Inés Suárez

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Inés Suárez
Fæddum 1507
Dáin1580 (um 73 ára)

Inés Suárez, (um 1507 – 1580) var spænsk landvinningakona sem tók þátt í hernámi Chile ásamt Pedro de Valdivia, og tókst árið 1541 að verja bæinn Santíagó gegn árás innfæddra Mapuche-manna.

Æskuár[breyta | breyta frumkóða]

Suárez fæddist í Plasencia í Extremadura á Spáni árið 1507.[1] Hún kom til Ameríku um það bil árið 1537, þrítug að aldri. Almennt er talið að hún hafi verið í leit að eiginmanni sínum, Juan de Málaga, sem hafði farið frá Spáni til að gegna herþjónustu í Nýja heiminum með Pizarro-bræðrum. Eftir að hafa leitað í langan tíma á fjölmörgum stöðum í Suður-Ameríku kom hún til Líma árið 1538.

Eiginmaður Suárez hafði dáið áður en hún kom til Perú (hún sagði samlanda sínum að hann hefði dáið á sjó) og það næsta sem vitað er um hana er þegar hún sótti um og var veittur lítill landskiki í Cuzco ásamt encomienda-rétti yfir fjölda indíána árið 1539 sem ekkja spænsks hermanns.

Stuttu síðar varð Suárez ástkona landvinningamannsins Pedro de Valdivia sem síðar lagði undir sig Chile. Fyrst var minnst á vináttu hennar og Valdivia eftir að hann sneri aftur úr orrustunni við Las Salinas (1538). Þótt þau væru frá sama héraði Spánar og að minnsta kosti einn skáldsagnahöfundur segi frá langvarandi ást á milli þeirra, eru engar heimildir fyrir því að þau hafi hist áður en hún kom til Cuzco.

Landvinningar í Chile[breyta | breyta frumkóða]

Síðla árs 1539, þrátt fyrir mótmæli Francisco Martínez en með stuðningi sumra foringja hans, bað Valdivia með aðstoð náðarprests um opinbert leyfi handa Suárez svo hún gæti verið hluti af hópi tólf Spánverja sem hann leiddi í suðurátt. Í bréfi sínu til Valdivia frá janúar 1540, sem veitti Suárez leyfi til að fylgja Valdivia sem þjónustustúlkan hans, ávarpaði Francisco Pizarro Suárez með eftirfarandi orðum, „Valdivia segir mér að mennirnir séu hræddir við að fara í svona langa ferð og þú hafir sýnt mikið hugrekki við að bjóða þig fram í þessa hættuför.“

Í langri og erfiðri suðurferðinni hugsaði Suárez um Valdivia og hjúkraði sjúkum og særðum. Hún fann vatn fyrir þá í eyðimörkinni og bjargaði Valdivia þegar einn keppinautur hans reyndi að grafa undan leiðangrinum og myrða hann. Innfæddir, sem höfðu þegar upplifað árásir Spánverja eftir ferð Diego de Almagro 1535-1536, brenndu uppskeru sína og ráku búféð sinn burt, en skildu ekkert eftir fyrir flokk Valdivia og dýrin sem fylgdu þeim.

Í desember 1540, ellefu mánuðum eftir að þau fóru frá Cuzco, komust Valdivia og hópur hans að dalnum við ána Mapocho þar sem hann ætlaði að stofna höfuðborg. Dalurinn var breiður og þéttbyggður innfæddum. Jarðvegurinn var frjósamur og þar var mikið ferskvatn. Tvær háar hæðir voru upplagðar fyrir varðstöðvar. Skömmu eftir komu þeirra reyndi Valdivia að sannfæra innfædda um að áform hans væru friðsamleg með því að senda sendinefndir með gjafir handa höfðingjum þeirra.

Innfæddir héldu gjöfunum en sameinuðust undir forystu Michimalonco og réðust á Spánverja. Þeir voru í þann mund að yfirbuga þá þegar þeir köstuðu skyndilega frá sér vopnum sínum og flúðu. Handteknir indíánar lýstu því að þeir hefðu séð mann, ríðandi á hvítum hesti og með nakið sverð, svífa niður úr himninum og ráðast á þá. Spánverjar ákváðu að þetta væri kraftaverk Santo Iago (heilags Jakobs sem hafði áður sést í orrustunni við Clavijo við endurheimt Spánar) og í þakklætisskyni nefndu þeir nýju borgina Santiago del Nuevo Extremo. Borgin var formlega helguð honum 12. febrúar 1541.

