Laugavegur 13

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Laugavegur 13 árið 1930. Hornhúsið var flutt árið 1953 að Efstasundi 100

Laugavegur 13 er hús við Laugaveg í Reykjavík. Þar var um langt skeið rekin húsgagnaverslun. Þann 14. ágúst 1919, stofnsetti Kristján Siggeirsson húsgagnaverslun sem kennd er við hann að Laugavegi 13. Þar voru fyrst eingöngu seld erlend húsgögn og í tengslum við versluna var lítið verkstæði til að setja saman húsgögn sem flutt voru inn ósamsett. Síðar hófst framleiðsla á húsgögnum og var verkstæðið í bakhúsum við Laugaveg 13. Tíu til fimmtán manns unnu við húsgagnaframleiðsluna. Einnig var um skeið rekin málaravinnustofa, þar sem húsgögn voru máluð.

Síðar var reist steinsteypt hús austan við eldra hús á Laugaveg 13 og var húsgagnaverslunin staðsett þar á jarðhæð. Árið 1953 var hornhúsið að Laugavegi 13 flutt að Efstasundi 100 og byggt þar verslunar- og skrifstofuhús og var það eitt stærsta húsið í miðbænum. Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna rak á Kaldastríðsárunum (frá 1955) bókasafn og lesstofu á fyrstu hæð á Laugavegi 13.

Árið 1983 opnaði fyrirtækið Kristján Siggeirsson hf húsgagnaverslunina Habitat að Laugavegi 13 í samstarfi við Habitat-fyrirtækið í Bretlandi. Ekki er lengur rekin húsgagnaverslun í húsinu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]