Orrustan við Cannae

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Orrustan við Cannae.

Orrustan við Cannae var mikilvæg orrusta í öðru púnverska stríðinu. Orrustan átti sér stað 2. ágúst 216 f.Kr. skammt frá bænum Cannae á suðaustur Ítalíu. Her Karþagómanna undir stjórn Hannibals gjörsigraði fjölmennari her rómverska hersins undir stjórn ræðismannanna Luciusar Aemiliusar Paullusar og Gaiusar Terentiusar Varros. Í kjölfar orrustunnar hlupust Capua og aðrar ítalskar borgir undan merkjum og sögðu sig úr rómverska lýðveldinu. Karþagómönnum tókst ekki að binda endi á stríðið en þó er orrustan talin vera einn glæsilegasti hernaðarsigur styrjaldarsögunnar.

Rómverjar, sem höfðu jafnað sig á ósigrum sínum í orrustunni við Trebia (218 f.Kr.) og Trasimene (217 f.Kr.), ákváðu að mæta Hannibal við Cannae, með um 87.000 manna herlið rómverskra hermanna og bandamana. Hægri vængur rómverska hersins sneri að ánni Aufidus en riddaralið þeirra gætti hliðanna og í miðjunni var þungvopnað fótgöngulið í fleiri röðum en venjulega. Ef til vill vonuðust Rómverjar til að ná að rjúfa fylkingu Karþagómanna fyrr í orrustunni en þeir höfðu gert í orrustunni við Trebia. Hannibal brást við með tangarsókn. Hann skipaði óáreiðanlegasta fótgönguliði sínu í miðjuna en til hliðanna var riddaralið Karþagómanna. Áður en til átaka kom raðaði karþagóski herinn sér upp í oddafylkingu, þannig að miðjan sótti fyrr fram. Þegar orrustan hófst hörfaði miðja Karþagómanna. Rómverjar sóttu fram inn í töng Karþagómanna án þess að átta sig á því og vængir karþagóska hersins og riddaralið náðu að umkringja rómverska herinn. Rómverjar voru nú umkringdir og sótt var að þeim úr öllum áttum. Þeir áttu sér enga undankomuleið og voru brytjaðir niður. Talið er að um 60.000–70.000 Rómverjar hafi verið drepnir eða handsamaðir við Cannae (þ.á m. ræðismaðurinn Lucius Aemilius Paullus og áttatíu rómverskir öldungaráðsmenn).

Talið er að orrustan við Cannae sé ein mannskæðasta orrusta sögunnar miðað við fjölda látinna á einum degi og mannskæðasta orrusta Evrópusögunnar.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Kelly (2006): 5.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Kelly, Cristopher, The Roman Empire: A Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2006).