Fyrsta eyðilegging Santiago[breyta | breyta frumkóða]

Í ágúst 1541, þegar Valdivia var upptekinn við ströndina, komst Suárez að öðru samsæri um að steypa honum af stóli. Eftir að hafa séð fyrir samsærismönnunum, beindi Valdivia athygli sinni að indíánum og bauð sjö höfðingjum að hitta sig til að skipuleggja afhendingu matvæla. Þegar þeir komu tók Valdivia þá í gíslingu til að tryggja afhendingu birgða og öryggi afskekktra landnemabyggða. Þann 9. september hélt Valdivia frá borginni með fjörutíu menn til að stöðva uppreisn indíána nálægt Aconcagua.

Snemma morguns þann 10. september 1541 bar ungur yanakuna Alonso de Monroy höfuðsmanni, sem hafði verið falin stjórn borgarinnar, þær fréttir að skógurinn í kringum borgina væri fullur af frumbyggjum. Suárez var spurð hvort hún teldi að láta ætti gíslana lausa til að reyna að semja um frið. Hún svaraði að henni þætti það slæm hugmynd; ef indíánarnir sigruðu Spánverja, myndu gíslarnir vera það eina sem þau hefðu til að semja með. Monroy samþykkti þetta og kallaði saman herráð.

Rétt fyrir dögun þann 11. september riðu Spánverjar út til að ráðast á indíánana, sem voru fyrst taldir vera 8.000 og síðar 20.000, og voru undir forystu Michimalonco. Þrátt fyrir að búa yfir bæði hestum og sverðum neyddust Spánverjar um hádegið til að hörfa í austur, yfir Mapocho-ána; og um miðjan dag voru þeir komnir í sjálfheldu við borgina.

Bardaginn geisaði allan daginn. Eldörvar og kyndlar kveiktu í meirihluta borgarinnar. Fjórir Spánverjar voru drepnir ásamt fjölda hesta og annarra dýra. Ástandið varð örvæntingarfullt. Presturinn, Rodrigo González Marmolejo, sagði síðar að bardaginn hefði verið eins og dómsdagur fyrir Spánverja og aðeins kraftaverk hefði bjargað þeim.

Allan daginn bar Suárez mat og vatn til hermannanna, hjúkraði særðum og veitti þeim hvatningu og huggun. Suárez áttaði sig á örvæntingu hermannanna og þeirri hættu sem þau voru í. Hún setti því fram tillögu: Á hverjum degi höfðu höfðingjarnir sjö sem voru fangar Spánverja hrópað hvatningarorð til sinna manna. Suárez lagði til að Spánverjar myndu höggva höfuðin af þeim og kasta þeim út meðal indíánanna til að hræða þá. Nokkrir Spánverjar töldu að fall borgarinnar væri yfirvofandi og að fangarnir yrðu þá það eina sem þau hefðu til að semja um við indíánana, en Suárez var ákveðin í því að þetta væri eina raunhæfa lausnin á vanda þeirra. Hún fór síðan í húsið þar sem höfðingjanna var gætt af Francisco Rubio og Hernando de la Torre og gaf fyrirmæli um aftöku. Mariño de Lobera segir svo frá að La Torre hafi spurt: „Hvernig eigum við að drepa þá, frú mín góð?“ „Svona“, svaraði hún og greip sverð La Torre, sem hún notaði sjálf til að skera höfuðin af.[2] Þegar höfðingjarnir sjö höfðu verið drepnir og höfðum þeirra kastað út meðal indíánanna, fór Suárez í brynju og hjálm, kastaði skinni yfir axlir sínar og reið út á hvítum hesti. Samkvæmt sjónarvottinum, „fór hún út á torgið og stillti sér upp fyrir framan hermennina og hvatti þá með svo ýktum lofsorðum að þeir tóku henni eins og hugrökkum foringja, ... í stað konu sem klæddist brynju til að þykjast vera hermaður.“[3]

Spánverjar notfærðu sér ringulreiðina sem blóðugir hausarnir ollu meðal indíánanna, og hvatningar Suárez og tókst að hrekja þá út úr bænum. Einn sagnaritari skrifaði, „Indíánarnir sögðu síðar að þeir hefðu sigrað þá kristnu ef ekki væri fyrir konu á hvítum hesti“.

