Fara í innihald

Húsafell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Strútur, Eiríksjökull og Kaldadalsvegur séð frá landi Húsafells.

Húsafell er bær, kirkjustaður og áður prestssetur í Borgarfjarðarsýslu. Þar er nú sumarbústaðasvæði, ferðamannaþjónusta og tjaldsvæði. Þar er boðið upp á gistingu og þar er einnig verslun, sundlaug, og golfvöllur.

Staðhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Húsafellsland nær inn til jökla, að Eiríksjökli og Langjökli, og er jörðin mjög landmikil, um 100 ferkílómetrar. Bærinn er í miðju Hallmundarhrauni, í Húsafellsskógi, lágvöxnum birkiskógi. Mjög veðursælt er í Húsafelli og skjólgott í hrauninu. Í Húsafellsskógi voru fjölmennustu útihátíðir landsins um verslunarmannahelgi haldnar á árunum kringum 1970 og á hátíðinni 1969 voru um tuttugu þúsund manns.

Í grenndinni eru Barnafoss og Hraunfossar og hellarnir Víðgelmir og Surtshellir. Margar góðar gönguleiðir eru í Húsafellslandi og þaðan er einnig farið í ferðalög um nágrennið, til dæmis að Eiríksjökli eða Langjökli, upp á Arnarvatnsheiði eða suður Kaldadal.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Í Laxdælasögu sem er skrifuð um 1170 er þess getið að Brandur Þórarinsson hafi búið þar. Húsafell var lengi prestssetur og þekktasti presturinn sem þar sat er án efa Snorri Björnsson, sem var Húsafellsprestur 1756-1803. Um hann eru margar sögur, bæði þjóðsögur og staðfestar heimildir, og um hann hafa verið skrifaðar bækur. Hann var annálaður kraftajötunn og var einnig talinn fjölkunnugur. Húsafellssteininn er steinn sem Snorri reyndi krafta sína á.

Þegar aðalleiðin milli Norðurlands og Suðurlands lá um Arnarvatnsheiði fyrr á öldum var Húsafell í alfaraleið og þar var mjög gestkvæmt. Á síðari árum hafa komið fram tillögur um að leggja veg frá Húsafelli yfir Stórasand og til Norðurlands.

Ásgrímur Jónsson listmálari dvaldi eftir 1940 oft í Húsafelli á sumrin og eru margar myndir hans tengdar staðnum. Núverandi kirkja í Húsafelli var byggð eftir hugmynd Ásgríms.

Aflstöðvar

[breyta | breyta frumkóða]

Ferðaþjónustan Húsafelli á og starfrækir fjórar aflsstöðvar í landi Húsafells, sem eru tengdar dreifikerfi RARIK ohf. RARIK dreifir rafmagninu til byggðarinnar á staðnum, svo sem sumarhúsa, hótels og íbúðarhúsa auk annarra bæja í dreifikerfinu. [1] [2] [3] Í samtengdu dreifi- og flutningskerfi raforku þjóna þessar virkjanir í raun öllu landinu í samvinnu við Landsvirkjun og aðra raforkuframleiðendur.

Aflstöð Gangsett Orkugjafi Uppsett afl
(kW)
Orkuvinnsla
(MWst/ár)
Stuttárvirkjun 1949 Vatnsafl 13
Kiðárvirkjun I 1978 Vatnsafl 120
Kiðárvirkjun II 2003 Vatnsafl 430
Urðarfellsvirkjun 2018 Vatnsafl 1125
Samtals 1688

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Virkjanir á Húsafelli. Geymt 1 mars 2021 í Wayback Machine Arnar Bergþórsson, október 2019.
  2. „Virkjanir“. Vefur Netorku. Netorka. Sótt 12. mars 2020.
  3. „Vatnsaflsvirkjanir: Leyfi og skilyrði – staðan í árslok 2017“ (PDF). Vefur Orkustofnunar. Orkustofnun. apríl 2018. Sótt 12. mars 2020.