Óbó

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frá vinstri: Óbó, Ástaróbó og Englahorn

Óbó (eða hápípa, áður einnig nefnt hóbó) er tréblásturshljóðfæri af flokki tvíblöðunga. Orðið óbó er komið af franska orðinu hautbois sem merkir bókstaflega „hátt eða hávært tré“. Þeir sem spila á óbó eru kallaðir óbóleikarar. Halldór Laxness nefnir hljóðfærið óbóu (kenniföllin óbóa, -u, -ur).

Hljóðfærið[breyta | breyta frumkóða]

Tónn óbósins hefur gríðarlegt magn yfirtóna[1] og því er auðvelt að stilla önnur hljóðfæri eftir honum. Til dæmis er alltaf stillt eftir óbóinu í sinfóníuhljómsveitum.[2] Tónsvið þess er frá b til g′′′. Margir óbóleikarar ná hærra, alveg upp á cís′′′′, en það tónsvið þykir ekki mjög fimt nema með sérsmíðuðum blöðum (sem virka þá verr neðar á tónsviðinu). Miðað við önnur tréblásturshljóðfæri hefur óbóið mjög þykkan en næstum skerandi tón; þó er algengt að honum sé lýst sem angurværum.

Hljóðpípa óbósins er í laginu eins og löng og mjó keila með afskornum oddi, rúmlega 60 cm löng, en í stað odds tekur stöpullinn við. Óbóið er oftast búið til úr grendilla-viði (afrískum svartviði) en blaðið er úr risareyr (Arundo donax) og stöpullinn, stysti, efsti og þrengsti hluti hljóðpípunnar, er ýmist úr bronsi eða nikkel. Óbóið er í fjórum pörtum; neðsti og víðasti parturinn heitir bjalla, næst kemur „neðra stykkið“, svo toppstykkið og loks munnstykkið eða blaðið.

Óbóblöð[breyta | breyta frumkóða]

Óbóblað eru tvær nákvæmlega tilskornar reyrflísar settar hvor á móti annarri, bundnar við stöpul þannig að börkurinn snúi út. Óbóblöð eru frá 6 til 7,5 cm löng og eru í kringum 7 mm breið og u.þ.b. 20 μm þunn alveg fremst, en þar eru þau breiðust og þynnst.

Hvernig reyrinn í óbóblaðinu er tálgaður skiptir máli niður í minnstu smáatriði. Þess vegna eru öll óbóblöð sem atvinnuóbóleikarar nota handsmíðuð, oftast af þeim sjálfum, en sumir þeirra kaupa þau af óbóleikurum sem hafa helgað sig blaðasmíði.

Mestu máli skiptir að blaðið „passi við óbóleikarann“, að blaðið hæfi þeirri munnsetningu og blæstri sem óbóleikarinn hefur tamið sér og að styrkleikar þess séu þeir sem óbóleikaranum finnst skipta máli. Til að mynda þurfa þykk blöð yfirleitt meira loft og erfiðara er að gera styrkleikabreytingar með þeim en á móti kemur að þau hafa yfirleitt mun „þykkari“ eða „myrkari“ tón og eru yfirleitt háværari en það eru eiginleikar sem mörgum þykja heppilegir í sinfóníuhljómsveitum þar sem óbóleikarinn þarf oft að spila stuttar einleiksstrófur og tréblásararnir almennt þurfa að gæta þess að vera ekki yfirgnæfðir af stórum strengjasveitum og málmblástursthljóðfærunum. Þar að auki ræður lengd blaðsins, og hve mikið af berkinum er skrapað af, fínstillingu hljóðfærisins.

Ending óbóblaða er yfirleitt 1/2 – 2 mánuðir. Ráða gæði reyrsins sem þau eru gerð úr og hvernig óbóleikarinn fer með þau mestu um endingartímann.

Saga hljóðfærisins[breyta | breyta frumkóða]

Heckelfónn

Elstu heimildir um dúdúk, forföður óbósins, eru 1500–3000 ára gamlar. Skálmpípa (shawm) er stærsta skrefið í áttina að nútímaóbóinu, en hún kom fram á 12. öld. Skálmpípan var þróuð upp úr súrna, tvíblöðungi af þeirri tegund þar sem varirnar snerta ekki blaðið þegar spilað er (eins og t.d. í sekkjapípu). Næsta skref var tekið við upphaf barrokktímabilsins þegar barrokkóbóið var þróað og fyrst notað við frönsku hirðina. Ásamt því að finna hljóðfærið upp eru Jean Hotteterre og Michel Philidor II taldir hafa verið fyrstu óbóleikararnir. Á 19. öld var Böhm-takkakerfinu bætt við og tóngæðin þróuðust í átt að kröftugri en slípaðri tóni nútímaóbósins.

