Eiríkur Loftsson slógnefur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eiríkur Loftsson slógnefur (um 1415 – febrúar 1473) var íslenskur höfðingi á 15. öld, bóndi á Auðbrekku í Hörgárdal og Grund í Eyjafirði.

Eiríkur var sonur Lofts Guttormssonar ríka og konu hans, Ingibjargar Pálsdóttur. Árið 1445 giftist hann Guðnýju Þorleifsdóttur, dóttur Vatnsfjarðar-Kristínar og Þorleifs Árnasonar á Auðbrekku í Hörgárdal, í Glaumbæ í Skagafirði og í Vatnsfirði. Fjögur systkini Eiríks giftust systkinum Guðnýjar. Þau Eiríkur og Guðný bjuggu fyrst á Auðbrekku en síðar á Grund í Eyjafirði.

Synir Eiríks og Guðnýjar voru Þorvarður, sem var annar forsprakki þeirra sem voru í Krossreið síðari, og Þóroddur. Launbörn Eiríks voru Sumarliði bóndi á Grund, faðir Eiríks Sumarliðasonar ábóta í Þingeyraklaustri, og Guðrún, fylgikona Gottskálks Nikulássonar grimma Hólabiskups og móðir Odds Gottskálkssonar, þýðanda Nýja testamentisins.