Dómkirkjan í Köln

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Köln er þriðja hæsta kirkja heims

Dómkirkjan í Köln er ein þekktasta dómkirkja Þýskalands. Hún er jafnframt næsthæsta kirkjan í Þýskalandi með 157 metra (á eftir dómkirkjunni í Ulm) og þriðja hæsta í heimi. 1880-1884 var kirkjan meira að segja hæsta bygging heims. Í kirkjunni eru líkamsleifar vitringanna þriggja. Kirkjan er mest sótti ferðamannastaður Þýskalands. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO.

Saga kirkjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirrennari[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirrennari dómkirkjunnar var hin svokallaða Hildebold-kirkjan. Það var erkibiskupinn Hildebold sem lét reisa þá kirkju í kringum aldamótin 800 og var hún vígð 873. Þessi kirkja var fyrirmynd ýmissa annarra kirkna í Evrópu. Mesti dýrgripur hennar var Gerokrossinn, næstelsti stórkross norðan Alpa. Auk þess voru þar líkamsleifar vitringanna þriggja. Sökum þess að kirkjan annaði varla lengur hina miklu ásókn pílagríma, var ráðgert að reisa nýja og stærri kirkju. En gamla kirkjan brann 1248 og var þá sama ár hafist handa við að reisa núverandi dómkirkju.

Fyrri byggingartíminn[breyta | breyta frumkóða]

Dómkirkjan 1824. Þetta var ásýnd kirkjunnar í rúmar þrjár aldir.

15. ágúst 1248 hófust framkvæmdir við nýju kirkjuna. Verkið vannst vel og hratt og var fyrsta áfanga lokið 1277. Hún var þá vígð og notuð fyrir messur, þrátt fyrir að meginhlutar hennar voru enn í byggingu. Milli 1304 og 1311 voru hinir gríðarstóru gluggar settir í. Þeir sýna 48 konunga Ísraels og Júda, ásamt öðru myndefni úr Biblíunni. Samanlagt eru gluggarnir 1.350 m² að stærð og mynda eina stærstu gluggaseríu frá miðöldum. Kórinn var vígður 1322 og voru þá líkamsleifar vitringanna þriggja fluttar í kirkjuna, ásamt steinkistum nokkurra erkibiskupa. 1331 var byrjað að reisa kirkjuskipið. 1388 voru framkvæmdir á því komnar svo vel á vel að hægt var að nota það við vígslu háskólans í Köln. 1418 var suðurturninn orðin svo hár að fyrsta kirkjubjallan var hengd upp. Turninn var þá 59 metra hár. Síðla á 15. öld var hægt á öllum framkvæmdum. Um 1500 var þó grunnurinn lagður að norðurturninum, en allar framkvæmdur hættu að mestu eftir það. Síðast er vitað um byggingarframkvæmdir fyrir árið 1528. Ástæður fyrir því að hætt var við allar framkvæmdir var sú að viðhorf manna til verksins höfðu breyst. Siðaskiptin í héraðinu þýddi að minni peningur var til í kaþólsku kirkjunni, þrátt fyrir að siðaskiptin fóru aldrei fram í borginni sjálfri. Pílagrímum fækkaði umtalsvert og það þýddi minni tekjur fyrir kirkjuna. Á þessum tíma var kirkjan nær fullgerð að innan og í góðu nothæfu ástandi. 1531 fór fram konungskjör í dómkirkjunni. Þar var Ferdinand I, bróðir Karls V keisara, kjörin eftirmaður bróður síns. 1794 skemmdu Frakkar kirkjuna nokkuð. Þeir stöðvuðu allar guðsþjónustur 1796. Dómkirkjan var ekki notuð á ný fyrr en Frakkar yfirgáfu Köln 1814.

