Mú (meginland)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort James Churchward af Mú.

er ímyndað meginland sem kemur víða fyrir í bókmenntum sem ganga út á týnda heima. Það kom fyrst fram í skrifum forngripafræðingsins Augustus Le Plongeon eftir rannsóknir hans á fornleifum Maja á Yucatán-skaga í Mexíkó á síðari hluta 19. aldar. Nafnið fékk hann úr riti Charles Étienne Brasseur de Bourbourg sem misþýddi Madrídarhandritið og taldi að orðið Mu vísaði til lands sem hefði sokkið í sæ. Le Plongeon túlkaði það sem vísun til Atlantis. Hann taldi að menning Forn-Egypta og Forn-Grikkja væri afkomandi þessa menningarheims.

Síðar gerði breski rithöfundurinn James Churchward heitið þekkt í röð bóka sem fjölluðu um týnt meginland í miðju Kyrrahafi. Bækurnar komu út á 3. og 4. áratug 20. aldar. Hann hélt því fram að hann hefði fengið upplýsingar um þetta land af leirtöflum sem hann uppgötvaði meðan hann gegndi herþjónustu á Indlandi. Churchward staðhæfði að uppruna siðmenningar mætti rekja til Mú og að allar stærri minjar úr steini sem væri að finna á Kyrrahafseyjum mætti rekja til þess.

Týnda meginlandið Mú kemur fyrir í skrifum ýmissa höfunda á 19. og 20. öld, aðallega í dulspekilegu samhengi. Mú kemur einnig víða fyrir í skáldsögum, eins og sögum H. P. Lovecraft og myndasögum Marvel.