Beatrix Potter

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Beatrix Potter (1913)

(Helen) Beatrix Potter (28. júlí 186622. desember 1943) var enskur barnabókahöfundur og myndskreytir, fræg fyrir að hafa skapað „Pétur Kanínu“ (e. „Peter Rabbit“) og aðrar dýrapersónur. Síðar í lífinu varð hún einnig þekkt sem náttúruverndarkona.

Ævisaga[breyta | breyta frumkóða]

Beatrix Potter fæddist í Kensington, London árið 1866. Á bernskuárum sínum hlaut hún kennslu heima við og fékk sjaldan tækifæri til að hitta önnur börn. Yngri bróðir hennar, Bertram, var lítið heima þar sem hann var sendur í heimavistarskóla og var Beatrix því mest ein ásamt gæludýrunum sínum. Hún átti froska, salamöndrur, tvær kanínur og jafnvel leðurblöku. Önnur kanínan hennar hét Benjamín og þótti Potter hann vera ófyrirleitinn og hortugur. Hina kanínuna sína kallaði hún Pétur og tók hún hann með sér hvert sem hún fór. Potter fylgdist með þessum dýrum tímunum saman og rissaði myndir af þeim á blað. Með tímanum urðu myndirnar æ betri og þróuðust þannig listrænir hæfileikar hennar frá unga aldri.

Faðir Potters, Rupert William Potter (1832-1914), var menntaður hæstaréttarlögmaður en eyddi flestum stundum sínum í klúbbi fyrir herramenn og vann mjög lítið. Móðir hennar, Helen Potter née Leech (1839-1932), var dóttir bómullarkaupmanns og gerði lítið annað en að heimsækja fólk og taka sjálf á móti gestum. Fjölskyldan lifði að mestu á tekjum úr arfi beggja foreldra.

Á hverju sumri leigði Rupert Potter hús í sveitinni, fyrst Dalguise House í Perthshire í Skotlandi á árunum 1871-1881[1] og síðar annað hús í Lake District héraðinu í Englandi. Árið 1882 hitti fjölskyldan prestinn á staðnum, Canon Hardwicke Rawnsley, sem hafði miklar áhyggjur af afleiðingum iðnaðar og ferðaþjónustu í Lake District héraðinu. Hann stofnaði síðar náttúruverndarráðið National Trust árið 1895 til að stuðla að varðveislu sveitarinnar. Beatrix Potter varð strax hugfangin af stórskornum fjöllunum og dimmum stöðuvötnunum og fyrir tilstuðlan Rawnsleys lærði hún mikilvægi þess að reyna að varðveita náttúruna, eitthvað sem fylgdi henni alla tíð.

Áhugi á vísindum og rannsóknir á sveppum[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Potter komst á unglingsárin gerðu foreldrar hennar hana að ráðskonu hjá sér og drógu úr henni allan kjark til að mennta sig frekar. Frá fimmtán ára aldri fram yfir þrítugt skrifaði hún um daglegt líf sitt í dagbók með sérstöku dulmáli (sem ekki tókst að ráða í fyrr en áratugum eftir andlát hennar).

Frændi hennar reyndi að koma henni að sem nemanda við Royal Botanical Gardens skólann í Kew en henni var hafnað vegna þess að hún var kona. Potter varð síðar ein af þeim fyrstu til að benda á að fléttur (e. lichens) séu í raun samband sveppa og þörunga[2] Þar sem að á þessum tíma var einungis hægt að skrásetja örsmáar myndir með því að mála þær, gerði Potter fjölmargar teikningar af fléttum og sveppum. Niðurstöður athuganna hennar leiddu til þess að hún naut virðingar víða á Englandi sem reyndur sveppafræðingur. Hún lærði einnig um spírun gróa og lífsferil sveppa. Nákvæmar vatnslitamyndir Potters af sveppum, sem voru um 270 talsins árið 1901, eru geymdar í Armitt Library safninu í Ambleside.

Árið 1897 kynnti frændi hennar, Sir Henry Enfield Roscoe, ritgerð hennar um spírun gróa fyrir Linnean Society, þar sem konum var meinaður aðgangur að fundum. (Árið 1997 gaf félagið út opinbera afsökunarbeiðni vegna framkomu þess gagnvart Potter). The Royal Society hafnaði einnig beiðni hennar um að gefa út eina af ritgerðum hennar.

Bókmenntaferill[breyta | breyta frumkóða]

Margar sögur hennar og verkefni voru byggð á litlu dýrunum sem hún læddi inn á heimilið eða fylgdist með í fjölskyldufríunum í Skotlandi eða í Lake District-sýslu. Hún var hvött til að gefa út Söguna af Pétri Kanínu (e. The Tale of Peter Rabbit), en hún átti erfitt með að finna útgefanda þar til hún fékk Frederick Warne & Company til að gefa hana út árið 1902, en þá var Potter orðin 36 ára gömul. Þessi litla bók og þær sem á eftir komu hlutu ákaflega góðar viðtökur og hún fékk góðar tekjur af sölu þeirra. Hún trúlofaðist útgefandanum Norman Warne á laun en foreldrar hennar voru mótfallnir því að hún giftist smákaupmanni. Andstaða þeirra við ráðahaginn gerði það að verkum að Beatrix fjarlægðist foreldra sína. Hins vegar varð ekkert af brúðkaupinu þar sem Norman veiktist skömmu eftir trúlofunina og lést innan fárra vikna. Beatrix varð miður sín.

