Fara í innihald

Vatnakarpi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Cyprinus carpio)
Vatnakarpi
Vatnakarpi
Vatnakarpi
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Karpfiskar (Cypriniformes)
Ætt: Karpætt (Cyprinus)
Tegund:
C. carpio

Tvínefni
Cyprinus carpio
Linnaeus, 1758

Vatnakarpi (fræðiheiti: Cyprinus carpio) er ferskvatnsfiskur af karpaætt sem víða finnst villtur í ám og vötnum. Hann er mjög vinsæll sem eldisfiskur en villti stofninn er flokkaðar sem stofn í hættu og mjög viðkvæmur.

Villtur vatnakarpi er yfirleitt mjóslegnari en alinn, lengdin er almennt fjórum sinnum hæðin. Hann hefur rautt hold. Eldisfiskurinn vex helmingi hraðar en villtur og nær ekki sömu lengd og þyngd og eldisfiskurinn, er frá 3,2 til 4,8 sinnum stærri. Vatnakarpi getur orðið allt að 120 cm langur og yfir 40 kg. Villtur vatnakarpi verður um 40-80 cm langur og 2-14 kg. Stærsti vatnakarpi sem hefur verið veiddur var 45,59 kg, hann veiddist 2013 í Frakklandi.

Vatnakarpi er botnfiskur og aflar mestallrar sinnar fæðu þar ásamt því að leita alveg upp á yfirborðið eftir fæðu.

Vatnakarpinn kom upphaflega frá Asíu en hefur verið fluttur út um allan heim nema til Miðausturlanda og Norður- og Suðurpólsins. Í Evrópu er algengt að finna hann í grunnum tjörnum með moldar- eða leirbotni og miklu af botngróðri. Bestu skilyrði fyrir vöxt á vatnakarpa er þegar vatnshitinn er 23°C til 30°C.

Fiskurinn er mjög harðgerður og getur lifað við óvistlegar aðstæður eins og í köldu vetrarvatni, við lítið súrefnismagn (0,3-0,5 mg/l) og seltu upp að 5‰. Æskilegt sýrustig vatnsins (pH-gildi) er á bilinu 6,5-9,0.

Búkurinn er langur og þéttur. Munnur hefur tvær þykkar varir og 5 koktennur með flötum kórónum. Hann hefur tvo skeggþræði beggja megin við munninn. Bakugginn er stór, langur og inniheldur bein. Undir honum eru tveir eyruggar, einn undir og tveir raufaruggar.

Villtur vatnakarpi er brún-grænn á bakinu niður á miðjan búk. Maginn og upp á miðjar hliðar fisksins er gul-gyllt. Uggarnir er með rauðbrúnan blæ.

Fæða vatnakarpa er smádýr eins og vatnsskordýr, ormar, lirfur og dýrasvif, en hann á það til að éta plöntur, lauf, fræ og stilka. Þar sem hann lifir þétt eins og í tjörnum er dýrasvif aðalfæðan.

Vatnakarpi er mjög vinsæll sem eldisfiskur. Daglegur vöxtur getur verið allt að 2-4% af þyngd fisksins. Þannig getur fiskurinn náð því að verða 0,6-1,0 kg á einu ári við heittemprað loftslag. Hann vex mun hægar í tempruðu loftslagi, en þá nær fiskurinn 1-2 kg þyngd á 2-4 árum, um helmingi lengri tíma en í heitu loftslagi. Hrygning byrjar um það leyti sem vatnið/umhverfið nær 17-18°C.

Vatnakarpaeldi var 14% af heildarferskfiskeldi árið 2002, um 4,6 milljón tonn. Frá árinu 1993 til 2002 hefur verið um 10,4% aukning á hverju ári í eldi á vatnakarpa. Sem dæmi var aukning á eldi á tilapiu um 11,8%.

Kína er langstærsti framleiðandinn á vatnakarpa og framleiddi 3,3 milljón tonn eða ca. 70% af heildinni árið 2002. Á sama tíma var framleiðsla í Evrópu um 144 þúsund tonn.

Meðalverð fyrir eldisvatnakarpa var USD 0,92/kg árið 2002, verðið var USD 1,43/kg árið 1993, en þessi lækkun er að mestu leyti vegna lækkunar RMB, gjaldmiðils í Kína, sem hefur mesta vægið í meðalverðinu vegnar stærðar miðað við heildarframleiðslu.

Vatnakarpi er ekki veiddur í atvinnuskyni en hann er mjög vinsæll meðal stangveiðimanna í Evrópu og einnig eru vinsældir að aukast í Ameríku.

Talið er að framleiðsla á vatnakarpa sé nálægt hámarki, að ekki sé grundvöllur fyrir því að auka framleiðsluna. Vatnakarpi er og verður áfram mjög mikilvæg tegund þar sem hún er framleidd. Mikil hefð er fyrir því að borða vatnakarpa í Mið-Evrópu og þá sérstaklega um jólin. Árlega er inn- og útflutningur á vatnakarpa innan Evrópu um 24 þúsund tonn (lifandi eða ferskar og frosnar afurðir). Í öllum heiminum fyrir utan Evrópu er inn- og útflutningur 39 þúsund tonn af afurðum. Evrópa er þannig stærsta markaðssvæðið.