Seinni byggingartíminn[breyta | breyta frumkóða]

Í rúmar þrjár aldir var hin ófullgerða dómkirkja látin standa í borginni. Á suðurturninum var stór og mikill byggingarkrani sem ekki var notaður allan þennan tíma. Í upphafi 19. aldar varð orðatiltækið til í Köln, að þegar kirkjan yrði loks fullgerð, þá væri heimsendir í nánd. Framkvæmdir hófust á ný 1823. Þá voru upphaflegu teikningarnar týndar, en höfðu fundist á ný 1814. Helmingur þeirra í Darmstadt og hinn helmingurinn í París. Prússneski konungurinn Friðrik Vilhjálmur 4. veitti fjármagn. 1863 var allri innréttingu kirkjunnar lokið. Síðustu framkvæmdir var við turnana. 1880 var kirkjan öll fullgerð. Turnarnir voru þá orðnir 157 metra háir. Þar með var dómkirkjan í Köln hæsta mannvirki heims og var hún það allt til 1884 er Washington Monument var fullgert. Í dag er dómkirkjan í Ulm hæsta kirkja heims með 161 metra. Til marks um umfang og hæð dómkirkjunnar í Köln má nefna að það tók tvö ár að fjarlægja stillasana. Kirkjuskipið er 144 metra langt og er þar með lengsta kirkjuskip Þýskalands og eitt hið lengsta í heimi. Hæð skipsins er 43,35 m og er fjórða hæsta kirkjuskip heims. Þó tekur kirkjan ekki nema 1.200 manns í sæti.

Stríð[breyta | breyta frumkóða]

Dómkirkjan slapp við meiriháttar skemmdir í seinna stríðinu

Þegar dómkirkjan var fullgerð síðla á 19. öld var hún ljósbrún að lit. Með sóti frá umhverfinu og sérstaklega í loftárásum seinna stríðs varð kirkjan sífellt dekkri. Meðan loftárásir fóru fram voru sjálfboðaliðar staðsettir í kirkjunni til að slökkva alla elda sem sprengjur orsökuðu. 70 sprengjur sprungu alls í og við kirkjuna og ollu þær nokkrum skaða, sérstaklega á þakinu. En fólkinu tókst að slökkva eldana, þannig að skemmdir innan í kirkjunni voru í algjöru lágmarki. Viðgerðir fóru fram strax eftir stríð, samfara fornleifauppgreftri undir kirkjugólfinu. 1956 fóru messur fram á ný í kirkjunni. 1997 var haldið upp á að 700 ár voru liðin frá lagningu hornsteins kirkjunnar. 1996 var dómkirkjan í Köln sett á heimsminjaskrá UNESCO. 2006 heimsótti Benedikt XVI páfi kirkjuna. Hún er í dag mest sótti ferðamannastaður Þýskalands með 6 milljón gesti árlega.

Listaverk og dýrgripir[breyta | breyta frumkóða]

Gerokrossinn[breyta | breyta frumkóða]

Gerokrossinn

Gerokrossinn er næstelsti stórkross norðan Alpa sem varðveist hefur. Hann er 2,88 m hár og var smíðaður síðla á 10. öld úr eikarviði. Upphaflega var krossinn án kransins. Honum var ekki bætt við fyrr en 1683. Í upphafi stóð krossinn í fyrirrennarakirkju dómkirkjunnar og hvíldi á steinkisti erkibiskupsins Gero. Þaðan er heitið komið. 1248 brann sú kirkja, en Gerokrossinn slapp við skemmdir. Meðan nýja dómkirkjan var í byggingu stóð krossinn í Stefánskirkjunni, en var fluttur í dómkirkjuna 1351 og hefur staðið þar síðan.

Gamall skírnarfontur[breyta | breyta frumkóða]

Í kirkjunni er gamall skírnarfontur frá 6. öld. Fonturinn var hluti af fyrirrennarakirkjunni og tilheyrði sennilega kirkju sem stóð þar áður. Fonturinn er átthyrndur og var gengið ofan í hann allan með þar til gerðum tröppum. Stóðu þá presturinn og skírnþegi báðir í vatninu. Hafa ber í huga að á þessum tíma var enn verið að kristna germani og því voru skírnþegar oftar en ekki fullorðið fólk.

