Gallienus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Gallienus

Publius Licinius Egnatius Gallienus (um 218 – 268) var keisari Rómaveldis á árunum 253 – 268.

Á árunum 253 – 260 var Gallienus keisari ásamt föður sínum Valerianusi, en árið 260 var Valerianus tekinn til fanga af Sassanídum og eftir það var Gallienus einn keisari. Gallienus var keisari þegar tímabil sem einkenndist af óstöðugleika í Rómaveldi, og kallað hefur verið 3. aldar kreppan, var í hámarki. Í stjórnartíð hans var hið svokallaða Gallíska keisaradæmi myndað þegar herforinginn Postumus lýsti sjálfan sig keisara og var viðurkenndur sem slíkur í Gallíu, Hispaníu, Germaníu og á Bretlandi.

Árið 268 gerði Aureolus, yfirmaður hersins í Mediolanum (Mílanó), uppreisn gegn Gallienusi og hóf Gallienus þá umsátur um borgina en var drepinn á meðan því stóð. Claudius 2., hershöfðingi, varð keisari í kjölfarið.


Fyrirrennari:
Valerianus
Keisari Rómaveldis
(253 – 268)
Eftirmaður:
Claudius 2.