Hugvísindi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
De septem artibus liberalibus, handrit á latínu sem fjallar um hinar sjö frjálsu listir.

Hugvísindi eru akademískar fræðigreinar sem beita ekki raunvísindalegum aðferðum, það er að segja eru ekki tilraunavísindi. Hugtakið er óljóst og misjafnt getur verið hvernig fræðigreinar eru flokkaðar.

Skiptingin á milli hugvísinda og raunvísinda byggir á þeim aðferðum sem er eða er ekki beitt í viðkomandi fræðigreinum. Í þessum skilningi er stærðfræði hugvísindagrein en er þó yfirleitt flokkuð með raunvísindunum vegna notagildis hennar þar. Hugvísindin fjalla á hinn bóginn að verulegu leyti um manninn og því er stundum greint á milli mannvísinda og náttúruvísinda í stað hug- og raunvísinda. Sú skipting byggir ekki á aðferðum sem beitt er, heldur á viðfangsefni fræðigreinanna. Þá eru félagsvísindi stundum talin til mannvísindanna en stundum ekki en mannvísindi samsvara nokkurn veginn hugvísindum.

Dæmigerðar hugvísindagreinar eru heimspeki, sagnfræði, klassísk fræði, bókmenntafræði, málvísindi og tungumálagreinar. Stundum eru trúarbragðafræði, mannfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og hagfræði einnig talin til hugvísinda enda þótt þau séu gjarnan talin til félagsvísinda.

Helstu greinar hugvísinda[breyta | breyta frumkóða]

Klassísk fræði[breyta | breyta frumkóða]

Forngríska skáldið Hómer.

Segja má að klassísk fræði eða fornfræði sé undirstöðugrein hugvísindanna en upphaf margra hugvísindagreina má rekja til klassískra fræða.

Klassísk fræði fjalla um sögu, menningu og arfleifð klassískrar menningar Grikkja og Rómverja.[1] Viðfangsefni fornfræðinga eru margvísleg og vinnubrögð þeirra einnig. Innan fornfræðinnar vinna fræðimenn ýmist að sagnfræði, heimspeki, bókmenntasögu eða málvísindum að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina. Einkum er það málakunnátta í forngrísku og latínu, sameiginleg þekking á bókmenntum og öðrum heimildum fornaldar og þjálfun í klassískri textafræði sem sameinar ólíka fornfræðinga.

Bókmenntafræði[breyta | breyta frumkóða]

Bókmenntafræði er safnheiti allrar fræðilegrar umfjöllunar um bókmenntir, einkum fagurbókmenntir. Skáldskaparfræði, bókmenntasaga og bókmenntarýni eru helstu undirgreinar bókmenntafræði. Bókmenntafræði á sér djúpar rætur í vestrænni menningu sem teygja sig allt aftur í fornöld en lengi var öll bókmenntafræði hluti af klassískum fræðum. Hún verður ekki til sem sérstök fræðigrein við evrópska háskóla fyrr en á 18. öld.

Viðfangsefni bókmenntafræði hafa verið breytileg í gegnum tíðina en mótast þó alltaf af svörum við þremur spurningum, sem ætíð fléttast saman: Hvað eru bókmenntir? Hvað er eftirsóknarvert að vita um þær? Hvaða aðferðum er heppilegast að beita við rannsóknir á þeim?

Sagnfræði[breyta | breyta frumkóða]

Sagnfræði er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á sögu fyrirbæra, atburða, einstaklinga, hópa, svæða og samfélaga. Sagnfræðirannsóknir byggja á markvissri og skipulagðri heimildarýni, þar sem heimildum er eftir atvikum skipt í frumheimildir og eftirheimildir. Sagnfræðirannsóknir greinast eftir aðferðafræði og því sjónarhorni sem beitt er en einnig eftir því hvert viðfangsefni rannsóknarinnar er.

Tungumál[breyta | breyta frumkóða]

Rit Sørens Kierkegaard ná yfir margar greinar hugvísindanna, þar á meðal heimspeki, bókmenntir, guðfræði, málfræði og klassísk fræði.

Segja má að hinar ýmsu tungumálagreinar séu grunnurinn að hugvísindum nútímans en málvísindi er sú grein hugvísindanna sem fæst við rannsóknir á tungumáli sem slíku. Upphaf málvísinda má rekja til klassískrar textafræði.

Heimspeki[breyta | breyta frumkóða]

Heimspeki er glíma við grundvallarspurningar en heimspekingar reyna meðal annars að skýra inntak og tengsl hugtaka og fyrirbæra á borð við sannleika, merkingu þekkingu, eðli, eiginleika, orsök, athöfn, atburð, rétt, rangt, gott, illt, hamingju, dygð, skyldu, réttlæti, réttindi, frelsi, vináttu, ást og fegurð. Heimspekilegar bókmenntir einkennast öðru fremur af röksemdafærslum, sem eru notaðar til að setja fram kenningar um viðfangsefni heimspekinnar. Þessar röksemdafærslur fela yfirleitt í sér hugleiðingar um og greiningu á andstæðum eða gagnstæðum viðhorfum og meinta galla á þeim.

Upphaflega náði hugtakið heimspeki yfir mun víðara svið viðfangsefna en það gerir í dag. Til dæmis veltu forverar Sókratesar fyrir sér spurningum um uppruna og myndun alheimsins, eðli efnisheimsins og uppruna tegundanna. Þessar vangaveltur urðu að endingu að grunni náttúruvísindanna, sem nefndust áður „náttúruheimspeki“ eða „náttúruspeki“.

Með tilkomu háskólanna tók heimspekin á sig mynd fræðigreinar en frá og með 20. öld hefur hún einkum þrifist innan veggja háskólanna.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Svavar Hrafn Svavarsson, „Hvað gera fornfræðingar? Hvað þarf maður að læra og hversu lengi til að gerast fornfræðingur?[óvirkur tengill]“. Vísindavefurinn 15.8.2002. (Skoðað 13.2.2007).