Helgiskrín vitringanna[breyta | breyta frumkóða]

Helgiskrín vitringanna þriggja

Ein mesta gersemi dómkirkjunnar er helgiskrín vitringanna þriggja ásamt líkamsleifum þeirra. Skrínið sjálft er 153 cm hátt, 220 cm langt og 110 cm breitt. Það er gert úr silfri og er gullhúðað. Hliðarnar eru settar gimsteinum og eru skreyttar gullhúðuðum styttum. Formið er eins og kirkjuskip í laginu. Það er þó innihaldið sem er öllu verðmætara, en það eru líkamsleifar vitringanna þriggja sem færðu Jesúbarninu gjafir. Líkamsleifar þeirra bárust frá Konstantínópel til Mílanó. 1164 herjaði Friðrik Barbarossa keisari á Milano og hertók hana. Hann gaf erkibiskupinum frá Köln, Reinhard von Dassel, líkamsleifar vitringanna, sem flutti þær til Kölnar. Stuttu seinna var helgiskrínið smíðað og leifar vitringanna settar þar í. Við það varð fyrirrennari dómkirkjunnar að einum mesta pílagrímsstað í Evrópu. Þegar dómkirkjan var í smíðum var skrínið flutt í hana og lá það þar allt til franska tímans. Skrínið var fjarlægt þegar Frakkar hertóku Köln 1794, þar sem Frakkar (og sér í lagi Napoleon) höfðu orð á sér fyrir að flytja listaverk og dýrgripi til Parísar. Í dag er skrínið til sýnis í dómkirkjunni. Skrínið sjálf var síðast opnað 1864. Þar var þá að finna ýmsar líkamsleifar, ekki bara þriggja manna, heldur nokkurra í viðbót.

Klörualtaristaflan[breyta | breyta frumkóða]

Klörualtaristaflan

Altaristaflan kennd við heilaga Klöru var smíðuð 1350-60 og stóð upphaflega klaustri heilagrar Klöru í Köln. En þegar Frakkar lokuðu klaustrinu var altaristaflan flutt í dómkirkjuna, þar sem hún stendur enn. Altaristaflan er 6 metra breið í þremur stykkjum, sem hægt er að loka. Venjulega er altaristaflan lokuð, en hún er opnuð á degi heilagrar Klöru.

Annað[breyta | breyta frumkóða]

Í dómkirkjunni eru mýmargar styttur, málverk og ölturu. Flest eru þessi listaverk til sýnis í kirkjunni, en nokkur eru geymd í lokuðu hliðarhúsi, kölluð fjársjóðsgeymslan (Domschatzkammer).

Klukkur[breyta | breyta frumkóða]

Aðalklukknaverk dómkirkjunnar samanstendur af 8 stórum klukkum, sem þykir eitt mesta klukknaverk í dómkirkju í heimi. Stærsta klukkan heitir Pétursklukkan og vegur hún eins og sér 24 tonn. Hún er þar með langþyngsta kirkjuklukka heims. Hún var smíðuð 1923 og hangir í suðurturninum. Pétursklukkan er eingöngu notuð við sérstaka viðburði, til dæmis við andlát erkibiskups í Köln eða andlát páfa. Við önnur tækifæri hefur hún aðeins hringt þrisvar á 20. öld. 1936 lét Hitler hringja klukkunni sem nokkurs konar friðarósk. 1945 hringdi hún til marks um lok heimstyrjaldarinnar síðari. 1990 hringdi hún enn við sameiningu Þýskalands.

Grafhvelfing[breyta | breyta frumkóða]

Í dómkirkjunni er grafhvelfing, enda var ákvarðað að hún yrði grafarkirkja erkibiskupanna í Köln. Þar hvíla 25 erkibiskupar, þar á meðal Gero og Reinhard von Dassel.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Kölner Dom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.