Fornleifarannsóknir á Þingvöllum
Á Þingvöllum hafa farið fram fornleifarannsóknir upp úr miðbiki 19. aldar í þeim tilgangi að varpa ljósi á þinghald sem þar átti sér stað allt frá árinu 930 til 18. aldar, en höfuðáhersla hefur verið lögð á þinghald fyrri tíma. Stuðst er við lýsingu af þinghaldi frá árinu 1700 en þar er einna helst búðum Lögréttu og Lögbergi lýst. Miklar deilur hafa verið um rétta staðsetningu Lögbergs og hvort það hafi verið vestan eða austan Öxarár. Frekari þörf er á fornleifarannsóknum til að ganga úr skugga um hið rétta í þessu máli, þótt ekki sé talið mjög líklegt að skýr svör fáist nokkurn tíma við þeirri spurningu.
Upphaf fornleifarannsóknarinnar
[breyta | breyta frumkóða]Séra Björn Pálsson ritaði sérstaka lýsingu á Íslandi árið 1840 sem tilgreindi meðal annars Þingvelli. Er þetta með fyrstu greinargerða um héraðið í heild sinni ásamt ýmsu sem við kemur Þingvöllum sjálfum. Á þeim tíma var enga lýsingu að finna af þessum forna þing- og sögustað. Engar aðrar fornleifar eru nefndar en búðar- og virkisleifarnar á Spönginni („Lögbergi“) og áhleðslan á Lögbergi („neðri eða austari Almannagjáarbarmi“), sem hann hyggur vera dómhringja hvorar-tveggja.[1]
Um árið 1860 hefjast loks fornfræðilegar rannsóknir á staðnum sjálfum undir leiðsögn Sigurðar málara Guðmundssonar sem er talinn upphafsmaður þessara rannsókna. Þar voru meðal annars gerðar nákvæmari athuganir en áður höfðu verið gerðar á svæðinu þar sem Alþingi var haldið einkum í fornöld. Þann 13. apríl árið 1863 ritaði Sigurður bréf til Jóns Sigurðssonar um upphaf þessa rannsókna: „Árið 1860 fór eg til Geysis og skoðaði eg þá um leið Þingvöll, og myndaði þar þá Lögberg og fleira. En er eg kom úr þeirri ferð, fór eg að fá eins konar áhyggjur útaf því, að jafn-merkur staður í sögu landsins lægi þannig alveg órannsakaður, og skrifaði eg um haustið Guðbrandi (svo sem þér víst hafið orðið varir við, og beiddi hann að komast eftir, hvort þar ytra væru til nokkrar skriflegar upplýsingar um Þingvöll, en fékk 13. október)“.[2]
Í ritgerð Sigurðar er búðunum ákveðinn staður að mestu leyti eftir búðaskipuninni frá 1700. Björn Guðlaugsson gerði uppdrátt af Þingvallarsvæðinu með ágætum lýsingum. Miðað var við búða- og dómstaðarústir, sem enn eru sýnilegar, samanborið við Catastasis. Myndirnar voru gerðar með blýanti og bleki, blár litur notaður til að tákna vatn og svarblár á eyrar og rauður í mynni Brennugjár þar sem brunaleifar hafa fundist.[3]
Staðsetning Lögbergs
[breyta | breyta frumkóða]Á sama tíma og Íslendingar afsöluðu sjálfstæði sínu til Noregskonungs á árunum 1262-1264 með því að undirrita Gamla Sáttmála, hætti um leið þörfin á Lögbergi og allri þeirri starfsemi sem þar hafði átt sér stað. Afleiðing þess er sú að enginn virðist hafa skráð niður nákvæma staðsetningu svæðisins og því hefur alla tíð síðan ríkt óvissa um hana. Til að byrja með var stuðst við lýsingu af því þinghaldi sem átti sér stað eftir undirritun Gamla Sáttmálans, en þar var gert ráð fyrir staðsetningu Lögbergs austan við Öxará.[4] [5]
P. E. Kristian Kålund kom til Íslands 1872 og var hér í tvö ár að ferðast um landið. Hann vissi mikið um tungumál okkar og þjóð og því vel fróður og undirbúinn. Hann skrifaði stórt verk um landið og má þar finna kafla um Þingvelli og Þingvallasveitina, sem þótti með því fullkomnara sem hafði verið skrifað um staðinn. Kålund lagði sig ekki sérstaklega eftir því að komast að því hvar hinar fornu búðir hefðu staðið og áleit það í raun ógerlegt. Þess í stað gat hann þess aðeins hversu margar búðatóftir sæust, hve stórar þær væru og staðsetningu þeirra. Guðbrandur Vigfússon hafði bent honum árið 1875 á að Lögberg hlyti að hafa verið vestan ár sökum þess að svo hafi verið sagt í einni Sturlunga sögu. Jón Ólafsson frá Grunnavík áleit sem svo að Lögberg hafi verið á Almannagjár-barminum eystri, rétt fyrir norðan Snorrabúð þar sem búðaskipunin frá 1700 er talin hafa verið fjórðungsdómaþingstaður.[6]