Potter skrifaði alls 23 bækur sem gefnar voru út og gerðar með því sniði sem hentar börnum. Um 1920 dró heldur úr skrifunum sökum þess að sjón hennar fór versnandi. The Tale of Little Pig Robinson var gefin út árið 1930, þó svo að handritið hafi verið eitt af þeim fyrstu sem hún skrifaði.[3]

Efri ár[breyta | breyta frumkóða]

Eftir andlát Warnes, keypti Potter sveitabýlið Hill Top Farm í þorpinu Sawrey, Cumbria í Lake District-héraðinu. Hún elskaði landslagið og heimsótti býlið eins oft og hún gat. Vegna fastra ritlauna fyrir bækur sínar gat hún keypt landskika með aðstoð lögfræðingsins William Heelis. Árið 1913 þegar Potter var 47 ára giftist hún Heelis og fluttu þau á sveitabýlið til frambúðar. Í sumum af vinsælustu verkum Potters má sjá myndir af sveitabýlinu Hill Top Farm og þorpið. Þau hjónin áttu engin börn en býlið var iðandi af dýralífi, s.s. hundum, köttum og einnig áttu þau broddgöltinn „Frú Tiggywinkle“.

Þegar Potter fluttist í Lake District sýsluna fékk hún áhuga á að rækta og sýna vissa tegund af sauðfé. Hún varð virtur bóndi, dómari á landbúnaðarsýningum í sveitinni og forseti Herdwick Sheep Breeders’ Association félagsins. Þegar foreldrar Potters létust notaði hún arfinn sinn til að kaupa fleiri býli og landsvæði. Nokkrum árum síðar fluttu Potter og Heelis inn í þorpið Sawrey og í Castle Cottage þar sem hún var þekkt af börnum bæjarins fyrir geðillsku og kölluðu þau hana „Auld Mother Heelis“.[4]

Beatrix Potter lést árið 1943 að Castle Cottage í Sawrey. Líkami hennar var brenndur og öskunni dreyft yfir sveitina í grennd við Sawrey.[5]

Í kjölfarið[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt erfðaskrá Potters lét hún allar eigur sínar renna til náttúruverndarráðsins The National Trust, þ.m.t. 4,000 ekrur (16 km²) landsvæðis, sumarbústaði og 15 sveitabýli. Framlag hennar hefur stuðlað að því að tryggja að fegurð Lake District héraðsins og iðkun landbúnaðar hefur haldist óbreytt fram á þennan dag. Eigur hennar eru nú allar í þjóðgarðinum Lake District National Park.

Árið 1971 voru Sögurnar af Beatrix Potter (e. The Tales of Beatrix Potter) gefnar út undir stjórn Reginald Mills. Tónlist var gerð við nokkrar af þessum sögum og meðlimir The Royal Ballet dönsuðu við þær. Sagan The Tale of Pigling Bland var gerð að söngleik eftir Suzy Conn og var hann sýndur 6. júlí 2006 á Toronto Fringe Festival hátíðinni í Toronto, Kanada.

Árið 1982 framleiddi BBC The Tale of Beatrix Potter. Þessi leiktúlkun á lífi Potters var skrifuð af John Hawkesworth og henni leikstýrt af Bill Hayes. Holly Aird og Penelope Wilton léku Beatrix á sínum yngri og efri árum. Rithöfundurinn Susan Wittig Albert gefur út ritröð ráðgáta þar sem líf Beatrix Potter er fært í söguform og einblína þær á tímabilið á milli andláts unnusta hennar og þar til hún gerist bóndi í Sawrey, Cumbria. Í desember 2006 gáfu Penguin Books út Beatrix Potter: A Life in Nature, nýja ævisögu eftir Lindu Lear, sem leggur áherslu á vísíndaleg afrek Potters bæði sem listakonu í grasafræði og áhugamanneskju um sveppafræði.[6]

Miss Potter, kvikmynd um ævisögu hennar með Renée Zellweger í aðalhlutverki var frumsýnd 29. desember 2006. Ewan McGregor er í hlutverki Norman Warne og Lloyd Owen leikur William Heelis.

Staðir til að heimsækja[breyta | breyta frumkóða]

Það eru nokkrir staðir opnir almenningi sem tengjast Potter, aðallega í Hawkshead svæðinu í Lake District héraðinu, þar á meðal:

  • Hill Top Farm – opið almenningi, en þó fyrir takmarkaðan fjölda gesta á dag. Búið er að endurgera býlið og koma því í nákvæmlega það ástand sem það var þegar Potter bjó þar.
  • The Beatrix Potter Gallery - staðsett í þorpinu Hawkshead, þar er til sýnis fjöldi upprunarlegra bréfa og teikninga.
  • The Beatrix Potter Attraction – þar eru til sýnis líkön og önnur verk Beatrix í bænum Windermere.
  • The Beatrix Potter Garden – í Dunkeld House í Perthshire í Skotlandi, nú heimili Birnam Institute stofnunarinnar, þar eru garðar sem endurskapa sögur Potters og eru til sýnis yfir sumarið.

Tilvitnanir[breyta | breyta frumkóða]

„I remember I used to half believe and wholly play with fairies when I was a child. What heaven can be more real than to retain the spirit-world of childhood, tempered and balanced by knowledge and common-sense...“ – Beatrix Potter’s Journal, 17. november 1896, frá National Trust safninu.

Brot úr ritaskrá[breyta | breyta frumkóða]

Teng efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. desember 2009. Sótt 25. júlí 2007.
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. ágúst 2007. Sótt 25. júlí 2007.
  3. Egoff, Shelia. Only Connect: Readings on Children's Literature. Oxford University Press, 1996
  4. http://www.bbc.co.uk/dna/h2g2/A642151
  5. http://www.britainunlimited.com/Biogs/Potter.htm
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. janúar 2013. Sótt 25. júlí 2007.

Annað lesefni[breyta | breyta frumkóða]

Skáldsögur[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]