Hugmyndin um að Inés hafi fyrirskipað að sjö indíánaleiðtogar yrðu drepnir á meðan árásin á borgina stóð yfir hefur verið dregin í efa sumum fræðimönnum. Sumir benda á að Valvidia sagði aldrei Karli 5. konungi frá því í bréfum sínum.[4]

Seinni æviár[breyta | breyta frumkóða]

Suárez hélt áfram að búa með Pedro de Valdivia opinberlega þar til kom að réttarhöldum yfir honum í Lima. Ein ákæra gegn honum var að hann, sem var giftur, bjó opinberlega með henni „eins og eiginkonu“. Í skiptum fyrir frelsi og staðfestingu á skipun hans sem konunglegur landstjóri neyddist hann til að afneita henni og flytja eiginkonu sína, Marinu Ortiz de Gaete, til Chile. Hún komst ekki þangað fyrr en eftir dauða Valdivia árið 1554. Honum var líka skipað að gifta Suárez öðrum.

Suárez giftist einum foringja Valdivia, Rodrigo de Quiroga, árið 1549 þegar hún var 42 ára og hann 38 ára. Eftir það lifði hún rólegu lífi sem hún helgaði heimili sínu og góðgerðarstarfi. Hún naut mikillar virðingar í Chile fyrir hugrekki sitt. Eftir andlát Valdivia varð eiginmaður hennar konunglegur landstjóri tvisvar, árin 1565 og 1575. Þau dóu bæði í Santiago de Chile, með nokkurra mánaða millibili, árið 1580.

Arfleifð Suárez[breyta | breyta frumkóða]

Suárez er gjarnan kynnt sem táknmynd síleskrar konu sem stendur á sínu gagnvart yfirvöldum, eins og seinni tíma sjálfstæðishetjurnar Paula Jaraquemada og Javiera Carrera. Hún er enn fyrirmynd fyrir mótmælendur í samtímanum.[5]

Suárez er aðalpersóna í nokkrum sögulegum skáldsögum, eins og Inés y las raíces de la tierra, eftir María Correa Morande (ZigZag, 1964), Ay Mamá Inés - Crónica Testimonial (Andres Bello, 1993) eftir Jorge Guzmán, og Inés del alma mía eftir Isabel Allende (HarperCollins, 2006). Allende skrifar í athugasemdum: „Þessi skáldsaga er verk innsæis, en líkindi við atburði og einstaklinga sem tengjast sigri Chile eru ekki tilviljun.“ Skáldsagan eftir Allende var grunnurinn að spænsk-síleskum sjónvarpsþáttum árið 2020. Leikkonan Elena Rivera (27 ára á þeim tíma) lék Suárez.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Mariño de Lobera, Pedro. „VIII“. Crónica del Reino de Chile (spænska). „...una señora que iba con el general llamada doña Inés Juárez, natural de Plasencia y casada en Málaga, mujer de mucha cristiandad y edificación de nuestros soldados...“
  2. Mariño de Lobera, Pedro. „XV“. Crónica del Reino de Chile (spænska). „...Mas como empezase a salir la aurora y anduviese la batalla muy sangrienta, comenzaron también los siete caciques que estaban presos a dar voces a los suyos para que los socorriesen libertándoles de la prisión en que estaban. Oyó estas voces doña Inés Juárez, que estaba en la misma casa donde estaban presos, y tomando una espada en las manos se fué determinadamente para ellos y dijo a los dos hombres que los guardaban, llamados Francisco Rubio y Hernando de la Torre que matasen luego a los caciques antes que fuesen socorridos de los suyos. Y diciéndole Hernando de la Torre, más cortado de terror que con bríos para cortar cabezas: Señora, ¿de qué manera los tengo yo de matar? Respondió ella: Desta manera. Y desenvainando la espada los mató a todos...“
  3. Mariño de Lobera, Pedro. „XV“. Crónica del Reino de Chile (spænska). „Viendo doña Inés Juárez que el negocio iba de rota batida y se iba declarando la victoria por los indios, echó sobre sus hombros una cota de malla y se puso juntamente una cuera de anta y desta manera salió a la plaza y se puso delante de todos los soldados animándolos con palabras de tanta ponderación, que eran más de un valeroso capitán hecho a las armas que de una mujer ejercitada en su almohadilla.“
  4. Digital edition based on Crónicas del Reino de Chile Madrid, Atlas, 1960, pp. 227-562, (Biblioteca de Autores Españoles; 569-575).
  5. Margaret Power (1. nóvember 2010). Right-Wing Women in Chile: Feminine Power and the Struggle Against Allende, 1964-1973. Penn State Press. bls. 148–. ISBN 978-0-271-04671-6.
  6. „Inés del alma mía. Serie TV“. Fórmula TV (spænska). Sótt 29. október 2020.