Skuggamynd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skuggamynd af Goethe frá blómatíma skuggamyndanna um 1780
Skuggamynd af tveimur veiðimönnum
Sérstaklega útbúinn stóll frá 1778 til að auðvelda að draga upp skuggamyndir

Skuggamynd er útlínumynd af persónu, hlut eða umhverfi í einum lit, oftast svörtum. Hægt er að búa til skuggamyndir í ýmsum miðlum en oftast voru þó skuggamyndir gerðar með að klippa út pappír sem síðan er límdur á annan pappír í andstæðum lit og voru slíkar myndir oft settar í ramma. Útlínur skipta máli í skuggamynd en engin smáatriði eru sýnileg á myndinni.

Útklipptar andlistmyndir, oft frá hlið urðu vinsælar á miðri 18. öld. Það var ódýr og mun fljótleg leið, mun ódýrari en að láta mála litlar andlitsmyndir.

Alþjóðlegt orð fyrir skuggamyndir er orðið silhouette en það er dregin af nafni fransks fjármálaráðherra sem hét Silhouette en árið 1759 í frönsku fjármálakreppunni í Sjö ára stríðinu setti hann svo miklar álögur á franskan almenning, sérstaklega eignafólk að nafn hans varð samheiti yfir allt sem var gert á ódýran hátt og var því tengt svona ódýrum útlínumyndum.

Áður en ljósmyndir urðu algengar var ódýrasta leiðin til að draga upp mynd af manneskju að klippa út skuggamynd úr svörtum pappír. Þessar myndir voru kallaðar prófílar eða skuggar og voru gerðar á þrennan hátt 1) málaðar á hart efni eða pappír eða öfugt á gler 2) skornar út þannig að negatíva var lögð á ljósan pappír og klippt út og svo lögð á dökkan bakgrunn 3) klippt og límt þar sem fígúra var klippt út úr dökkum pappír og límd á ljósan bakgrunn.

Skuggamyndir hafa verið gerðar í mörg þúsund ár og meðal annars notaðar í skreytingar á leirkerum og myntir verið slegnar með skuggamyndum. Í Bandaríkjunum voru skuggamyndir mjög vinsælar frá 1790 til 1840 en með tilkomu myndavéla hættu skuggamyndir að vera algengt form af portettmyndum. Skuggamyndir voru þó vinsælt listform og oft hluti af pappírsklippi. Einn þeirra listamanna sem klipptu út pappír í skuggamyndir var rithöfundurinn H. C. Andersen.

í Indónesíu er hefð fyrir skuggaleikritum og barst sú hefð til Evrópu og varð vinsæl í París á 18. og 19 öld. Skuggamyndir hafa mikið verið notaðar í auglýsingum og á skiltum því þær er auðvelt að gera og sást vel. Þær eru líka notaðar fyrir ýmis konar merki til dæmis umferðarmerki.

Fyrsta teiknimyndin í fullri lengd var hreyfimynd úr skuggamyndum gerð árið 1926 af þýska skuggamyndalistamanninum og leikstjóranum Lotte Reiniger.