Friedrich Hayek
Friedrich August von Hayek | |
---|---|
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 8. maí 1899 í Vínarborg (í Austurríki) |
Svæði | Vestræn heimspeki |
Tímabil | Heimspeki 20. aldar |
Skóli/hefð | Frjálshyggja |
Helstu ritverk | Leiðin til ánauðar, Frelsisskráin |
Helstu kenningar | Leiðin til ánauðar, Frelsisskráin |
Helstu viðfangsefni | hagfræði, stjórnspeki |
Friedrich August von Hayek (8. maí 1899 – 23. mars 1992) var austurrísk-breskur hagfræðingur og stjórnmálaheimspekingur, sem hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði 1974, en er einnig kunnur sem einn helsti hugsuður frjálshyggju á 20. öld.
Hagfræðingurinn
[breyta | breyta frumkóða]Hayek fæddist í Vínarborg, barðist í austurríska hernum í fyrri heimsstyrjöld og lauk doktorsprófum í lögfræði og hagfræði frá Vínarháskóla. Þar var hann lærisveinn Ludwigs von Mises, sem var einna fremstur í hópi austurrísku hagfræðinganna svonefndu. Í bókinni Die Gemeinwirtschaft 1922 sagði Mises fyrir um það, að víðtækur áætlunarbúskapur eins og sósíalistar þeirra tíma hugsuðu sér hlyti að mistakast, því að þeir, sem semdu áætlanirnar, gætu aldrei safnað saman til þess nægilegri þekkingu. Hayek varð prófessor í Hagfræðiskólanum í Lundúnum, London School of Economics, 1931. Þar hélt hann uppi gagnrýni á kenningar Johns Maynards Keynes, sem vildi auka ríkisafskipti til að koma í veg fyrir alvarlegar kreppur. Hayek sagði, að sú lækning væri til langs tíma verri en meinsemdin. Í frægri ritgerð, „The Use of Knowledge in Society,“ (1946) lýsti Hayek því, hvernig verð á frjálsum markaði veitir fólki ómissandi upplýsingar um það, hvernig það eigi að bregðast við síbreytilegum aðstæðum. Ein meginröksemd hans gegn ríkisafskiptum í anda Keynes var, að þær trufluðu og torvelduðu þessa öflun og miðlun upplýsinga. Árið 1944 gaf Hayek út bókina Leiðina til ánauðar (The Road to Serfdom), þar sem hann hélt því fram, að nasismi og kommúnismi væru tvær greinar af sama meiði. Áætlunarbúskapur hlyti að lokum að leiða til einræðis, þar sem hagvald og stjórnvald væri hvort tveggja á sömu hendi og móta þyrfti einstaklinga með góðu eða illu í samræmi við hina opinberu áætlun. Bók Hayeks vakti miklar umræður og raunar heiftarlegar deilur, en árið 1947 hafði hann forgöngu um, að 47 menntamenn hittust í Sviss og stofnuðu Mont Pèlerin Society, Mont Pèlerin samtökin, til skrafs og ráðagerða um einstaklingsfrelsið, eðli þess og skilyrði. Hayek var forseti samtakanna fyrstu fimmtán árin, til 1962.
