Lotte Reiniger
Lotte Reiniger (2. júní 1899 – 19. júní 1981) var þýskur kvikmyndaleikstjóri og listamaður sem fékkst sérstaklega við hreyfimyndir gerðar úr skuggamyndum sem hún teiknaði og klippti út úr pappír. Hún gerði fyrstu hreyfimyndina úr skuggamyndum í fullri lengd rúmum áratug áður en fysta teiknimynd Walt Disney í fullri lengd var gerð.
Hún var í bernsku heilluð af kínverskri hefð varðandi skuggamyndabrúðuleikhús og setti sjálf upp slíkt leikhús og sýndi verk fyrir fjölskyldu og vini. Árið 1915 sótti hún fyrirlestur hjá Paul Wegener um möguleika hreyfimynda. Hún gekk í leikhóp Wegener og gerði skuggamyndaportett af mörgum leikurum og síðan titla fyrir kvikmyndir Wegeners og voru margir þeirra skuggamyndir.
Árið 1918 gerði hún hreyfimynd með rottum úr viði og var sú mynd notuð sem millifyrirsögn í mynd Wegeners um rottufangarann frá Hameln. Þetta verk vakti athygli á list hennar og varð til þess að hún komst að við stofnun sem gerði tilraunir með hreyfimyndastuttmyndir. Þar kynntist hún manni sínum og starfsfélaga Carl Koch og öðrum framúrstefnulistamönnum. Hún leikstýrði mynd árið 1919 um tvo elskendur og gerði sex stuttmyndir næstu ár. Árið 1926 gerði hún fyrstu hreyfimyndina í fullri lengd en það var mynd um ævintýri prinsins Achmed byggð á sögu úr Þúsund og einni nótt. Hún gerði svo hreyfimynd um Dagfinn dýralækni og dýrin hans árið 1928 og árið 1929 leikstýrði hún leikinni mynd sem innihélt 20 mínútur af skuggahreyfimynd sem hún var höfundur að. Um þetta leyti barst tækni til að hljóðsetja myndir til Þýskalands og útgáfu þeirrar myndar var seinkað og var hún talsett með ýmsum leikurum og gefin út 1930 en talsetning heppnaðist illa og eyðilagði upplifun af myndinni. Reiniger reyndi að gera þriðju hreyfimyndina byggða á óperu eftir Maurice Ravel um barnið og töfrahlutina en tókst ekki að leysa úr flækjum varðandi höfundarrétt að tónlistinni og það kom í ljós að höfundarrétthafar voru óvænt mjög margir. Reiniger og Koch yfirgáfu Þýskaland þegar Nasistar komust til valda þar en þau tóku bæði þátt í stjórnmálum og voru vinstrisinnuð. Þeim tókst ekki að fá varanlegt landvistarleyfi annars staðar og fóru land úr landi en tókst þó að gera tólf kvikmyndir á þeim tíma. Þau fluttu aftur til Berlínar í stríðslok 1944 og fluttu svo til London árið 1949.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- "Lotte Reiniger teikningar og ljósmyndir" Geymt 27 febrúar 2018 í Wayback Machine, listal.com
- Lotte Reiniger í IMDB gagnagrunninum
- Æviágrið Lotte Reiniger