Navahóar
Navahóar eru næstfjölmennasti viðurkenndi hópur frumbyggja í Bandaríkjunum á eftir sérókum og telja yfir 300.000 manns. Navahóar eru með eigin ríkisstjórn sem stjórnar Navahó-verndarsvæðinu sem er á svokölluðu Four Corners svæði, en það er svæðið þar sem fylkin Colorado, Nýja Mexíkó, Arizona og Utah mætast. Flestir Navahóar tala upprunalegt tungumál sitt, navahóísku og einnig ensku.[1] Stærstur hluti Navahóa býr í Arizona eða um 140.000 manns og Nýju-Mexíkó, um 100.000 manns. Meira en þrír fjórðu allra Navahóa búa í þessum tveimur fylkjum.[2]
Árdagar Navahóa
[breyta | breyta frumkóða]Upphaflega voru Navahóar að mestu leyti svokallaðir veiðimenn og safnarar. Þetta breyttist mikið á 16. og 17. öld þegar Spánverjar komu til Ameríku, þá hófu Navahóar að rækta sauðfé sér til fæðis og klæða í stað þess að veiða sér til matar. Þetta gerði að verkum að Navahó-þjóðin blómstraði og fólki fjölgaði talsvert.[3]
Stríð við Spánverja og Bandaríkjamenn
[breyta | breyta frumkóða]Á 17. öld var það algengt að ungir Navahó-karlmenn sem ætluðu að stofna sinn eigin ættbálk, reyndu að stela fé frá nálægum ættbálkum eða frá Spánverjum. Spánverjar svöruðu þessu með því að ræna bæði Navahó-fólkinu sjálfu, til að selja í þrældóm, og einnig löndum þess. Árið 1804 lýstu Navahóar yfir stríði á hendur Spánverjum. Spánverjar unnu blóðugan sigur á Navahó-fólkinu, brenndu akra, stálu sauðfé og öðrum dýrum og rændu ótal mörgum konum og börnum Navahóa. Það gerðist svo árið 1821 að 24 Navahóar voru stungnir til bana á vopnahlésráðstefnu þar sem þeir reyktu friðarpípur sínar.[3]
Um miðja 19. öldina byrjuðu svo útistöður Navahóa við Bandaríkjamenn fyrir alvöru. Þar var í aðalhlutverki bandaríski hershöfðinginn James H. Carleton. Hann fyrirskipaði mönnum sínum, með Kit Carson í fararbroddi, að ráðast á lönd Navahóa og brenna þar akra og heimili Navahóanna. Árið 1864, eftir þessar miklu ofsóknir á hendur Indíánunum voru um 9000 Navahóar, karlar, konur og börn, neydd til þess að ganga um 480 kílómetra að Fort Sumner-herstöðinni í Nýju-Mexíkó. Þar var þeim lofað mat, vatni og húsaskjóli. Þetta gekk þó ekki alveg eftir og áttu yfirvöld í erfiðleikum með að sjá öllum fyrir nauðsynum. sem gerði að verkum að sjúkdómar blossuðu upp og fjöldi fólks dó. Fjórum árum síðar, árið 1868, var svo samið um að eftirlifandi Navahóar fengju að fara aftur á verndarsvæði í hluta af heimalandi þeirra.[3]
Navahó-leynikóðinn
[breyta | breyta frumkóða]Navahó-leynikóðinn var fyrirbæri sem varð til í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta var ákveðið hernaðarlegt dulmál sem lítill hópur Navahó-manna bjó til og Bandaríski herinn notaði. Dulmálið var búið til úr frumtungu Navahóa, sem hentaði vel til þessara nota, enda er tungumálið mjög sérstakt og aðeins talað á tiltölulega litlu svæði í Bandaríkjunum. Þetta gerði að verkum að mjög erfitt var fyrir óvininn að ráða dulmálið og sumir ganga svo langt að fullyrða að þetta sé eina dulmál sem óvinum hafi aldrei tekist að ráði.[4] Hinir svokölluðu Navajó-dulmálshvíslarar (e. Navajo code talkers(en).) tóku þátt í öllum orrustuum bandaríska hersins í Kyrrahafinu á árunum 1942-45. Howard Connor, majór í bandaríska hernum, hélt því fram að án Najavó-indíánanna og dulmáls þeirra hefðu Bandaríkjamenn aldrei haft sigur í áhlaupinu á Iwo Jima-ströndina, sem er ein frægasta orrusta síðari tíma.[5]
