Fara í innihald

Guðlast á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðlast er á Íslandi smán sem einhver viðhefur um helgisetningar trúarbragða eða goðmagna skráðs trúfélags og var slíkt ólöglegt skv. almennum hegningarlögum. Engin lög gilda um guðlast sem beinist að óskráðum trúfélögum sem deila ekki helgisetningum með þeim skráðu, til dæmis Vísindakirkjunni.

Á Íslandi var guðlast bannað með lögum samkvæmt 125. grein almennra hegningarlaga og við því lágu sektir eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.
 
— 125. gr

Árið 2015 voru þessi lög afnumin á Alþingi.[1]

Í seinni tíð eru guðlastsmál sjaldgæf. Árið 1983 var spaugtímaritið Spegillinn ákært fyrir guðlast í 2. tölublaði sínu. Upplag blaðsins var gert upptækt að beiðni ríkislögreglustjóra, og ritstjórinn, Úlfar Þormóðsson, dæmdur.

Árið 1988 flutti Útvarp Rót gabb-frétt þann 1. apríl, sem Pétur Sigurgeirsson biskup taldi vera guðlast. Hann kærði útvarpsstöðina til útvarpsréttarnefndar en dró kæruna til baka eftir að Þóroddur Bjarnason útvarpsstjóri Útvarps Rótar baðst opinberlega afsökunar.

Árið 1997 var gerð opinber rannsókn á einum þætti Spaugstofunnar eftir að Ólafur Skúlason biskup kvartaði bréflega til ríkissaksóknara, en ríkissaksóknari ákvað að gefa ekki út ákæru. Fyrr sama ár hafði Sjónvarpið hætt við að sýna kvikmynd Martins Scorsese, Síðasta freisting Krists, eftir kvörtun frá biskupi.

Listi yfir fólk sem dæmt hefur verið fyrir guðlast

[breyta | breyta frumkóða]

Heiðinn siður

  • Hjalti Skeggjason var dæmdur fyrir goðgá vegna þess að hann kallaði Freyju tík. Hann er sagður hafa kveðið á alþingi árið 999: Vilk eigi goð geyja, / grey þykkir mér Freyja, / Æ man annat tveggja / Óðinn grey eða Freyja. Var hann fyrir þau orð sekur fjörbaugsmaður.

Kristni

  • Halldór Finnbogason, einnig nefndur Grágunnuson, var dæmdur til dauða á Alþingi árið 1685, fyrir guðníð eða guðlast. Halldór var tekinn af lífi á þinginu, með brennu. Í Fitjaannál má lesa þá lýsingu á guðlasti Halldórs að hann hafi „sem fyrst af glensi, en síðan með innrættum, vondum vana snúið hafði upp á fjandann þeirri dýrmætu bæn Faðirvor, skriptarganginum og öðrum hjartnæmum sálmum, nefninlega þessum: Eilífur guð og faðir kær etc. og sagt: ‚Skratti vor, þú sem ert í helvíti, bölvað veri þitt nafn etc. Item: Minn kæri og verðugi skratti, ég bið þið að hugga mig með Satans orði etc. Item: Eilífur Skratti og faðir kær, án upphafs alls og enda etc. Eg trúi svo á Satan víst etc.‘ Hann meðkenndi, að sagt hefði, að sér smakkaði betur lýs og þeirra blóð, en berging brauðs og víns í sakramentinu, og hvað fleira viðbjóðslegt að heyra eður eptir hafa.“ Þá er sagt að Halldór hafi viðurkennt að hafa í svefni átt samtöl við djöfulinn „í sáttmálanafni“. Skrifað er í annálnum að Halldór hafi verið „með hlátri og sköllum, nær brennast skyldi, og endaði so sitt líf í sinni vonzku.“ Halldór var brenndur tveimur árum eftir síðustu galdrabrennuna á brennuöld á Íslandi, en þó að hann hafi sjálfur ekki verið sakaður um galdra heldur guðníð þykir augljós skyldleiki með sakargiftum hans og brennumálum. Engin síðari dæmi eru um að manni hafi verið gerð dauðarefsing á Íslandi fyrir guðlast.[2]
  • Brynjólfur Bjarnason skrifaði á sínum tíma um bók Þórbergs Þórðarsonar, Bréf til Láru, og var dæmdur fyrir guðlast til fangelsisvistar, að vísu skilorðsbundið.
  • Úlfar Þormóðsson útgefandi Spegilsins, var dæmdur 1983 fyrir guðlast og klám.

Heimildir og ítarefni

[breyta | breyta frumkóða]
  • Almenn hegningarlög
  • Sérvefur Vantrúar um nokkur guðlastsmál.
  • Predikun Sigurðar Árna Þórðarsonar um guðlast Geymt 15 apríl 2008 í Wayback Machine
  • „Er guðlast bannað með lögum?“. Vísindavefurinn.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Guðlast ekki lengur ólöglegt“. Vísir. 2. júlí 2015. Sótt 10. september 2018.
  2. Skrá á vef rannsóknarverkefnisins Dysjar hinna dauðu, á slóðinni https://dhd.hi.is/gogn/Info.pdf, sótt 15.2.20202.