Félag járniðnaðarmanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Félag járniðnaðarmanna var stéttarfélag starfsmanna í málm- og véltæknigreinum og veiðarfæragerð sem stofnað var 11. apríl árið 1920. Það sameinaðist árið 2006 Vélstjórafélagi Íslands. Hið sameinaða félag nefnist VM félag vélstjóra og málmtæknimanna og er meðal stærstu fag- og stéttarfélaga landsins.

Sagan[breyta | breyta frumkóða]

Félagið var stofnað á fundi sautján járniðnaðarmanna við Hverfisgötu í Reykjavík. Félagið nefndist þá Sveinafélag járniðnaðarmanna en heitinu var fljótlega breytt. Félagið byggði á norrænum fyrirmyndum, sem sást meðal annars á því að fyrstu lög þess voru á dönsku. Formaður þess var kjörinn Loftur Bjarnason.

Félagið hóf þegar kröftuga kjarabaráttu. Það setti sér kauptaxta og ári síðar var fyrsti samhjálparsjóður félagsins stofnaður með framlögum meðlima.

Aukin harka hljóp í verkalýðsbaráttuna á kreppuárum fjórða áratugarins, en talsvert atvinnuleysi var þá meðal járniðnaðarmanna. Sumarið 1935 kom til harðra deilna þegar senda átti togarann Andra til viðgerða erlendis. Félagsmenn brugðust við með því að neita að gera bráðabirgðaviðgerð á skipinu svo unnt væri að sigla því utan. Við tóku átta vikna deilur sem lauk á að sett voru lög um skipaviðgerðir innanlands og stækkun dráttarbrauta.

Árið 1947 var mikið verkfallsár í sögu Félags járniðnaðarmanna. Í júní fór félagið í fjögurra vikna samúðarverkfall til stuðnings verkfalli Dagsbrúnar en um haustið fór félagið í átta vikna verkfall í baráttu fyrir eigin kjörum. Var verkfallsvopninu ítrekað beitt á næstu árum og áratugum.

Í kringum aldamótin gengu ýmis smærri verkalýðsfélög til liðs við Félag járniðnaðarmanna. Það voru Sveinafélag skipasmiða, Nót - félag netagerðarmanna og tvö félög málmiðnaðarmanna af Suðurlandi.

Tilvísanir og heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ingvar Ingvarsson og Samúel Ingi Þórisson (2004). Með oddi og egg: Stéttarfélög á Íslandi. Útgáfufélagið Frúin.