Kristín L. Sigurðardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kristín L. Sigurðardóttir fædd. 23. mars 1898, dáin 31. október 1971 var alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kristín varð landskjörin alþingismaður í alþingiskosningunum 1949 og varð þar með fimmta íslenska konan sem kjörin var til setu á Alþingi. Kosningarnar mörkuðu þau tímamót að þetta voru fyrstu alþingiskosningarnar hér á landi þar sem tvær konur voru kosnar á þing en ásamt Kristínu hlaut Rannveig Þorsteinsdóttir lögfræðingur sæti á Alþingi.[1]

Foreldrar Kristínar voru Sigurður Þórólfsson skólastjóri á Hvítarbakka í Borgarfirði og fyrri kona hans Anna Guðmundsdóttir húsmóðir sem lést þegar Kristín var tveggja ára gömul. Á meðal hálfsystkina Kristínar samfeðra voru Þorgrímur Vídalín Sigurðsson prófastur á Grenjaðarstað í Aðaldal, Anna Sigurðardóttir stofnandi Kvennasögusafns Íslands, Ásberg Sigurðsson alþingismaður og borgarfógeti og Valborg Sigurðardóttir skólastjóri Fósturskóla Íslands.[2]

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Kristín stundaði nám í Lýðskólanum á Hvítárbakka árin 19131915 og stundaði verslunar- og skrifstofustörf í Reykjavík 19151918. Árið 1919 gekk hún í hjónaband með Karli Óskari Bjarnasyni varaslökkviliðsstjóra í Reykjavík og eignuðist þau þrjú börn. Kristín sinnti húsmóðurstörfum ásamt ýmsum félagsstörfum en var kosin á Alþingi í alþingiskosningunum 1949 og sat eitt kjörtímabil sem alþingismaður en í kosningunum árið 1953 varð hún varaþingmaður.

Kristín sat í stjórn Sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar frá stofnun 1937 og sem ritari fyrstu ellefu árin. Í áfengisvarnanefnd kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði frá stofnun 1945 og formaður nefndarinnar fyrstu þrjú árin. Formaður framkvæmdanefndar Hallveigarstaða 1950—1966, sat í stjórn Kvenréttindafélags Íslands 1952—1968. Í miðstjórn og skipulagsnefnd Sjálfstæðisflokksins frá 1956. Formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 1956—1965. Í orlofsnefnd húsmæðra í Reykjavík 1961—1966 og í barnaverndarnefnd Reykjavíkur 1962—1966.[3]

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Alþingiskosningar 23. og 24. okt. 1949, Nýtt kvennablað, 7. tbl. 1949.
  2. Merkir Íslendingar: Kristín L. Sigurðardóttir, Morgunblaðið, 22. mars 2014, (skoðað 5. maí 2019)
  3. Alþingi, Æviágrip- Kristín L. Sigurðardóttir, (skoðað 5. maí 2019)