Hýperbórea

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort Gerardus Mercator sem sýnir stórt meginland umhverfis Norðurpólinn.

Hýperbórea (forngríska: Ὑπερβόρε(ι)οι) var í grískri goðafræði land „handan norðanvindsins“ þar sem risar bjuggu. Nafnið er dregið af Boreasi, guði norðanvindsins, sem Grikkir töldu að byggi í Þrakíu. Hýperbórea hefur því verið handan Þrakíu.

Samkvæmt goðsögninni var Hýperbórea land þar sem sólin skein allan sólarhringinn, sem ýmsir hafa túlkað sem vísun í Norðurslóðir og miðnætursólina þar. Hýperbórea gæti allt eins verið staðleysa. Grískir höfundar á borð við Heródótos, Hómer og Sófókles, staðsettu Hýperbóreu ýmist í Asíu eða Evrópu, til dæmis í Kasakstan, Dakíu, löndum Kelta eða enn norðar. Kort sem byggjast á lýsingum Strabóns sýna Hýperbóreu sem skaga eða eyju norðan við Frakkland. Hekataios frá Abderu varð fyrstur til að tengja Hýperbóreu við Bretlandseyjar á 4. öld f.Kr.

Hýperbórea og Túle koma fyrir í verkum klassískra höfunda sem útópísk „ókunn lönd“ þar sem fólk nýtur langlífis og lifir í fullkominni sælu.