Kertafleyting

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kertafleyting er athöfn þar sem kertum (eða öðrum ljósum) er fleytt á vatni. Á Íslandi hefur kertafleyting einkum tengst friðarbaráttu og baráttu gegn kjarnorkuvopnum og vígbúnaðarkapphlaupi. Samtök íslenskra friðarhreyfinga hafa staðið fyrir árlegri kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí í Japan dagana 6. og 9. ágúst 1945. Athöfnin fer að jafnaði fram að kvöldi annars hvors þessara daga ásamt með ávarpi, ljóðalestri og tónlist. Siðurinn varð til í Japan og byggist á gamalli hefð þar (Tōrō nagashi (灯籠流し)) en hefur breiðst út um heiminn á undangengnum áratugum.