Harvey Milk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Harvey Milk
Harvey Milk árið 1978.
Fæddur
Harvey Bernard Milk

22. maí 1930
Dáinn27. nóvember 1978 (48 ára)
DánarorsökMyrtur
ÞjóðerniBandarískur
StörfStjórnmálamaður
FlokkurDemókrataflokkurinn (frá 1972)
Repúblikanaflokkurinn (fyrir 1972)

Harvey Bernard Milk (22. maí 1930 – 27. nóvember 1978) var bandarískur stjórnmálamaður og einn fyrsti opinberlega samkynhneigði maðurinn til að vera lýðræðislega kjörinn í embætti, þegar hann var kosinn í borgarstjórn Kaliforníu. Hann þjónaði í sjóhernum frá 1951 til 1955, áður en hann settist að í heimaborg sinni, New York, og gerðist fjármálagreinandi á Wall Street. Hann hafði ekki opinberað kynhneigð sína, né var hann viðriðinn stjórnmál, fyrr en eftir að hann flutti frá New York til San Francisco árið 1972. Hann settist að í Castro-hverfinu, sem þá hafði skapað sér nafn sem hverfi samkynhneigðra og annars hinsegin fólks. Hann nýtti sér sífellt vaxandi efnahagslegan styrk hverfisins og bauð sig þrisvar fram í borgarstjórn án árangurs. Þessar kosningabaráttur öfluðu honum þó sívaxandi vinsælda og árið 1977 vann hann sæti í borgarstjórn.

Milk sat næstum 11 mánuði í stjórninni og kom í gegn lagafrumvarpi sem bannaði mismunun í opinberri þjónustu, atvinnulífinu og á fasteignamarkaði á grundvelli kynhneigðar. Borgarstjórnarfulltrúar samþykktu frumvarpið 11-1 og löginn voru undirskrifuð af George Moscone, borgarstjóra San Francisco. Þann 27. nóvember 1978 voru Milk og Moscone myrtir á skrifstofum sínum af Dan White, fyrrum borgarstjórnarfulltrúa. White hafði stuttu áður sagt upp til að sinna persónulegum viðskiptum, en þegar það framtak bar ekki árangur reyndi hann að endurheimta gamla starfið sitt. White var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir manndráp, en dómurinn var seinna styttur niður í fimm ár. Honum var sleppt árið 1983 og tveimur árum seinna tók hann sitt eigið líf.[1]

Þrátt fyrir hans stutta feril í stjórnmálum er Milk minnst sem mikilvægrar persónu, bæði í San Francisco sem og í hinsegin samfélaginu um heim allan. Árið 2002 var Milk nefndur „frægasti og þýðingarmesti opinberlega samkynhneigði embættismaður sem kjörinn hefur verið í Bandaríkjunum“.[2] Anne Kronenberg, kosningastýra hans, skrifaði um hann: „Það sem greindi Harvey frá okkur hinum var það að hann var hugsjónamaður. Hann ímyndaði sér réttlátan heim í huga sínum og síðan lagði hann upp með að gera hann að veruleika, fyrir okkur öll.“[3] Milk var heiðraður með Friðarorðu forseta Bandaríkjanna árið 2009.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Harvey Milk Biography - California Safe Schools Coalition and Friends - Safe Schools Coalition“. www.safeschoolscoalition.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. mars 2018. Sótt 11. mars 2020.
  2. Smith, Raymond, Haider-Markel, Donald, eds., (2002). Gay and Lesbian Americans and Political Participation, ABC-CLIO. ISBN 1-57607-256-8
  3. Leyland, Winston, ed (2002). Out In the Castro: Desire, Promise, Activism, Leyland Publications. ISBN 978-0-943595-87-0