Fara í innihald

Geir Jón Þórisson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Geir Jón Þórisson (fæddur 24. apríl 1952) er fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Hann sat einnig á Alþingi sem varaþingmaður Suðurkjördæmis febrúar-mars 2014, apríl-maí 2015 og ágúst-september 2016 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Geir Jón er sonur Þóris Geirmundarsonar og Kristrúnar Skúladóttur. Eiginkona Geirs Jóns er Guðrún Ingveldur (Inga) Traustadóttir. Börn þeirra Geirs Jóns og Ingu eru Þórir Rúnar (f. 1978), Narfi Ísak (f. 1981), Símon Geir (f. 1984) og Ragnheiður Lind (f. 1987). Geir Jón á 12 barnabörn.

Geir Jón er fæddur í Reykjavík en flytur til Vestmannaeyja 1974 og bjó þar til 1992 þegar hann flytur með fjölskyldu sína til Reykjavíkur. Eftir starfslok hjá Lögreglunni í Reykjavík flytur Geir Jón aftur til Vestmannaeyja ásamt eiginkonu sinni. Hann söng í kirkjukór Landakirkju um tíma og lék einnig körfubolta með ÍV. [1][2] Geir Jón er um 200 sentímetrar á hæð.

Geir Jón er menntaður vélvirki frá Iðnskólanum í Reykjavík, lögreglumaður frá Lögregluskóla ríkisins og með stjórnarmenntun frá Endurmenntastofnun Háskóla Íslands. [2]

Geir Jón starfaði sem verslunarstjóri í vélaverslun Magna í Vestmannaeyjum til ársins 1976 þegar hann byrjar sem sumarstarfsmaður hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum og starfaði hann þar til ársins 1992 þegar hann hefur störf hjá lögreglunni í Reykjavík, þar starfaði hann til ársins 2012. Jón Geir var starfandi sem yfirlögregluþjónn í Reykjavík þegar búsáhaldabyltingin reið yfir og lét af störfum stuttu eftir það, en hann sá um gerð skýrslu sem hét „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008-2011“. Geir Jón tók lengi virkan þátt í starfi Hvítasunnukirkjunnar. Árið 2013 bauð Geir Jón sig fram til Alþingis fyrir Suðurkjördæmi, fyrir Sjálfstæðisflokkinn en náði ekki inn á þing. Hann hins vegar sat á Alþingi sem varaþingmaður Suðurkjördæmis febrúar-mars 2014, apríl-maí 2015 og ágúst-september 2016. [3][4]

Geir Jón hefur leikið í tveimur kvikmyndum þ.e. Borgríki (2011) þar sem hann lék yfirlögregluþjón og Algjör Sveppi og leitin að Villa (2009) þar sem hann lék sig sjálfan. Einnig lék hann í einum þætti af Óla á Hrauni (2008) en þar lék hann einnig sig sjálfan. [5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.