Önnur hljóðfæri í óbófjölskyldunni[breyta | breyta frumkóða]

Tenórgerð óbósins, enskt horn (stundum kallað englahorn), er sennilega næstfrægasti meðlimur óbófjölskyldurnar, en margir þekkja leiðandi sóló þess í öðrum kafla 9. sinfóníu Dvořáks. Ástaróbó eða altóbó var í miklu uppáhaldi hjá J. S. Bach en hefur ekki náð eins góðri fótfestu í seinni tíma verkum og enska hornið. Baritónóbóið kom fram í endanlegri mynd árið 1889 og var notað í risavöxnum sinfóníuhljómsveitum síðrómantíska tímans.

Heckelfónn er annað hljóðfæri í óbófjölskyldunni með sama tónsvið og baritónóbó, kynnt til sögunnar árið 1904. Hljóðpípa hans er mun víðari en baritónóbósins, sem gefur heckelfóninum kraftmeiri tón. Oft er heckelfóninum og baritónóbóinu ruglað saman. Talið er að tónskáld eins og Gustav Holst, sem skrifuðu fyrir svokallað „bassaóbó“ (í verkum eins og Plánetunum), hafi einfaldlega ekki þekkt hljóðfærin í sundur eða verið sama um hvort hljóðfærið spilaði partinn. Í dag eru því partarnir spilaðir sitt á hvað á heckelfón eða baritónóbó (þó oftar á baritónóbó þar sem aðeins 165 heckelfónar hafa verið framleiddir). Richard Strauss skrifaði hins vegar sérstaklega part fyrir heckelfón í verk sín en fyrsti heckelfónpartur veraldar var skrifaður í óperuna Salóme.

Helstu tónverk[breyta | breyta frumkóða]

Verk sem eru með leiðandi óbóparta og njóta vinsælda eru meðal annarra:

Konsertar eftir Johann Sebastian Bach, Tomaso Albinoni, Georg Friedrich Händel, Antonio Vivaldi, Carl Ditters von Dittersdorf, Wolfgang Amadeus Mozart, Richard Strauss og Ralph Vaughan Williams. Einn allra vinsælasti óbókonsertinn er merktur Joseph Haydn en flestir efast um að hann hafi samið konsertinn. Óvíst er hver raunverulegur höfundur hans er.

Sónötur eftir Francis Poulenc, Paul Hindemith, Georg Friedrich Händel og Camille Saint-Saëns.

Verk fyrir eitt óbó eru sjaldgæf. Þó njóta „Myndbreytingar“ Óvidíusar (Metomorphoses (after Ovid)) eftir Benjamin Britten og Sequenza VII eftir Luciano Berio nokkurra vinsælda.

Í sinfóníuhljómsveit eru yfirleitt tveir óbóleikarar; stundum bætist sá þriðji við og spilar hann þá oftast á enskt horn. Í sinfónískum verkum eru mjög oft stuttir einleikskaflar fyrir óbóið, til dæmis í Hamlett (fantasíuforleik) og í byrjun 2. kafla í sinfóníum 1 og 4 eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky, í byrjun annars kafla fiðlukonserts eftir Johannes Brahms og mörgum fleiri.

Í kammertónlist á óbóið sinn sess. Tríósónöturnar sex eftir Jan Dismas Zelenka fyrir tvö óbó, fagott og basso continuo þykja mikil meistaraverk og hafa átt stærstan þátt í að endurvekja minningu þess gleymda meistara. Tríó fyrir tvö óbó og enskt horn eftir Ludwig van Beethoven var eitt vinsælasta verk hans meðan hann lifði. Mozart og Bohuslav Martinů sömdu báðir óbókvartetta og ekki má gleyma hlutverki óbósins í tréblásarakvintettum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Oboe“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. júlí 2006.
  • Ledet, David A., Oboe Reed Styles (Bloomington: Indiana University Press, 1981)
  • Marcuse, Sybil, A Survey of Musical Instruments (London: David & Charles, 1975)


  1. „Sound Characteristics of the Oboe“. Vienna Symphonic Library. Sótt 9. september 2012.
  2. „Why do orchestras tune to an 'A'?“. Classic FM (enska). Sótt 2. nóvember 2019.