Stjórnmálaheimspekingurinn
[breyta | breyta frumkóða]Hayek sneri sér eftir stríð að stjórnmálaheimspeki. Hann gerðist prófessor í siðfræði í Chicago-háskóla 1950 og gaf út mikla bók um einstaklingsfrelsi árið 1960, Frelsisskráin (e. The Constitution of Liberty). Hann var prófessor í hagfræði í Freiburg-háskóla í Þýska sambandslýðveldinu 1962-1968 og síðar um skeið í Salzburg-háskóla í Austurríki. Á þriðja fjórðungi 20. aldar voru kenningar Keynes í miklum metum, en þetta breyttist um og eftir 1970, þegar reynslan af víðtækum ríkisafsktipum varð til þess, að stjórnmálamenn og hagfræðingar tóku að líta frekar til Hayeks. Hann deildi Nóbelsverðlaunum í hagfræði með jafnaðarmanninum Gunnari Myrdal árið 1974. Meginframlag hans til hagfræðinnar var þá talið útskýring hans á því, hvernig verð á frjálsum markaði miðlar upplýsingum um atvinnulífið og kemur þannig í kring sjálfstýringu þess. Næstu árin jukust stjórnmálaáhrif Hayeks verulega. Ungt fólk hreifst af frjálshyggju hans, og stjórnmálamenn víða um heim tóku upp kenningar hans. Margrét Thatcher, sem dró enga dul á það, að hún hefði sótt margar hugmyndir til Hayeks, varð forsætisráðherra Stóra-Bretlands vorið 1979, og Ronald Reagan, sem einnig var lærisveinn Hayeks, tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum í ársbyrjun 1981. Þau Thatcher og Reagan reyndu bæði að minnka ríkisafskipti í löndum sínum, og gerbreyttist breskt atvinnulíf á valdatíma Thatchers (1979-1990). Árin 1973-1979 gaf Hayek út í þremur bindum verkið Law, Legislation and Liberty. Hann lést í Freiburg. Hann var tvíkvæntur og átti tvö börn með fyrri konu sinni.
Hayek á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Friedrich A. von Hayek varð fyrst kunnur á Íslandi sumarið 1945, þegar kaflar úr útdrætti úr Leiðinni til ánauðar birtust í Morgunblaðinu. Hafði útdrátturinn birst í bandaríska tímaritinu Reader’s Digest og vakið athygli ungs laganema, Geirs Hallgrímssonar, síðar forsætisráðherra, sem fékk Ólaf Björnsson, þá dósent og síðar prófessor, til að snara honum á íslensku. Birtist fyrsti kaflinn í blaðinu 21. júlí 1945. Alþýðublaðið og Þjóðviljinn gagnrýndu þessa ádeilu Hayeks á sósíalisma harðlega. Ungur hagfræðingur, sem nýkominn var heim frá Svíþjóð, Jónas H. Haralz, skrifaði nokkrar greinar gegn boðskap Hayeks í Þjóðviljann, en Ólafur Björnsson svaraði í Morgunblaðinu. Kom útdrátturinn út í bæklingi Sambands ungra sjálfstæðismanna árið eftir, 1946, með formála eftir formann sambandsins, Jóhann Hafstein, síðar forsætisráðherra. Fátt var síðan rætt um Hayek á Íslandi, þangað til Hannes Hólmsteinn Gissurarson kynnti kenningar Hayeks í þættinum „Orðabelgur“ 15. ágúst 1976, en viðmælendur hans þá voru þeir Ólafur Björnsson og Gylfi Þ. Gíslason. Félag frjálshyggjumanna var stofnað á áttræðisafmæli Hayeks 8. maí 1979, en Hayek kom til Íslands í apríl 1980 og flutti tvo fyrirlestra, annan um „Miðjumoðið“, þar sem hann gagnrýndi greinarmun Johns Stuarts Mills á lögmálum um sköpun og skiptingu gæða, hinn um „Skipulag peningamála“, þar sem hann setti fram tilgátu um, að frjáls samkeppni í framleiðslu peninga gæti leitt af sér traustari peninga en menn hefðu vanist. Í umræðuþætti í sjónvarpinu deildu þeir Jónas H. Haralz og Hjalti Kristgeirsson um boðskap Hayeks, og varði Jónas að þessu sinni Hayek. Leiðin til ánauðar kom út þetta ár, 1980, í þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, sem einnig hefur skrifað bók um Hayek, doktorsritgerðina Hayek’s Conservative Liberalism, (Garland, New York 1987). Þorsteinn Gylfason gagnrýndi réttlætiskenningu Hayeks í löngu máli í Skírni 1984, og Hannes H. Gissurarson svaraði honum í Skírni 1986. Ólafur Björnsson birti einnig stutta grein um Hayek í bókinni Einstaklingsfrelsi og hagskipulag (1982).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Hayek-vefurinn Geymt 7 nóvember 2005 í Wayback Machine
- Heimasíða Mont Pèlerin Society Geymt 17 júlí 2012 í Wayback Machine
- Upptökur á viðtölum við Hayek Geymt 6 febrúar 2006 í Wayback Machine
- Leiðin til ánauðar; grein í Morgunblaðinu 1945