Fara í innihald

Algirdas Julien Greimas

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Algirdas Julien Greimas (1917 - 1992) var litháískur táknfræðingur. Árið 1966 kom út eftir hann áhrifamikil bók um táknfræði (Sémantique Structurale). Hún byggir á formgerðarmálvísindum og kenningum Vladimir Propps um frásagnargerð, frásagnarliði og athafnasvið í rússneskum ævintýrum. Kenningar Greimasar eru þó víðtækari og snúast um lögmál frásagnarkerfisins í heild.

Líkön Greimas

[breyta | breyta frumkóða]

Greimas gerði greinarmun á yfirborði frásagnarinnar og djúpgerð (eða grundvallarformgerð) merkingar og frásagna. Grundvöllurinn að líkönum Greimasar er andstæðupör/-tvenndir og mismunur (í skilgreiningu Saussures) sem skapa ákveðin vensl milli ólíkra merkingareininga. Þessi líkön nýtast sem greiningartæki til að kortleggja einstaka texta en Greimas taldi þau vera lýsandi fyrir grundvallarvirkni merkingar/frásagna.

Til þess að skoða vensl þessara þátta bjó Greimas til líkan (le carré sémiotique) sem á íslensku hefur verið kallað merkingarferhyrninginn eða fiðrildalíkanið:

Merkingarferhyrningurinn
  • S1 og S2: ás móthverfu (axe de l'opposition)
  • ~S1 og ~S2: hvorugás (axe du neutre)
  • S1/~S1 og S2/~S2 (skálínur): ásar þversagna (axes des contradictions)
  • S1 og ~S2: bendlun (jákvæð bendivísun/deixis)
  • S2 og ~S1: bendlun (neikvæð bendivísun/deixis)

S1 og S2 mynda andstæðupar eða -tvennd (t.d. menning og náttúra, maður og dýr, karlkyns og kvenkyns). Vensl S1/~S1 og S2/~S2 eru þannig að ~S1 er neitun S1 en forsenda S2. ~S2 er neitun S2 en forsenda S1. Til dæmis:

  • S1: karlkyns
  • S2: kvenkyns
  • ~S1: ekki-karlkyns
  • ~S2: ekki-kvenkyns

Merkingarferhyrningur Greimasar takmarkast við þessa fjóra þætti. Hann er þó þess eðlis að fjöldi slíkra líkana getur verið til staðar í einni frásögn. Það sama á við um þátttökulíkan eða aktant-líkan (Schéma actantiel) Greimasar. Þetta líkan byggist á athafnasviðum Propps en fækkar þessum athafnasviðum úr 7 í 6:

  • Sendandi
  • Viðfang
  • Viðtakandi (andstæða sendandans)
  • Hjálparhella
  • Gerandi (andstaða viðfangs)
  • Andstæðingur (andstaða hjálparhellunnar)
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.