Ólafía Einarsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólafía Einarsdóttir (fædd 28. júlí 1924, dáin 19. desember 2017) var íslenskur fornleifafræðingur og doktor í tímatalsaðferðum í fornum íslenskum heimildum. Hún var fyrsti Íslendingurinn sem lauk prófgráðu í fornleifafræði.

Ólafía fæddist í Reykjavík og voru foreldrar hennar Einar Þorkelsson skrifstofustjóri Alþingis og Ólafía Guðmundsdóttir. Eiginmaður Ólafíu var Bent Fuglede stærðfræðingur og eignuðust þau einn son.

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Ólafía lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1944 og hóf eftir það nám í fornleifafræði í London og lauk því 1948. Að því búnu stundaði hún sagnfræðinám við háskólann í Lundi í Svíþjóð og lauk því 1951. Síðar lauk hún prófi í miðaldasögu við sama háskóla og starfaði þar sem vísindalegur aðstoðarmaður til 1960. Hún starfaði um tíma við Þjóðminjasafn Íslands en árið 1963 var hún ráðin lektor við Kaupmannahafnarháskóla og gegndi starfinu til starfsloka.

Doktorsritgerð Ólafíu nefnist Studier í kronologisk metode i tidlig islandsk historieskrivning og varði hún hana í Lundi árið 1964. Þar fjallar hún meðal annars um tímasetningu kristnitökunnar á Íslandi og rennir stoðum undir þá kenningu sína að sá atburður hafi í raun gerst árið 999 en ekki árið 1000 eins og oftast er talið.

Ólafía var sæmd heiðurs­doktors­nafn­bót við sagn­fræði- og heim­speki­deild Há­skóla Íslands árið 2009. Eft­ir hana ligg­ur fjöldi rit­verka og greina um tíma­tals­fræði og sögu kvenna á miðöld­um. Tímaritið Ólafía sem Forn­leifa­fræðinga­fé­lagið hefur gefið út frá árinu 2006, er nefnt eft­ir henni.[1]

Tilvísun[breyta | breyta frumkóða]

  1. Mbl.is, „Andlát: Ólafía Einarsdóttir“ (skoðað 27. júní 2019)