Saga þessara dulmálshvíslara var hins vegar leyndarmál í fjölmörg ár, vegna þess að bandarísk stjórnvöld töldu dulmálið varða öryggi landsins og héldu því leyndu. Það var ekki fyrr en 17. september árið 1992 að hvíslararnir fengu loks sína viðurkenningu og var hún veitt þeim í höfuðstöðvum bandaríska hersins í Pentagon í Washington D.C.[5]
Fáni Navahó
[breyta | breyta frumkóða]Fána Navahó-fólksins hannaði Jay R. Degroat, Navahói frá Mariano Lake í Nýju Mexíkó. Hönnun hans var valin úr yfir 140 tillögum sem bárust og var fáninn formlega tekinn í notkun þann 21. maí árið 1968. Ljósbrúni flöturinn táknar núverandi verndarsvæði Navahóa en hinn dökkbrúni það gamla, frá samningnum sem gerður var árið 1868. Inni í hvíta hringnum í miðjunni sést síðan sól yfir uppskerunni og búfénu, sem táknar landbúnaðarlífshætti Navahóa. Svo má einnig sjá hefðbundið Navahó-hús við hliðina á nútíma heimili. Á milli tjaldsins og hússins er síðan lítil olíulind, sem táknar tekjumöguleika ættbálksins.[5]
Vefnaður
[breyta | breyta frumkóða]Vefnaður Navahóa hefur á síðari árum orðið gríðarlega frægur. Teppin sem þeir ófu voru af hæsta gæðaflokki. Þessi teppi gátu haldið á þeim hita og voru sum jafnvel vatnsheld. Þau voru því mikilvægur liður í afkomu Navahóanna, bæði vegna notagildisins og einnig vegna þess að þeir gátu selt þau til annarra Indíánaættbálka. Ástæðan fyrir miklum gæðum teppanna var sauðfjárkynið sem Navahóarnir fengu ullina af. Það er svokallað „Churro“-sauðfé, sem Spánverjar fluttu til Ameríku á 16. öld. Þetta sauðfé er mjög harðgert og getur auðveldlega lifað af í hrjóstrugri eyðimörkinni. Ull þess er mjög mikil og síð og er auk þess mjög snauð af ullarfitu, sem gerir hana mjög hentuga í vefnað og ekki síst í teppi.[6]
Silfursmíði
[breyta | breyta frumkóða]Silfursmíði hefur verið mikilvæg í menningu Navahóa frá því um miðja 19. öld.Maður að nafni Adsiti Sani var fyrstur Navahóa til þess að fullkomna þessa listgrein. Hann hóf síðan að kenna öðrum Navahóum að vinna með silfur og um 1880 voru Navahóarnir farnir að búa til hálsmen, armbönd og tóbakspontur. Seinna bættu þeir við eyrnalokkum, beltissylgjum og svokölluðum "squash blossom" hálsmenum, sem eru í dag líklega þekktustu silfurmunir Navahóa. Þessi hálsmen eru bæði notuð við hefðbundnar ættbálkaathafnir og einnig til þess að selja ferðamönnum með hagnaði.[7][8]
Frægir Navahóar
[breyta | breyta frumkóða]- Jay Tavare, leikari.
- Cory Witherill, fyrsti Navahóinn sem keppti í Nascar-kappakstrinum.
- Jacoby Ellsbury, hafnaboltaleikmaður sem spilar með Boston Red Sox
- Rickie Fowler, atvinnumaður í golfi.
- Klee Benally, heimildamyndaleikstjóri, söngvari og gítarleikari Navahó-pönkrokkhljómsveitarinnar Blackfire.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Navajo population.. Sótt 21. september 2013.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 The Navajo ancient roots.. Sótt 21. september 2013.
- ↑ Navajo weaving. Geymt 14 nóvember 2012 í Wayback Machine. Sótt 24. september 2013.