Eiríkur Sumarliðason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eiríkur Sumarliðason (f. um 1473, d. 1518) var prestur í Saurbæ í Eyjafirði og síðar ábóti í Þingeyraklaustri eftir lát Jóns Þorvaldssonar ábóta 1514 en kann þó að hafa farið með málefni klaustursins fyrir þann tíma í forföllum Jóns.

Eiríkur var af höfðingjaættum, sonur Sumarliða Eiríkssonar á Grund í Eyjafirði, sonar Eiríks slógnefs Loftssonar ríka Guttormssonar og konu Sumarliða, Guðrúnar Árnadóttur. Eiríkur var orðinn prestur í Saurbæ 1497 en var farinn þaðan árið 1507. Það ár var hann í Osló, þar sem hann fékk dæmt sér í vil í erfðadeilu sem hann átti í við Finnboga Jónsson lögmann og skotið hafði verið til konungs. Hann var einnig Hólaráðsmaður um tíma.

Eiríkur tók við ábótastarfinu á Þingeyrum eftir að Jón ábóti lést og var vígður á Hólum 28. janúar 1515 í brúðkaupi Kristínar Gottskálksdóttur og Jóns Einarssonar á Geitaskarði. Hann átti líka í jarðadeilum við Gottskálk Nikulásson biskup og hafði þar betur og má því ætla að hann hafi verið málafylgjumaður og mikill fyrir sér.

Hann sat hins vegar ekki lengi í embætti því hann dó 1518, sumar heimildir segja jafnvel 1516. Eftirmaður hans var Helgi Höskuldsson, síðasti ábóti Þingeyraklausturs.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Þingeyraklaustur". Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur, 1887“.
  • „„Þingeyraklaustur". Sunnudagsblaðið, 20. mars 1966“.