Þann 15. október 1879 áttu 14 fræðimenn fund í Reykjavík. Á fundinum tók Sigurður Vigfússon fyrstur til máls og stakk hann upp á að grafa ætti upp á Lögbergi. Tillaga hans var samþykkt og því farið í að rannsaka Þingvelli til finna leifar af búðum og öðrum minjum á svæðinu.[7]
Fyrstu rannsóknir Fornleifafélagsins voru gerðar á Þingvöllum af Sigurði Vigfússyni 28. maí - 20. júní 1880 og birti hann ritgerð um þær í fyrstu árbók félagsins. Sigurður rannsakaði með greftri um þrjár búðatóftir og áhleðsluna á Almannagjárbarminum þar sem Jón frá Grunnavík áleit að Lögberg hafi verið. Í sambandi við skýrslur sínar um þessar rannsóknir ritaði hann jafnframt um ýmislegt annað viðvíkjandi Þingvöllum og umhverfi þeirra. Hann dró upp mynd af svæðinu og birti uppdrátt Björns Gunnlögssonar frá 1861 með viðaukum sínum án þess þó að geta nafna þeirra sem Björn hafði gefið því eftir búðaskipuninni frá 1700. Eftir að uppdrættirnir þrír og ritgerðirnar þrjár höfðu komið út varð aftur hlé á rannsóknum, en engin almenn niðurstaða var fengin um staðsetningu Lögbergs.[8]
Sumarið 1896 skoðaði Daniel Bruun Þingvelli. Þá skýrði hann meðal annars frá þeirri skoðun sinni að Sigurður Vigfússon ætti örugglega við að Lögberg væri þar sem áhleðslan er á gjábarminum fyrir norðan Snorrabúð. Björn M. Ólsen var með honum á Þingvöllum árið 1880 og veittu þeir því eftirtekt hve glöggt heyrðist frá þeim sem talar á áhleðslunni sjálfri og niður til áheyrendanna.[9]
Á Hallinum á Þingvöllum eru leifar af fornu mannvirki sem þar hefur verið gert í ákveðnum tilgangi og með mikilli fyrirhöfn. Þar er um að ræða áhleðslu á hraunbungunni sem er með dálítilli upphækun og hefur verið stærsta mannvirkið á þessum reit sem sýnilegar leifar eru til af frá fornöld. Auk þess er það greinilega gert með mikilli fyrirhöfn, en útlit er fyrir að það hafi verið hlaðið uppi á berginu svo gríðarlega erfitt hafi verið að bera hvern einasta stein.[10]
Þegar Sigurður Vigfússon rannsakaði suðurhluta skurðarins, sem var langsum samhliða gjánni, kom hann niður á það sem hann áleit vera öskudreif sem síðar varð að miklu öskulagi niðri við bergið. Hann áleit sem svo að mannvirkið sem hann fann á svæðinu væri í heild sinni yngra en eldstæðið sem hann taldi hafa tilheyrt Snorrabúð. Mannvirkið álítur hann hafa verið búðarvirki þeirra Orms á Svínafelli, en svo er raunar að sjá af Sturlungasögu að það hafi verið austan ár. Síðar kom í ljós að ekki var um eldstæði að ræða heldur öskulag. Fólk dró jafnframt í efa að hér væri um búðarvirki eða eitthvað í þeirri líkingu að ræða sökum upphækunarinnar. Þetta gæti hafa verið flöt áhleðsla til að minnka hallann. Þá hefur hallinn jafnframt aukist verulega síðan þetta var upphaflega grafið í jörðu.[11]
Jón Ólafsson frá Grunnavík vildi meina að staðsetning Lögbergs hafi verið skammt fyrir norðan Snorrabúð á hallandi berginu við eystri gjábarminn, en árið 1724 fann hann þar ferkantaða hraunsteina setta í hálfhring. Hann og Páll Vídalín nýttu alla steinana til þess að gera stillur yfir ána sem þykir hin mesta synd sökum þess að nú er ógerlegt að rannsaka og skoða þessa steina. Þeir eru allir horfnir, sokknir í sand og möl í ánni og á eyrunum og er því álitið ómögulegt að finna þá á ný.[12]
Hingað til hafa fornleifarannsóknir ekki enn getað gefið nægilegar vísbendingar um staðsetningu Lögbergs, en enn sem komið er bendir afar lítið til þess að svo verði í nánustu framtíð.[13]
Tá-Bagall
[breyta | breyta frumkóða]Þingvellir þykja vera eitt merkasta svæði Íslandssögunar en þrátt fyrir það hefur sáralítið af minjum og öðrum gripum fundist á svæðinu. Að mati Kristjáns Eldjárn virðist þetta vera sökum þess að lítið hafi verið grafið og rannsakað af alvöru á svæðinu vegna þess hversu dýrt það er og óvíst hvort það svaraði kostnaði.[14]
Þann 24. maí árið 1957 hringdi séra Jóhann Hannesson, þjóðgarðsvörður í Kristján Eldjárn og sagði honum frá fundi einkennilegs tá-bagls við gröft fyrir rafmagnsjarðstreng. Viðarkolalag var í jörð þar sem hluturinn fannst þótt ekki væri um raunverulegt gólf að ræða, en Kristján áleit að gripurinn gæti hafa verið undan trégólfi.[15]
