Fara í innihald

Chicago-hagfræðingarnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Chicago-hagfræðingarnir (e. Chicago School of Economics) er hópur hagfræðinga, sem ýmist kenndu eða námu við Chicago-háskóla á 20. öld og eru kunnir fyrir eindreginn stuðning við frjálshyggju og rækilegar rannsóknir á verðmyndun á frjálsum markaði. Áhrifamesti hagfræðingurinn í þessum hóp á fyrri hluta 20. aldar var Frank H. Knight, en kunnastur er Milton Friedman, sem hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði 1976. Á meðal annarra Chicago-hagfræðinga eru Nóbelsverðlaunahafarnir George J. Stigler og Gary Becker. Nóbelsverðlaunahafarnir Ronald Coase, sem lengi kenndi við Chicago-háskóla, og James M. Buchanan, sem lauk þaðan doktorsprófi, standa báðir nærri Chicago-hópnum, þótt Buchanan teljist frekar til Virginíu-hagfræðinganna svonefndu. Friedrich A. von Hayek kenndi einnig lengi í Chicago-háskóla, þótt hann teljist frekar til austurrísku hagfræðinganna svonefndu. Tveir afkastamiklir rithöfundar hafa skrifað aðgengileg og alþýðleg verk í anda Chicago-hagfræðinganna, þeir Richard Posner dómari og Thomas Sowell, vísindamaður í Hoover Institution í Stanford-háskóla.

Hópur hagfræðinga í Chile hefur líka verið kenndur við Chicago-háskóla, Chicago-drengirnir (e. Chicago Boys) svonefndu, en þeir höfðu numið í Chicago-háskóla eða orðið fyrir miklum áhrifum frá kennurum þar. Þeir fengu miklu um það ráðið, að í stjórnartíð Augustos Pinochets einræðisherra var atvinnufrelsi stóraukið. Þeir höfðu þá aðallega með í ráðum Arnold Harberger, en Milton Friedman gegndi minna hlutverki, þótt hann kæmi til Chile í stjórnartíð Pinochets og héldi þar erindi.

Rannsóknir Miltons Friedmans á peningamálasögu Bandaríkjanna sýna, að verðbólga er ætíð háð peningamagni í umferð. Heimskreppan stafaði að sögn hans aðallega af því, að niðursveifla í atvinnulífinu breyttist í harða kreppu vegna mistaka í stjórn peningamála, en síðan gerðu margvísleg viðskiptahöft um heim allan illt verra. Ekki væri því hægt að kenna frjálsum viðskiptum um heimskreppuna, eins og oft er haldið fram, heldur ríkisafskiptum.

Rannsóknir Georges J. Stiglers á ýmsum afskiptum ríkisins sýna, að þau hafa ekki haft þau áhrif, sem til var ætlast. Til dæmis hefur samkeppnislöggjöf ekki stuðlað að aukinni samkeppni og verðlagseftirlit ekki haldið niðri verðlagi.

Rannsóknir Garys Beckers á mismunun á markaði (e. discrimination) sýna, að hún kemur ekki síður niður á þeim, sem mismuna, en hinum, sem mismunað er. Þegar einn maður neitar sér til dæmis um þjónustu annars manns, af því að hann er svartur, neitar hann sér oft um hagkvæmasta kostinn. Rannsóknir Beckers á afbrotum sýna, að tilhneiging manna til að fremja afbrot er háð því tvennu, hversu þung viðurlög eru við brotinu og hversu líklegt er, að upp um brotamanninn komist. Þess vegna geta refsingar verið mildari á Íslandi en í Bandaríkjunum (líklegra er á Íslandi, að upp um brotamanninn komist).

Rannsóknir Thomas Sowells sýna, að minnihlutahópar eru oft betur settur úti á markaðnum, þar sem þeir geta selt þjónustu sína í samkeppni við aðra, en þegar þeir leita á náðir ríkisins.

Rannsóknir Aarons Directors sýna, að skipting fjár í stjórnmálasamningum er líkleg til að gagnast best þeim, sem hafa mest stjórnmálaáhrif, en ekki þeim, sem kunna að þurfa helst á fénu að halda eða verðskulda það.

Rannsóknir Sams Peltzmans sýna, að lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur líklega kostað fleiri mannslíf en það hefur bjargað, þar sem það hefur ýmist stöðvað eða tafið leið ýmissa nauðsynlegra lyfja út á markaðinn, þótt það hafi einnig stöðvað ýmis hættuleg lyf. Þær sýna líka, að öryggisbelti í bílum minnka sennilega ekki heildarkostnaðinn af bílslysum, heldur flytja hættuna frá ökumönnum til gangandi vegfarenda.

Hliðstætt efni

[breyta | breyta frumkóða]
  • Stigler, George J. (ritstj.): Chicago Studies in Political Economy. Chicago: University of Chicago Press, 1987 (ISBN 0-226-77438-4)