Fara í innihald

Þórisdalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Langjökli. Þórisdalur sunnan við Geitlandsjökul og austan við Þórisjökul.

Þórisdalur er dalur nálægt eða í Geitlandsjökli. Þórisdalur er núna notað um dal austur af Kaldadal, milli Geitlandsjökuls í Langjökli og Þórisjökuls.

Í Grettis sögu segir frá þegar Grettir gekk á Geitlandsjökul og stefndi í landsuður eftir jöklinum þangað til hann fann langan og mjóan dal í jöklinum sem var luktur jöklum öllum megin svo að þeir skúttu fram yfir dalinn og hann sá þar fagrar hlíðar grasi vaxnar og smákjörr og þótti honum sem jarðhitar myndi valda að eigi lukust saman jöklarnir yfir dalnum.

Árið 1664 lögðu tveir prestar upp frá Húsafelli til að leita Þórisdals og hefur frásögn prestana varðveist. Þeir voru Björn Stefánsson á Snæfoksstöðum í Grímsnesi og Helgi Grímsson á Húsafelli. Prestarnir komust yfir jökulinn og sáu ofan í dalinn. Þeir sáu enga hveri, skóga, víði, lyng og ekkert gras og engin merki um útilegumenn.

Árið 1753 reyndu Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson að komast í Þórisdal af Kaldadal, en sú för mistókst.

Árið 1835 komst Björn Gunnlaugsson í dalinn og voru sex menn í fylgd með honum. Þeir fóru á hestum að dalnum, en urðu þar að skilja hestana eftir og fara gangandi í dalinn. Björn skrifaði lýsingu á ferðinni í Skírni árið 1835. Árið 1895 reyndu tveir Þjóðverjar að komast í dalinn en tókst það ekki. Árið 1909 komst austurrískur yfirkennari, Wunder að nafni, í dalinn að sunnanverðu. Wunder ritaði lýsingu á dalnum og gerði uppdrátt. Hann fann vatn alllangt við jökulinn sem hann kallaði Nýjavatn. Wunder sagði Þórisdal 10 km langan og liggja í norðvesturs til suðausturs. Björn Ólafsson fór ásamt öðrum að leita Þórisdals árið 1918 og ritaði frásögn af þeirri ferð í Eimreiðina.

  • Reysa Séra Helga Grímssonar og Séra Björns Stefánssonar til að leita uppi Þórisdal (handrit.is Lbs 87 8vo)[óvirkur tengill]
  • Björn Gunnlaugsson, Um fund Þórisdals, Skírnir 1835 bls. 104
  • Björn Ólafsson, Ferð í Þórisdal, Eimreiðin, 3.-4. tölublað (01.07.1918), bls. 206-217
  • Þórisdalur, Morgunblaðið, 171. tölublað (31.07.1999), Bls.44
  • Þórisdalur, Morgunblaðið, 200. tölublað (03.09.1966), bls. 15
  • „Hvar bjuggu útilegumenn? Voru þeir yfirleitt í hellum?“. Vísindavefurinn.
  • Eysteinn Sigurðsson, Þórisdalur og ferð prestanna 1664, Ferðafélag Íslands, 1997
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.