráð er hann var heiðinn." Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist síðan undir feld áður en hann hvað upp lögin um kristni.

Tímasetning

[breyta | breyta frumkóða]

Sumir telja að kristnitakan hafi orðið fyrr. Doktor Ólafía Einarsdóttir leiðir líkur að því í doktorsritgerð sinni, Studier i kronologisk metode i tidlig islandsk historieskrivning, sem hún varði í Lundi í Svíþjóð, 21. maí 1964, að kristnitakan hafi farið fram um sumarið 999.

Viðurlög við heiðni

[breyta | breyta frumkóða]

Við kristnitöku Íslands var trúleysi og heiðni á Íslandi bönnuð. Viðurlög við því að blóta á laun voru þriggja ára útlegð úr landi (fjörbaugsgarð). Í sumum tilfellum var fólk brennt á báli.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Íslendingabók