Tjörnin

Hnit: 64°08′40″N 21°56′33″V / 64.14444°N 21.94250°V / 64.14444; -21.94250
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Reykjavíkurtjörn)

64°08′40″N 21°56′33″V / 64.14444°N 21.94250°V / 64.14444; -21.94250

Tjörnin, spegilslétt í apríl 2008
Um 1900.
Tjörnin 1919.

Tjörnin eða Reykjavíkurtjörn er grunnt stöðuvatn í miðbæ Reykjavíkur. Vatnið í Tjörnina kemur úr Vatnsmýrinni sunnan við hana og rennur úr henni um Lækinn sem rennur undir Lækjargötu til sjávar í víkinni. Við Tjörnina standa margar merkilegar byggingar, þar á meðal Ráðhús Reykjavíkur, Iðnaðarmannahúsið, Tjarnarskóli, Listasafn Íslands og Fríkirkjan í Reykjavík. Við Tjörnina er einnig Hljómskálagarðurinn, eini lystigarðurinn í miðborg Reykjavíkur. Í og við Tjörnina er mikið fuglalíf. Vinsæl afþreying hjá foreldrum með ung börn er að fara niður að Tjörn og „gefa öndunum“ (þ.e. brauðmola).

Lífríki Tjarnarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Hólmi í Tjörninni hinum megin við Skothúsveg

Tjörnin er dæmi um sjávarlón þar sem sandur og möl hefur myndað malarrif sem lokar smám saman af lónið. Gamli miðbærinn í Reykjavík stendur á rifinu. Rifið var ekki fullmyndað fyrr en fyrir um það bil 1200 árum og þá hófst lífræn setmyndun í Tjörninni en undir þeim setlögum eru sand- og malarlög. Þegar lífræn efni tóku að safnast saman á botni Tjarnarinnar gætti lítilla seltuáhrifa og grunnvatn hefur streymt þangað frá Vatnsmýrinni og holtunum í kring. Tjarnarbakkarnir voru grónir gulstör (carex lyngbyei) og öðrum tegundum af hálfgrasaætt en svo komu tímabil þegar seltan verður meiri þá hörfuðu háplöntur. Um 1900 mun engum fugli hafa verið vært á Tjörninni, allir fuglar voru drepnir. Andaveiðar voru eitthvað stundaðar á Tjörninni allt fram á annan áratug síðustu aldar. Með lögreglusamþykkt frá 19. apríl 1919 var bannað að skjóta í borgarlandinu. Um sama leyti var sett siglingabann en áður höfðu margir átt báta og vegna umferðar þreifst ekkert kríuvarp í Tjarnarhólmanum fyrir 1919. Með skotveiðibanninu og siglingabanninu fjölgaði mikið stokköndum og kríum. [1]

Hólmarnir í Tjörninni[breyta | breyta frumkóða]

Tveir hólmar eru í Tjörninni. Annar þeirra er í suðurenda tjarnarinnar, en hinn, sem er í norðurhlutanum, og mest ber á frá miðborginni séð, gengur venjulega undir nafninu Tjarnarhólminn. Í Tjarnarhólmanum hefur löngum verið varp, en um miðja 19. öld var hólminn notaður sem miðpunktur í hringekju sem svo var kölluð. Segir svo frá henni í Lesbók Morgunblaðsins 1933:

Hólminn í Tjöminni var þá aðeins lítil grjóthrúga og má nokkuð ráða um stærð hans af því, að menn notuðu hann til þess að hafa í honum nokkurs konar hringekju (Karusel). Hann hafði því að þessu leyti allmikla þýðingu fyrir bæjarbúa, vegna þess, að þar fór fram ein af aðalskemtunum þeirra að vetrinum til, einkum á kvöldum, þegar ísar voru á tjörninni. Hringekjunni hafa menn lýst þannig: Stöng ein var reist í miðjum hólminum; efst á henni var þverslá ein og náði hún á báða vegu 3—4 álnir út yfir flatarmál hólmans; niður úr öðrum enda slárinnar hékk reipi og var sleði bundinn við það; tjald var yfir sleðanum og logaði ljós á lampa þar inni. Á sleðanum sátu börn og unglingar, enda oft eldra fólk, sem lét aka sér hringinn í kringum hólmann með því að rammefldir karlmenn gengu á hinn enda slárinnar og ýttu sleðanum þannig áfram. Fargjaldið var 2 skildingar fyrir börn og 4 skildingar fyrir hvern fullorðinn farþega nokkrar hringferðir í senn, uns um var skift og ný áhöfn kom í stað þeirrar er áður var.
 
