Frúarkirkjan í München

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frúarkirkjan er helsta kennileiti borgarinnar München

Frúarkirkjan í München er helsta kennileiti borgarinnar München í Þýskalandi og ein þekktasta kirkja landsins. Turnarnir eru með sérkennileg hvolfþök og eru 99 metra háir. Frúarkirkjan er dómkirkja.

Saga Frúarkirkjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Turnar Frúarkirkjunnar eru átthyrndir

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Til eru tvær þjóðsögur um tilurð Frúarkirkjunnar. Fyrri sagan segir að hertoginn Sigismund hafi verið að veiðum fyrir utan München og litið á borgina frá nokkurri fjarlægð. Hann hafi þá sagt að í München ætti að vera há kirkja sem sæist langt að. Hin sagan segir að í gömlu kirkjunni, sem hafi verið nokkuð lítil, hafi lítil stúlka hnigið niður og dáið, þar sem mannþröngin hafi verið svo mikil í kirkjunni að ekki hafi verið hægt að koma henni út undir læknishendur í tæka tíð. Hertoginn hafði því svarið eið um að reisa stóra kirkju til þess að svona atburðir myndu ekki endurtaka sig.

Byggingasaga[breyta | breyta frumkóða]

1468 lögðu Sigismund hertogi og Tulbeck biskup hornstein að kirkjunni. Framkvæmdir gengu óvenjulega rösklega fyrir sig, þannig að kirkjan var komin í nothæft ástand 20 árum síðar. Hins vegar þvarr fjármagnið, þannig að Sixtus IV páfi veitt öllum þeim fullkomið aflát synda sinna fyrir það eitt að koma til München, ganga til skrifta og fórna vikulaunum fyrir kirkjubygginguna. Kirkjan var svo formlega vígð 14. apríl 1494 og helguð Maríu mey. Við vígsluna var kirkjan orðin 109 metra löng og 40 metra breið. Þannig rúmaði hún 20 þús manns í stæði, en borgarbúar voru aðeins 13 þús á þessum tíma. Turnarnir voru þó ekki fullgerðir. Múrvinnan var búin, en litlu hvolfþökin voru ekki sett á fyrr en 1525. Fram að þeim tíma voru fallbyssur settar á múrverk turnanna til varnar borginni. Þegar þökin voru komin á var kirkjan 99 metra há. Í fári siðaskiptanna voru unnar skemmdir í flestum kaþólskum kirkjum. Í nokkrum kirkjum tókst að bjarga hinum og þessum listaverkum og muni. Þannig tókst að bjarga líkamsleifar heilags Benno frá Meissen úr einni kirkjunni. Leifarnar voru síðan settar í Frúarkirkjuna 1580 til varðveislu eftir að tekist hafði að hrekja mótmælendur alfarið úr borginni. Í kjölfarið var byrjað á því að dýrka heilagan Benno. Í Frúarkirkjunni var smíðað altari og önnur listaverk honum til heiðurs. Auk þess fór mikil Maríudýrkun fram í kirkjunni. Um miðja 19. öld var kirkjan gerð upp að innan. Í loftárásum 1944 stórskemmdist kirkjan. Stór hluti þaksins hrundi og innviðið skemmdist. Viðgerðir eftir stríð fóru fram í nokkrum áföngum. Þeim síðasta lauk ekki fyrr en 1994.

Listaverk og innviði[breyta | breyta frumkóða]

Fótspor kölska
Maríualtarið

Fótspor kölska[breyta | breyta frumkóða]

Mitt í kirkjunni er fótspor sem búið er að ramma inn og varðveita. Fórspor þetta varð til á 17. eða 18. öld á eina staðnum í kirkjuskipinu þar sem ekki sást í neina glugga. Þjóðsagan segir að eitt sinn hafi kölski komið í kirkjuna og staðið á þessum punkti. Þegar hann varð þess áskynja að ekki sást í neina glugga, hafði hann haldið að kirkjan væri gluggalaus. Hann hafi því fengið hláturskast og stappað niður einum fæti. Við það hafi þetta spor myndast. En þegar hann gekk einu skrefi áfram sá hann hina mörgu glugga kirkjunnar og varð þá að játa að honum hafi skjátlast. 1846 voru gluggar settir í kórinn, þannig að frá og með þeim tíma er enginn punktur í kirkjuskipinu til lengur þar sem ekki sér í glugga.

Maríualtari[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðaltari kirkjunnar eyðilagðist í loftárásum. Elsta altari kirkjunnar er hliðaraltari í kapellu Tulbecks biskups. Það er Maríualtari og var smíðað í kringum 1475. Altarið er aðallega grænt og gulllitað og skeytt með styttum af Maríu mey. Tulbeck biskup sést krjúpandi fyrir framan hana og tilbiður hana og Jesúbarnið. Barnið heldur á ríkiseplinu, en það stendur fyrir jarðarkringluna. Stytturnar til beggja handa eru af heilagri Elísabetu og Agnesi. Fyrir neðan er málverk af líkama Jesú þegar hann er tekinn niður af krossinum.

Steinkista Lúðvíks keisara

Grafhvelfing[breyta | breyta frumkóða]

Frúarkirkjan hefur lengi þjónað sem grafarkirkja hertoganna í München, sem voru af Wittelsbach-ættinni. 46 manneskjur í hvelfingunni eru hertogar og greifar, en einnig eiginkonur þeirra og aðrir fjölskyldumeðlimir. Fyrsti hertoginn sem lagður var til grafar í kirkjunni var Lúðvík frá Bayern, en hann var kjörinn keisari þýska ríkisins 1328. Lúðvík er einn af tveimur keisurum sem hvíla í München. (Hinn er Karl VII sem hvílir í Theatiner-kirkjunni). 1622 var búin til gríðarmikil steinkista fyrir Lúðvík keisara, en þó var hann aldrei settur í hana. Steinkistan er ákaflega skreytt og er til sýnis í kirkjunni. Í Frúarkirkjunni hvílir einnig Lúðvík III, síðasti konungur Bæjaralands. Auk höfðingja hvíla einnig vel flestir erkibiskupar München í kirkjunni, allt til 1917, sem og nokkrir ríkir einstaklingar og velgjörðarmenn.

Kirkjuklukkur[breyta | breyta frumkóða]

10 klukkur er í turnum kirkjunnar, sú þyngsta 8 tonn. Hún heitir Súsanna (oft kölluð Salve-bjallan) og er næstþyngsta kirkjuklukka Bæjaralands (á eftir Salvatorbjöllunni í dómkirkjunni í Würzburg). Súsanna þykir vera ein allra tónfegursta miðaldabjalla Evrópu.

Önnur listaverk[breyta | breyta frumkóða]


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]