Mantúa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mantúa

Mantúa (ítalska: Mantova, emilíska og latína: Mantua) er borg í Langbarðalandi á Ítalíu. Borgin er höfuðborg samnefndrar sýslu. Íbúar eru tæp 50 þúsund. Helsta einkenni borgarinnar eru þrjú manngerð vötn sem voru gerð borginni til varnar á 12. öld. Fjórða vatnið þornaði upp á 18. öld.

Borgin var lengst af lén Gonzaga-ættarinnar. Borgin blómstraði á endurreisnartímanum og í upphafi nýaldar en þegar Mantúuerfðastríðið 1628-1630 braust út settust málaliðar Ferdinands 2. um borgina. Herinn bar með sér mannskæða plágu og þegar þeir náðu borginni á sitt vald rændu málaliðarnir hana í þrjá sólarhringa. Eftir þetta áfall náði Mantúa aldrei fyrri styrk. Árið 1708 komst borgin í hendur Habsborgara.