Karrí

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nokkrir indverskir karríréttir.

Karrí er orð sem er víða um heim notað um fjölda rétta sem koma upprunalega frá Suður- og Suðaustur-Asíu, Karíbahafi og Afríku. Karrí eru samsoðnir réttir sem svipar til evrópskra pottrétta, en kryddaðir með flóknum kryddblöndum, og innihalda yfirleitt alltaf ferskan eða þurrkaðan chili-pipar eða cayenne-pipar.

Í hefðbundinni matargerð inniheldur hver karríréttur sérstaka og nákvæma kryddblöndu sem ræðst af svæðisbundnum og trúarlegum hefðum, og hefðum innan fjölskyldna. Slíkir réttir eru kallaðir ákveðnum nöfnum sem gefa meðal annars innihald og eldunaraðferð þeirra til kynna. Samkvæmt hefðinni eru notuð bæði heil og möluð krydd, elduð og hrá, og þeim getur verið bætt út í á ólíkum tímum eldunar til að ná fram mismunandi útkomu

Karríréttir geta innihaldið grænmeti, kjöt eða fisk; ýmist eitt og sér eða í bland við annað grænmeti. Karrí getur bæði verið „blautt“ eða „þurrt“. Blautt karrí inniheldur mikið magn af sósu sem er búin til úr jógúrt, kókosmjólk, baunamauki (dal) eða krafti. Þurrt karrí er eldað í litlum vökva sem fær að gufa upp þannig að hin hráefnin sitja eftir, umlukin kryddblöndunni.

Hið svokallaða „karríduft“ sem er tilbúin kryddblanda varð þekkt á Vesturlöndum á 18. öld. Talið er að slíkar blöndur hafi upprunalega verið útbúnar af indverskum kaupmönnum til að selja fulltrúum nýlendustjórnarinnar og herjum þeirra sem fluttu þær með sér aftur til Englands.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.