Nafnorð í þýsku
Nafnorð í þýsku hafa þau séreinkenni að byrja alltaf á hástaf, hvort sem þau eru sérnöfn eða ekki. Þetta er samkvæmt "Rechtschreibereform" en áður var mjög mismunandi hvaða nafnorð hófust á stórum staf og hver ekki. Eins og í íslensku, þá fallbeygjast þau en hins vegar er greinirinn ekki viðskeyttur í fallbeygingu.
Kyn
[breyta | breyta frumkóða]Kyn nafnorða (Genus der Substantive, Geschlecht der Hauptwörter) eru ekki alltaf þau sömu og í íslensku og getur reynst erfitt að læra þau, en það eru samt ákveðin grunnatriði sem hægt er að miða við.
Karlkyn:
- Merkir einhvern í karlkyni eins og frændi (Verwandter, Onkel, Vetter, Neffe), faðir (Vater), bróðir (Bruder).
- Endar á -er og táknar geranda.
- Endar á -ig, -ich og -ing.
- Mörg nafnorð sem eru leidd af stofni sagnorða og eru án endingar.
Kvenkyn:
- Merkir einhvern í kvenkyni eins og frænka (Verwandte, Tante, Kusine, Nichte), móðir (Mutter), systir (Schwester). Samt ekki Fräulein (ungfrú) eða Mädchen (stúlka).
- Mörg nafnorð sem enda á -e.
- Endar á -heit, -keit, -schaft, -tät, -ung og -in.
Hvorugkyn:
- Endar á -lein eða -chen.
- Nafnhættir sagnorða notaðir óbreyttir sem nafnorð.
Þegar um er að ræða samsett orð, þá er það síðasta orðið sem ræður kyni.
Fallbeyging
[breyta | breyta frumkóða]Fallbeyging í þýsku er nokkurn veginn eins og í íslensku, nema að greinirinn er ekki hafður viðskeyttur, heldur er í sér orði. Sjá „Greinir í þýsku“ fyrir nánari upplýsingar um greininn. Nafnorðið er óbreytt í gegnum fallbeygingu nema í eignarfalli í eintölu karlkyni og hvorugkyni og síðan þágufalli fleirtölu.
Nafnorð í eignarfalli eintölu bæta við sig annað hvort -es eða -s. Nafnorð í þágufalli fleirtölu bæta alltaf við sig -n.
Fall | Karlkyn | Kvenkyn | Hvorugkyn |
---|---|---|---|
nefnifall | der Vater | die Mutter | das Kind |
þolfall | den Vater | die Mutter | das Kind |
þágufall | dem Vater | der Mutter | dem Kind |
eignarfall | des Vaters | der Mutter | des Kindes |
Kenniföll nafnorða eru nefnifall eintölu, eignarfall eintölu og nefnifall fleirtölu.
Veik beyging karlkynsorða
[breyta | breyta frumkóða]Ekki öll karlkynsorð beygjast reglulega og eru til undantekningar frá þeirri reglu.
1) Orð af erlendum stofni sem hafa áherslu á síðasta atkvæði.
2) Flest orð sem enda á -e beygjast veikt og taka þá að sér -en eða -e endingu í öllum föllum, nema nefnifalli eintölu. Dæmi um það eru orðin Junge, Däne, Kunde. Käse tekur þó ekki að sér veika beygingu.
3) Einhver önnur algeng orð. Dæmi: Herr og Bauer.
Óreglulegar beygingar
[breyta | breyta frumkóða]Mjög fá nafnorð beygjast óreglulega.
Fall | Eintala | Fleirtala |
---|---|---|
nefnifall | der Name | die Namen |
þolfall | den Namen | die Namen |
þágufall | dem Namen | den Namen |
eignarfall | des Namens | der Namen |