Drífa Viðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Drífa Viðar (5. mars 1920 - 19. maí 1971) var íslensk myndlistarkona, rithöfundur og kennari.

Foreldrar Drífu voru Katrín Viðar píanókennari (1895-1989) og Einar Indriðason Viðar bankaritari og söngvari (1887-1923). Systir Drífu var Jórunn Viðar píanóleikari og tónskáld.[1] Drífa gekk í hjónaband með Skúla Thoroddsen lækni árið 1947 og eignuðust þau fjögur börn Einar, Theódóru, Guðmund og Jón.

Drífa lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938 og kennaraprófi frá Kennaraskólanum árið 1939. Meðfram kennaranáminu stundaði hún myndlistarnám hjá Jóni Þorleifssyni listmálara en árið 1943 hélt hún utan til náms, fyrst til Bandaríkjanna og síðar til Parísar. Í Bandaríkjunum var hún við nám hjá Morris Kantor í Art Students League í New York samtímis þeim Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur. Apstraktverk Drífu sem hún málaði á námsárum sínum eru talin vera fyrstu abstraktverk íslenskrar listakonu.[2]

Árið 1947 sneri Drífa aftur til Íslands og gekk í hjónaband. Um tíma bjó fjölskyldan í Svíþjóð en heim komin til Íslands, þegar börnin voru orðin eldri tók Drífa upp þráðinn að nýju í myndlistinni en skrifaði einnig um listir, menningu og friðarmál í blöð og tímarit, m.a. skrifaði hún talsvert í tímaritið Melkorka. Hún gaf út tvær bækur, skáldsöguna Fjalldalslilju og smásagnasafnið Daga við vatnið.

Drífa vann ásamt systur sinni Jórunni að barnatímum í útvarpi og einnig skrifaði hún leikrit fyrir börn. Hún hafði einnig pólitískan áhuga og var virk baráttukona í Samtökum herstöðvaandstæðinga og Menningar- og friðarsamtökum kvenna.[3]

Drífa lést aðeins 51 árs að aldri árið 1971.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ismus.is, „Katrín Viðar“, (skoðað 7. mars 2020)
  2. 2,0 2,1 Aðalsteinn Ingólfsson, „Þriðja konan“, Lesbók Morgunblaðsins, 10. október 2009 (skoðað 7. mars 2020)
  3. Kolbrún Bergþórsdóttir, „Hún var sífellt að starfa“ Geymt 23 september 2020 í Wayback Machine, Fréttablaðið, 6. mars 2020 (skoðað 7. mars 2020)