— Lesbók Morgunblaðsins, [2]

Seinna var borið grjót í hólmann og hann stækkaður og lagðist þá hringekjan af. Hann var síðan tyrfður um 1870 og hafði Jakob Sveinsson og fleiri Reykvíkingar endur sínar þar á sumrin, svo að þær hefðu betra næði til að verpa eggjum sínum. Viltar endur eða aðrir fuglar sáust þá sjaldan eða aldrei við tjörnina.

Hús Rauða krossins ameríska[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1942 kom til tals að reisa hús undir Rauða krossinn á vegum Bandaríkjamanna í Tjörninni. Vigfús Guðmundsson taldi þetta fráleita hugmynd og skrifaði í Morgunblaðið sama ár:

Fráleit er sú tillaga, að setja nokkurt hús út í tjörn bæjarins, hvar sem það væri. Og því verra, sem húsið væri stærra, og nær miðju tjarnar. Hyrfi þá meginhluti þessarar bæjarprýði - sem á að vera - og hollustusvæðis. Hyrfi í bikaða möl og ofaníborna vegi umhverfis stórbygginguna og út frá henni til lands á tvo (minnst) eða fleiri vegu. Kæmi þar svo ein nýmóðins kuldaklöpp tilbreytingarsnauð og fegurðarlaus, væri það hnífstunga og holundarsár í hjarta bæjarins. [3]

Af byggingu hússins varð ekki.

Sögusögn[breyta | breyta frumkóða]

Sagt er að einu sinni hafi tvær kerlingar búið sín hvoru megin við Reykjavíkurjörn. Hittist svo á, að þær voru eitt sinn báðar að skola úr sokkunum sínum, og fóru þá að rífast út af veiðinnni í tjörninni, sem báðar vildu eiga. Endaði það með heitingum, og því fór svo, að allur silungur í tjörninni varð að pöddum og hornsílum, og hefur aldrei verið veiði þar síðan. [4]

180 gráðu sjónarhorn af Tjarnarbakkanum

Ístaka á tjörninni[breyta | breyta frumkóða]

Um tíma var ís tekinn á Tjörninni að vetrarlagi til að frysta síld sem notuð var til beitu. Árið 1894 var stofnað hlutafélagið „ísfélagið við Faxaflóa" en verkefni þess var að safna ís, geyma og versla með ís. Félagið var stofnað að frumkvæði Tryggva Gunnarssonar sem þá var bankastjóri Landsbankans en Ísak Jónsson átti hugmyndina, Ísak hafði unnið við að reisa íshús í Selkirk í Kanada og taldi að slíkt myndi nýtast vel á Íslandi. Það var reist íshús við Lækjarósinn á lóð Zimsenverslunar og þangað var fluttur ís af Tjörninni. Ístaka á Tjörninni stóð fram á fjórða áratuginn en þá hófst ísframleiðsla með frystivélum hefst í Reykjavík í Sænska frystihúsinu. Nokkur íshús voru reist til að taka við ís af Tjörninni og standa tvö þeirra standa enn í dag. Annað þeirra er íshúsið Herðubreið sem var reist að Fríkirkjuvegi 7, árið 1916. Þar var rekinn skemmtistaðurinn Glaumbær en nú hýsir húsið Listasafn Íslands. Hitt var reist af Ísfélaginu við Faxaflóa á öðrum tug aldarinnar við Tjarnarbakkann og er þekkt í dag sem Tjarnarbíó.[5]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Tjörnin, Saga og lífríki, Reykjavíkurborg 1992 Ólafur Karl Nielsen (ritstj.)
  2. Tjrnarhólminn; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1933
  3. Morgunblaðið 1942
  4. Lesbók Morgunblaðsins 1960
  5. Hrafn Ingvar Gunnarsson. „Ístaka á tjörninni. – Sagnir, 1. tölublað (01.04.1984), Bls. 93-100“.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]