Brýnið sem fannst var 13.4 cm að lengd, mest 3,4 cm að breidd og 1-1.5 cm á þykkt. Það var úr ljósgráu og linu flögubergi með brotsári á báðum endum. Kristján kaus að kalla hlutinn hún, enda leit út fyrir að hann hafi verið efst á staf, falur í miðju en til beggja hliða uppundnir krókar. Þá virtist hann vera steyptur úr bronsi. Venjulegt hefði þótt að ámóta gripir væru gylltir, en sú virðist aldrei hafa verið raunin með þennan grip. Nú til dags virðist hann vera dökkgrænn að lit.[16]
Þegar Kristján lýsti gripnum þótti honum verkið á honum ekki framúrskarandi gott. Þótti honum steypingin og áferðin góð og falleg, en skrautverkið með sljóum dráttum. Virðist hann jafnframt tengja hönnun gripsins við Úrsnesstíl, sem þótti áberandi í liststíl víkingaaldar áður en hin rómanska kirkjulist miðalda hélt innreið sína á Norðurlönd. Mat hann sem svo að gripurinn væri frá 11. öld, eða frá tímabilinu 1050 - 1075.[17]
Þetta virðist vera eini tá-bagallinn sem varðveist hefur á Norðurlöndum, en þegar um eiganda gripsins er að ræða er ekki um marga úr að velja. Miðað við aldursgreiningu hans á 11. öld, samkvæmt Kristjáni, þykir jafnvel líklegt að hann gæti hafa tilheyrt Ísleifi Gissurarsyni í Skálholti, þótt hann útilokaði ekki að um fleiri kristna trúboða á þessum tíma væri að ræða. Bætti hann einnig við að athugunarvert myndi þykja að jafn mikill höfðingi og Ísleifur bæri slíkan grip með sér, en tilkomumeiri gripur væri án efa við hæfi að hans mati.[18]
Síðari rannsóknir á svæðinu
[breyta | breyta frumkóða]Guðmundur Ólafsson, þáverandi deildarstjóri á Þjóðminjasafninu stýrði rannsókn á árunum 1986 - 1988 þar sem um 50 búðartóftir og tóftarbrot á þingstaðnum við Öxará voru skráðar.[19]
Fornleifastofnun Íslands SES gerði síðan rannsókn við kirkjuna á Þingvöllum undir yfirumsjón Orra Vésteinssonar, en í henni fundust leifar kirkju frá 16. öld. Var álitið sem svo að um væri að ræða fyrstu kirkju þessa staðar. Ásamt henni fannst hluti þingbúðar.[20] Um tíu árum síðar var gerður uppgröftur við Þingvallakirkju undir stjórn Margrétar Hallmundsdóttur, fornleifafræðings. Þá fannst meðal annars hluti af gamalli kirkju nálægt þeirri sem nú stendur, en talið er að sú kirkja gæti verið sú sama og Orri hafði áður fundið. Ásamt henni fundust hluti af búð og húsi ásamt fleiri byggingum. Þá fannst jafnframt smámynt við núverandi kirkju sem merkt var nafni Ottós 3. keisara Þýskalands frá árunum 983-1002.[21]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 25.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 27.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 33.
- ↑ Adolf Friðriksson (1994). Sagas and Popular Antiquarianism in Icelandic Archaeology. Ashgate Publishing Ltd. bls. 108.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 153.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 34-35.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 36.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 37.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 38.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 152.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 153-154.
- ↑ Matthías Þórðarson (1945). Þingvöllur - Alþingisstaðurinn Forni. Alþingissögunefnd. bls. 155-158.
- ↑ „Lögberg“. Sótt 8. mars 2014.
- ↑ Kristján Eldjárn (1. janúar). „Tá-Bagall frá Þingvöllum“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags (67): 1.
- ↑ Kristján Eldjárn (1. janúar). „Tá-Bagall frá Þingvöllum“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags (67): 1.
- ↑ Kristján Eldjárn (1. janúar). „Tá-Bagall frá Þingvöllum“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags (67): 8–9.
- ↑ Kristján Eldjárn (1. janúar). „Tá-Bagall frá Þingvöllum“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags (67): 11–13.
- ↑ Kristján Eldjárn (1. janúar). „Tá-Bagall frá Þingvöllum“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags (67): 21–22.
- ↑ „Fornleifarannsóknir Fram Til 2000“. Sótt 10. mars 2014.
- ↑ „Fornleifarannsóknir Fram Til 2000“. Sótt 10. mars 2014.
- ↑ Margrét Hrönn Hallmundsdóttir og Hansen, Sigrid. „Fornleifarannsókn á Þingvöllum - Vegna framkvæmda við Þingvallakirkju 2009“ (9-13). Sótt 11. mars 2014.