Kornastærð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kornastærð er mælikvarði, sem segir til um stærð einstakra setkorna í seti.

Kornastærðarflokkun[breyta | breyta frumkóða]

Stærð setkorna getur verið allt frá örfáum míkrómetrum upp í tugi metra en vegna stærðarbilsins notast flestir kornastærðaskalar við e-s konar lograkvarða. Algengast er að notast við svo kallaðan Udden-Wenworth-skala en í honum er hvert stærðargildi helmingi minna en það næsta á undan í röðinni. Skalinn nær frá < 1/256 mm til > 256 mm og spannar því alls 18 flokka. Þessum flokkum er skipt í fjóra aðalflokka sets, möl, sand, silt og leir. Eðja er stundum notað sameiginlega yfir bæði silt og leir. Annar vinsæll lograkvarði fyrir kornastærð er Krumbein-skali, sem er nokkurs konar útvíkkun á Udden-Wenworth-skalanum og notast við sömu flokka, en gefur kornastærðina upp í φ-gildum. Flokkun á setbergi notast við sömu skala og á hver flokkur sets sér sambærilegt heiti yfir setberg, sem búið er til úr seti af viðkomandi kornastærð.

Yfirlitstafla[breyta | breyta frumkóða]

φ skali Þvermál (mm) Þvermál (µm) Setkornagerð Setberg
< -8 > 256 > 256.000 Hnullungar Möl Völuberg / Þursaberg
-7 til -8 128 - 256 128.000 - 256.000 Hnullungamöl
-6 til -7 64 - 128 64.000 - 128.000
-5 til -6 32 - 64 32.000 - 64.000 Mjög gróf
-4 til -5 16 - 32 16.000 - 32.000 Gróf
-3 til -4 8 - 16 8.000 - 16.000 Meðal
-2 til -3 4 - 8 4.000 - 8.000 Fín
-1 til -2 2 - 4 2.000 - 4.000 Mjög fín
0 til -1 1 - 2 1.000 - 2.000 Mjög grófur Sandur Sandsteinn
1 til 0 1/2 - 1 500 - 1.000 Grófur
2 til 1 1/4 - 1/2 250 - 500 Meðal
3 til 2 1/8 - 1/4 125 - 250 Fínn
4 til 3 1/16 - 1/8 62,5 - 125 Mjög fínn
5 til 4 1/32 - 1/16 31,3 – 62,5 Gróft Silt Siltsteinn
6 til 5 1/64 - 1/32 15,6 - 31,3 Meðal
7 til 6 1/128 - 1/64 7,8 - 15,6 Fínt
8 til 7 1/256 - 1/128 3,9 - 7,8 Mjög fínt
> 8 < 1/256 < 3,9 Leir Leirsteinn

Mikilvægi kornastærðarmælinga[breyta | breyta frumkóða]

Kornastærð getur gefið ýmsar vísbendingar um uppruna sets. Kornastærðardreifing sets, þ.e. hlutfall mismunandi kornastærða í seti, gefur til kynna flutningsaðila setsins þar sem roföflin hafa mismunandi burðargetu. Þannig ber vindur aðallega sand og smærri agnir á meðan vatnsföll geta borið stærri kornastærðir. Jöklar bera hins vegar með sér allar kornastærðir, allt frá leir upp í hnullunga. Auk flutningsmáta getur kornastærð gefið til kynna straumhraða þar sem flutningsgeta eykst í hlutfalli við straumhraða vatns og vinds. Kornastærð getur einnig gefið til kynna þroska sets, þ.e. fjarlægð þess frá upprunastað.