Karlalandslið Fílabeinsstrandarinnar í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fílbeinstrendíska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
GælunafnLes Éléphants(Fílarnir)
ÍþróttasambandFílbeinstrendíska knattspyrnusambandið
ÁlfusambandCAF
ÞjálfariJean-Louis Gasset
FyrirliðiSerge Aurier
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
49 (21. desember 2023)
12 (Febrúar 2013, apríl-maí 2013)
75 (mar-maí 2004)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
3-2 gegn Dahomey ( 13.apríl, 1960)
Stærsti sigur
11-0 gegn Mið-Afríkulýðveldinu (27.desember 1961)
Mesta tap
5-0 gegn Hollandi (4.júní 2017)
Heimsmeistaramót
Keppnir3 (fyrst árið 2006)
Besti árangurRiðlakeppni
Afríkubikarinn
Keppnir25 (fyrst árið 1965)
Besti árangurMeistarar (1992, 2015)

Fílbeinstrendíska karlalandsliðið í knattspyrnu eða Fílarnir eins og þeir eru oft kallaðir er stjórnað af knattspyrnusambandi Fílabeinsstrandarinnar. Til ársins 2005 var stærsta afrek liðsins sigur í Akríkukeppninni árið 1992. Frá 2006 til 2015 var blómaskeið landsliðsins sem komst í úrslitakeppni þriggja Heimsmeistaramóta í röð og varð að lokum Afríkumeistari árið 2015.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fílabeinsströndin öðlaðist sjálfstæði árið 1960 og lék þegar sama ár sinn fyrsta landsleik, gegn Benín sem þá gekk raunar undir nafninu Dahomey. Liðið tók fyrst þátt í Afríkukeppninni árið 1965 og vann til bronsverðlauna og endurtók svo leikinn þremur árum síðar.

Fyrsti Afrikumeistaratitllinn vannst árið 1992 í móti sem haldið var í Senegal. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni í bæði undanúrslitum og úrslitaleik keppninnar á móti Kamerún og Gana. Sú seinni rataði í sögubækur sem frysta vítaspyrnukeppni á stórmóti þar sem allir leikmenn þurftu að taka spyrnu. Velgengnin í Afríkumótinu skilaði sér þó ekki í forkeppni HM þar sem Fílabeinsströndinni tókst ekki að tryggja sér sæti í úrslitum fyrr en á HM 2006 í Þýskalandi.

Fyrsta heimsmeistaramótið[breyta | breyta frumkóða]

Fílabeinsströndin komst á HM 2006 þrátt fyrir að hafa lent í afar þungum riðli í undankeppninni með bæði Kamerún og Egyptalandi. Þessi árangur náðist á sama tíma og blóðug borgarastyrjöld geysaði í landinu og varð frammistaða landsliðsins og ekki hvað síst ákall fyrirliðans Didier Drogba til þess að vopnahlé komst á og friðarsamningar hófust.

Í upphafi ársins 2006 hélt Fílabeinsströndin á Afríkumótið í Egyptalandi og hafnaði þar í öðru sæti eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn heimamönnum í úrslitum.

Eftirvæntingin fyrir keppnina í Þýskalandi um sumarið var mikil enda liðið talið líklegt til afreka. Fílabeinsströndinni var raðað í annan styrkleikaflokk sem gaf frekar vonir um góðan árangur. Að flestra mati reyndist riðill þeirra þó sá langsterkasti í keppninni, þar sem finna mátti lið Argentínu, Hollands og Serba & Svartfellinga.

Fyrsti leikurinn, gegn Argentínu tapaðist 2:1 eftir harða baráttu. Sömu úrslit urðu upp á teningnum gegn Hollandi og því ljóst að HM-ævintýrið væri úr sögunni að þessu sinni. 3:2 sigur gegn Serbum & Svartfellingum, þar sem liðið lenti 0:2 undir, reyndist ekki mikil sárabót. Liðinu var þó tekið með kostum og kynjum við heimkomuna, einkum þó Drogba sem var nánast í dýrlingatölu í heimalandinu.

HM í Afríku[breyta | breyta frumkóða]

HM 2010 fór fram í Suður-Afríku og var það í fyrsta sinn sem keppnin var haldin í Afríku. Bundu margir von við að lið frá heimsálfunni myndu njóta góðs af staðsetningunni og var talað um að þau væru í raun öll á heimavelli. Fáeinum mánuðum fyrir úrslitakeppnina réð Fílabeinsströndin Sven-Göran Eriksson fyrrum landsliðsþjálfara Englands til að stýra liðinu. Líkt og fjórum árum fyrr var riðillinn strembinn, með stórliðum Brasilíu og Portúgal auk Norður-Kóreu sem var óskrifað blað.

Fílabeinsströndin og Portúgal gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik. Í annarri umferð unnu Brasilíumenn 3:1 sigur á Fílabeinsströndinni á sama tíma og portúgalska liðið skellti Norður-Kóreu 7:0. Þar með var ljóst að mikið þyrfti að ganga á til að Fílabeinsströndin kæmist áfram. Liðið komst í 2:0 eftir tuttugu mínútna leik á móti Norður-Kóreu og vonarglæta virtist vera að kvikna, en ekki tókst að bæta við nema einu marki á sama tíma og hin liðin í riðlinum skildu jöfn. Fílabeinsströndin var fallin úr leik og stóð ekki undir æntingum frekar en önnur Afríkulið í keppninni. Í Afríkumótinu tveimur árum síðar komst liðið í úrslitaleikinn en tapaði í vítaspyrnukeppni fyrir spútnikliði Sambíu án þess að fá á sig eitt einasta mark í keppninni.

Vonbrigði í Brasilíu[breyta | breyta frumkóða]

Fílabeinsströndin komst í sína þriðju úrslitakeppni HM í röð og þá síðustu til þessa dags á HM 2014 í Brasilíu. Liðið var talið líklegt til afreka og jókst sú bjartsýni þar sem riðill Fílabeinsstrandarinnar var talinn frekar þægilegur. Fyrsti leikurinn vannst, 2:1 gegn Japönum. Við tók jafnstórt tap gegn Kólumbíu og mátti því heita öruggt að jafntefli í lokaviðureigninni gegn Grikkjum myndi koma Fílabeinsströndinni áfram í næstu umferð. Grikkir tóku forystuna en Wilfried Bony jafnaði metinn þegar um stundarfjórðungur var eftir. Sætið í 16-liða úrslitum virtist í höfn þegar Grikkir stálu öllum stigunum með marki á þriðju mínútu uppbótartíma og afríska liðið sat eftir með sárt ennið.

Árangur í Afríku[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2015 var Afríkumótið haldið í Miðbaugs-Gíneu. Fílabeinsströndin fór í úrslit gegn Gana. Úrslitaleiknum lauk með markalausu jafntefli. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem fíbeinstrendingar misnotuðu tvær fyrstu spyrnurnar en skoruðu svo úr níu í röð og urðu Afríkumeistarar í annað sinn í sögunni.

Liðið endurtók leikinn þegar það vann Nígeríu 2:1 í úrslitum Afríkukeppninnar 2024.