Murakami Haruki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Murakami Haruki (2009)

Murakami Haruki (村上春樹), einnig þekktur sem Haruki Murakami, (f. í Kýótó þann 12. janúar 1949) er vinsæll japanskur rithöfundur og þýðandi.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Hann bjó í Kobe flest öll æskuárin. Faðir hans var búddaprestur og móðir hans var dóttir kaupmanns frá Osaka. Þau kenndu bæði japanskar bókmenntir.

Murakami hafði hins vegar meiri áhuga á bandarískum bókmenntum en japönskum, eins og glögglega má sjá í skrifum hans, en vestrænn ritstíllinn er frábrugðinn flestum öðrum japönskum bókmenntum samtímans.

Hann lagði stund á leiklist í Waseda háskóla í Tókýó, og hitti þar Yoko, eiginkonu sína. Fyrsta starf hans var í hljómplötuverslun, en að námi loknu stofnaði hann djassbar í Tókýó, sem hann rak á árunum 1974 til 1982. Tónlistaráhuginn kemur líka fram í sögum hans, sérstaklega í Dansu dansu dansu (e. Dance, Dance, Dance) og Noruwei no mori (e. Norwegian Wood), sem nefnd er eftir samnefndu Bítlalagi.

Fyrsta skáldsaga hans: Kaze no oto wo kike (e. Hear the Wind Sing) vann til verðlauna árið 1979. Ári síðar gaf hann út 1973 nen no pinbohru (e. Pinball, 1973). Þessar skáldsögur mynda Rottuþríleikinn, ásamt Hitsuji wo meguru Bohken (e. A Wild Sheep Chase). Árið 1985 gaf hann út vísindaskáldsögu, Sekai no owari to hahdo bohrudo wandahrando (e. Hard-Boiled Wonderland and the End of the World).

Hann sló loks í gegn í Japan með útgáfu Noruwei no mori árið 1987. Árið 1986 fór Murakami frá Japan til vesturlanda. Hann þvældist um Evrópu og Bandaríkin og settist að lokum að í bænum Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum. Á þessum árum skrifaði hann Dansu dansu dansu og Sunnan við mæri, vestur af sól (Kokky no minami, taiyou no nishii).

Árin 1994 og 1995 sendi hann frá sér Nejimakidori kuronikuru (e. The Wind-Up Bird Chronicle) í þremur hlutum. Bókin fjallaði meðal annars um japanska stríðsglæpi í Mansjúríu. Fyrir þá skáldsögu fékk hann Yomuiri bókmenntaverðlaunin.

Með Nejimakidori kuronikuru varð vendipunktur á ferli Murakamis. Rit hans urðu þyngri, en fram að þessu höfðu þau verið háfgert léttmeti. Þegar hann var að leggja lokahönd á bókina, reið Kóbe-jarðskjálftinn yfir og gerð var taugagasárás á neðanjarðarlestakerfið í Tókýó. Í kjölfar þessara atburða sneri hann aftur til Japans. Atburðirnir voru þungamiðjan í smásagnasafninu Kami no kodomotachi ha mina odoru (e. After the Quake) og í fyrsta ritgerðasafni hans, Andaguraundo/Yakusoku sareta basho de (e. Underground).

Auk skáldsagna sinna og smásagnasafnsins Kami no kodomotachi ha mina odoru, sem fyrr er getið, hefur Murakami skrifað fjölda smásagna. Hann hefur einnig þýtt verk eftir F. Scott Fitzgerald, Raymond Carver, Truman Capote, John Irving, Paul Theroux og fleiri á japönsku.

Skáldsögur[breyta | breyta frumkóða]

  • Kaze no oto wo kike (e. Hear the Wind Sing) (1979)
  • 1973 nen no pinbohru (e. Pinball, 1973) (1980)
  • Hitsuji wo meguru Bohken (e. A Wild Sheep Chase) (1982)
  • Sekai no owari to hahdo bohrudo wandahrando (e. Hard-Boiled Wonderland and the End of the World) (1985)
  • Noruwei no mori (e. Norwegian Wood) (1987)
    • Á íslensku: Norwegian Wood (Bjartur, 2006) - (Þýð. Uggi Jónsson)
  • Dansu dansu dansu (e. Dance, Dance, Dance) (1988)
  • Kokky no minami, taiyou no nishii (e. South of the Border, West of the Sun) (1992)
    • Á íslensku: Sunnan við mærin, vestur af sól (Bjartur, 2001) - (Þýð. Uggi Jónsson)
  • Nejimakidori kuronikuru (e. The Wind-Up Bird Chronicle) (1994/5)
  • Supuhtoniku no Koibito (e. Sputnik Sweetheart) (1999)
    • Á íslensku: Spútnik-ástin (Bjartur, 2003) - (Þýð. Uggi Jónsson)
  • Umibe no Kafka (e. Kafka on the Shore) (2002)

Smásögur[breyta | breyta frumkóða]

  • Kami no kodomotachi ha mina odoru (e. After the Quake) (2000)

Einnig hefur komið út á ensku smásagnasafn sem hefur að geyma sögur eftir hann frá níunda áratugnum:

  • The Elephant Vanishes (1996)

Ritgerðir[breyta | breyta frumkóða]

  • Andaguraundo/Yakusoku sareta basho de (e. Underground) (1997/8)

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]