Dómkirkjan í Utrecht

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Utrecht

Dómkirkjan í Utrecht er er hæsta kirkja Hollands með 112 metra og er einkennisbygging borgarinnar Utrecht. Kirkjan var í margar aldir aðalkirkja furstabiskupanna þar í borg.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirrennarar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 630 reistu kristniboðar fyrstu kirkjuna úr viði í borginni. Áður en öldin var liðin var búið að rífa hana og reisa kirkju úr grjóti í staðinn. Sú kirkja var eyðilögð af víkingum árið 857. Snemma á 10. öld var hafist handa við að reisa stóra kirkju á reitnum. Smíðin brann 1017, en engu að síður tókst að ljúka framkvæmdum 1023. Kirkjan var þá vígð og helguð heilögum Marteini frá Tours. Enn brann kirkjan 1131 og 1148, þannig að eftir miklar endurbætur var kirkjan endurvígð 1173. Sú kirkja brann niður 1253.

Hæsta bygging Hollands[breyta | breyta frumkóða]

Núverandi bygging var reist 1254 og var kórinn tilbúinn 1295. Fyrirmynd hans var dómkirkjan í Köln. Dómkirkjan var aðalkirkja furstabiskupanna í Utrecht, en völd þeirra náðu langt út fyrir borgarmörkin. Meðan framkvæmdir stóðu yfir á skipinu, var turninn reistur 1321-1382. Sá turn varð 109 metra hár og var þá (og er enn) hæsti kirkjuturn Hollands og fjórði hæsti turn Evrópu á þeim tíma. Sökum fjárhagsvandræða var hætt við frekari framkvæmdir, þannig að ekki tókst að ljúka framkvæmdum við meginskipið. 1440 var aftur hafist handa við smíðina, en skipið var ekki reist eins veglega og til stóð í upphafi. 1521 var öllum framkvæmdum hætt.

Stormar[breyta | breyta frumkóða]

Kirkjuskipið í rústum eftir storminn 1674. Teikning eftir Herman Saftleven.

Þegar Utrecht-sambandið var stofnað 1579, upphafið að sjálfstæðu Hollandi, var kaþólska kirkjan í borginni bönnuð, þrátt fyrir að 40% íbúanna væru enn kaþólskir. Biskupsstóllinn var lagður niður og dómkirkjunni breytt í kirkju mótmælenda. Fólk stormaði inn í kirkjuna og braut helgimyndir og ölturu. Allt sem minnti á kaþólsku var fjarlægt. Ýmsar skemmdir voru unnar á innviðinu. 1674 brast á annars konar stormur í Utrecht er illviðri gekk yfir borgina. Í honum hrundi þakið á kirkjuskipinu og gjöreyðilagðist bæði þakið og skipið. Kórinn og turninn sluppu. Við hrunið myndaði bil á milli kórsins og turnsins og var því lokað með vegg til bráðabirgða, en engar áætlanir voru uppi um að reisa nýtt skip. Það voru rústir einar og látnar standa óhreyfðar í rúm 150 ár.

Breytingar[breyta | breyta frumkóða]

Kirkjan byrjaði að grotna niður sökum lélegs viðhalds. 1826 var byrjað að fjarlægja rústir kirkjuskipsins. Kórinn og tuninn voru þannig ekki lengur tengdir, þannig að þar sem kirkjurústirnar voru myndaðist veglegt torg. Þannig er það enn í dag. Torgið er þó sett lituðum steinum sem sýna hvar skipið eitt sinn stóð. 1836 skemmdist efsta hæðin í turninum talsvert í miklum stormi. Uppi voru hugmyndir um að rífa turninn, enda ekki lengur tengdur kórnum. Slíkar áætlanir voru hins vegar saltaðar. 1850 hófust viðamiklar viðgerðir á kórnum. Önnur viðgerð var framkvæmd 1921 og 1979-88. Turninn fékk viðgerð 1901-1931. Í henni var efsti hlutinn fjarlægður og nýr smíðaður í staðinn. Við það hækkaði turninn úr 109 metrum í 112 metra. Hann er enn hæsti kirkjuturn Hollands og meðal hæstu kirkna Evrópu. Jafnframt er turninn hæsta mannvirkið í Utrecht. Á 20. öld hefur margsinnis komið til tals að endurreisa kirkjuskipið, en aldrei hefur orðið af því.

Klukkur[breyta | breyta frumkóða]

14 kirkjuklukkur eru í turninum. Flestar voru gerðar 1505 af Gerhardus de Wou, en á þeim tíma var klukknaverkið eitt his mesta í Evrópu. 1979 var nokkrum klukkum skipt út fyrir nýrri klukkur. Stærsta klukkan heitir Salvator (Frelsarinn) og vegur 8,2 tonn. Alls vegur klukknaverkið um 32 tonn. Allar klukkur eru handsnúnar (ekki rafrænar). Salvatorklukkunni er þó aðeins hringt á sérstökum hátíðisdögum, bæði trúarlegum og þjóðlegum.

Grafhvelfing[breyta | breyta frumkóða]

Keisarasteinarnir

Nokkuð er um að heldri persónur hvíli í kirkjunni. Má þar nefna nokkra furstabiskupa. Keisararnir Konráður II og Hinrik V létust báðir í Utrecht (1039 og 1125). Innyfli þeirra voru teknir úr þeim og sett í geymslu í dómkirkjunni. Að öðru leyti voru þeir jarðsettir annars staðar. Tvær steinhellur í gólfinu í kórnum, keisarasteinarnir (Keizerssteentjes), minna á þá.

Listaverk og dýrgripir[breyta | breyta frumkóða]

Marteinshamarinn[breyta | breyta frumkóða]

Dómkirkjan á veglegan hamar sem kallast Marteinshamarinn, kenndur við heilagan Martein. Hér um forsögulegt verkfæri að ræða. Hamarinn er talinn vera frá 1000 f.Kr. og gerður úr graníti. Þjóðsagan segir að heilagur Marteinn frá Tours hafi átt hamarinn og notað hann til að berja á kölska. Önnur saga segir að hann hafi notað hamarinn til að eyðaleggja heiðin hof. Allar götur síðan hefur hamarinn verið geymdur sem dýrgripur í dómkirkjunni. Á 13. öld var hann silfursleginn. Hamarinn er eign dómkirkjunnar, en er í dag geymdur í Katrínarklaustrinu í Utrecht.

Lögbækur[breyta | breyta frumkóða]

Tvær forláta lögbækur (codices) eftir furstabiskupana Ansfried og Bernold eru eign dómkirkjunnar. Bækurnar eru frá 11. öld og eru bundar með gullplötum og eðalsteinum. Bókunum tókst að bjarga þegar siðaskiptin urðu í borginni, en eru geymdar í Katrínarklaustrinu í Utrecht í dag.

Notkun[breyta | breyta frumkóða]

Dómkirkjan er ekki lengur kaþólsk síðan siðaskiptin fóru fram á síðari hluta 16. aldar. Hún þjónar söfnuði mótmælenda. Turninn er með eigin gestamiðstöð sem stendur á torginu milli turnsins og kórsins. Almenningur á kost á að skoða turninn með leiðsögumanni. Til að komast alla leið upp þarf að príla 465 þrep. Þaðan er á góðum dögum hægt að greina stórborgirnar Amsterdam og Rotterdam. Turninn er einnig vinsæll giftingarstaður fyrir brúðhjón.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]